Morgunblaðið - 09.11.2017, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 09.11.2017, Blaðsíða 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. NÓVEMBER 2017 Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þetta er stór biti og mjög spenn- andi verkefni. Ef allt gengur upp held ég að ég verði fyrsti Íslending- urinn til að syngja Wotan allan,“ segir Bjarni Thor Kristinsson bassi sem tekið hefur að sér hlutverk Wot- ans eða Óðins í Niflungahringnum eftir Richard Wagner sem settur verður upp í Kassel í Þýskalandi á árunum 2018 til 2019. Fyrsta óperan af fjórum sem mynda hringinn, þ.e. Rínargullið, verður frumsýnd haust- ið 2018 og á næstu 18 mánuðum fylgja hinar þrjár í kjölfarið, þ.e. Valkyrjan, Siegfried eða Sigurður Fáfnisbani og Ragnarök. Óðinn er aðalgimsteinninn „Ég hef áður sungið hlutverk Óð- ins í Rínargullinu, sem er léttasti Óðinn raddlega séð. Hringurinn er í mínum huga krúnudjásnið í kórónu Wagner. Persónulega finnst mér Wotan þar vera aðalgimsteinninn og það var ástæða þess að ég sagði já við þessu tilboði, því ég vildi alls ekki missa af þessu tækifæri,“ segir Bjarni Thor, en þess má geta að hlutverk Óðins er skrifað fyrir barí- tón, en Bjarni Thor er sem kunnugt er bassi. „Ég er að reyna fyrir mér í öðru fagi. Hlutverk Óðins er skil- greint sem hetjubarítón og teygir sig dálítið upp fyrir hefðbundið bassa-raddsvið. Þó ég sé bassi ætla ég að skella mér út í djúpu laugina með þetta hlutverk,“ segir Bjarni Thor sem prófaði að syngja sig í gegnum alla erfiðustu kafla hlut- verksins með píanista áður en hann tók tilboðinu. „Ég vildi vera viss um að ég réði vel við þetta,“ segir Bjarni Thor sem æfir nú reglulega með píanista til að undirbúa sig fyrir átökin sem fram- undan eru. „Ég mun eyða góðum tíma í að syngja hlutverkið inn í röddina. Óðinn syngur í þremur óp- erum af fjórum í hringnum. Ég verð því með annan fótinn í Kassel næstu tvö árin rúmlega,“ segir Bjarni Thor sem er þaulkunnugur tónsmíðum Wagner enda hefur hann sungið nær öll bassahlutverkin í Wagner- óperum, þeirra á meðal nokkur hlut- verk í Niflungahringnum. Nóg að gera á næstunni „Þó ég bregði mér í hlutverk hetjubarítónsins Óðins mun ég eftir sem áður syngja mín bassa- hlutverk,“ segir Bjarni Thor sem staddur var í Napólí þegar blaða- maður náði tali af honum. Þar var hann staddur til að syngja hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvenna- búrinu eftir W.A. Mozart hjá Teatro di San Carlo. „Þetta er rómuð upp- færsla leikstjórans Giorgio Strehler sem ferðast hefur um heiminn frá því hún var frumsýnd fyrir um hálfri öld. Þetta er tímalaus uppfærsla sem er mjög vinsæl, enda viðtökur ávallt góðar. Ég hef verið svo gæfu- samur að syngja Osmin í þessari uppfærslu í fjórum óperuhúsum víðs vegar um Evrópu,“ segir Bjarni Thor og bendir á að það sé svolítið eins og að hitta gamlan vin að koma aftur að Osmin og fara í búninginn, sem ásamt leikmyndinni er geymdur í gámi milli uppfærslna. „Þegar ég var að byrja að syngja var það draumur minn að fá að syngja hlutverk styttunnar í Don Giovanni. Ég var sannfærður um að það yrði toppurinn á tilverunni. Síð- an hef ég komist að því að það eru mörg önnur bassahlutverk í tónbók- menntunum sem eru mun skemmti- legri og meira gefandi. Engu að síð- ur er lokasenan einn af hápunkt- unum í óperum Mozart þar sem styttan sækir Don Giovanni og fer með hann til helvítis.“ Að sögn Bjarna Thors er nóg að gera hjá honum á næstunni. Frá Napólí heldur hann til Kölnar þar sem hann syngur hlutverk fangels- isstjórans Franks í Leðurblökunni eftir Johann Strauß. „Á næsta ári bíður mín hlutverk styttunnar í Don Giovanni annars vegar í Köln og hins vegar í Peking auk hlutverks Baron Ochs í Rósariddaranum eftir Rich- ard Strauss í Düsseldorf svo eitt- hvað sé nefnt.“ Sönglögin veita innsýn í íslenska þjóðarsál Vegna anna sér Bjarni Thor sér ekki lengur fært að halda úti tón- leikaröðinni Perlur íslenskra söng- laga sem hann hefur staðið fyrir frá opnun tónlistarhússins Hörpu vorið 2011. „Fyrst var tónleikaröðin bara á sumrin, en vatt upp á sig þar sem við bættum við áramótatónleikum og síðan dagskrá bæði á vorin og haustin,“ segir Bjarni Thor og áætl- ar að haldnir hafi verið 400 til 500 tónleikar á síðustu sex árum. „Frá fyrsta degi hafa viðtökur verið mjög góðar. Þetta hefur verið góður tími og ánægjulegt hversu vel þetta hefur gengið,“ segir Bjarni Thor og bendir á að tónleikaröðin hafi fyrst og fremst verið ætluð er- lendu ferðafólki. „Markmiðið með röðinni var að kynna íslenska söng- tónlist fyrir ferðafólki og opna þenn- an heim fyrir því,“ segir Bjarni Thor og bendir á að tónleikagestir setji sig reglulega í samband við sig til að fá upplýsingar um hvar hægt sé að nálgast upptökur og nótur af þeim lögum sem flutt eru á tónleikunum. „Það hefur verið mjög gaman að verða vitni að því hversu hrifnir er- lendir gestir eru af íslensku sönglög- unum. Tónlist hverrar þjóðar er hluti af þjóðarkarakternum. Með því að mæta á tónleika er þannig hægt að fá ákveðna innsýn í íslenska þjóð- arsál,“ segir Bjarni Thor og tekur fram að sér hafi líka þótt ánægjulegt að geta veitt stórum hópi söngvara og tónlistarfólks tækifæri til að koma fram, en hann áætlar að á bilinu 40 til 50 söngvarar og hljóð- færaleikarar hafi komið fram á tón- leikaröðinni. „Ég er mjög þakklátur öllu þessu góða tónlistarfólki og finnst gott að hafa getað unnið í þessu frábæra tónlistarhúsi,“ segir Bjarni Thor sem frá upphafi hefur haldið utan um skipulag tónleikarað- arinnar samhliða störfum sínum sem óperusöngvari erlendis. Myndi taka slíku boði „Ég hef stundum þurft að sleppa verkefnum erlendis út af tónleika- röðinni, en langar nú til að sinna söngnum betur og þá hef ég ekki lengur tíma fyrir tónleikaröðina. Við ætlum að klára þá dagskrá sem við vorum búin að auglýsa. Þrennir hefðbundnir tónleikar verða í þess- um mánuði, þ.e. 11., 18. og 25. nóv- ember. Síðasta jóla- og áramóta- dagskráin okkar verður flutt í níu skipti frá 27. desember til 5. janúar,“ segir Bjarni Thor, en allar nánari upplýsingar um tónleikana má nálg- ast á vefnum pearls.is. Ekki er hægt að sleppa Bjarna Thor án þess að forvitnast hvenær Íslendingar fái næst að heyra í hon- um á óperusviðinu hérlendis, en seinasta hlutverk Bjarna Thors á sviði hér á landi var Dr. Bartolo í Rakaranum í Sevilla fyrir rúmum tveimur árum í uppfærslu Íslensku óperunnar. „Ef ég hefði tíma og mér væri boðið að syngja í óperu hér heima myndi ég örugglega segja já, því mér finnst mikilvægt að koma reglulega fram hér heima. Það hefur hins vegar ekkert verið leitað til mín seinustu tvö árin, en sem betur fer er nóg að gera erlendis,“ segir Bjarni Thor að lokum. Skelli „mér út í djúpu laugina“  Bjarni Thor Kristinsson mun syngja Óðin í uppfærslu á Niflungahringnum eftir Wagner í Kassel 2018 til 2019  Þarf vegna anna erlendis að hætta með tónleikaröðina Perlur íslenskra sönglaga Morgunblaðið/Eggert Spennandi „Ef allt gengur upp held ég að ég verði fyrsti Íslending- urinn til að syngja Wotan allan,“ segir Bjarni Thor Kristinsson. Rúmenskir kvikmyndadagar hefjast í Bíó Paradís í dag og standa til sunnudags, en þetta er í annað sinn sem slíkir dagar eru haldnir hér- lendis. Að þessu sinni verða á boð- stólum átta kvikmyndir sem eru þverskurður af rúmenskri kvik- myndamenningu. Opnunarmynd kvikmyndadag- anna er Ana, Mon Amour (Ana, ástin mín) frá 2017 í leikstjórn Cãlins Pet- ers Netzer þar sem Diana Cavallioti og Mircea Postelnicu fara með aðal- hlutverkin. Myndin hlaut Silfur- björninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu. Myndin verður sýnd klukkan 18 í dag, aðgangur er ókeypis og Diana Cavallioti verður viðstödd sýninguna og situr fyrir svörum áhorfenda að henni lokinni. Aðrar myndir sem sýndar verða eru Moartea domnului Lãzãrescu (Dauði herra Lãzãrescu) frá 2005 sem Cristi Puiu leikstýrði; A fost sau n-a fost? (sem á ensku er nefnd 12:08 East of Bucharest) frá 2006 í leik- stjórn Corneliu Porumboiu; 4 luni, 3 saptamâni si 2 zile (4 mánuðir, 3 vik- ur og 2 dagar) frá 2007 í leikstjórn Cristians Mungiu; Marti, dupã Crãciun (Þriðjudagur, eftir jólin) frá 2017 sem Radu Muntean leikstýrði; Morgen (Á morgun) frá 2017 í leik- stjórn Marians Crisan; Aferim! frá 2015 sem Radu Jude leikstýrði og De ce eu? (Af hverju ég?) frá 2015 í leikstjórn Tudors Giurgiu. Allar nánari upplýsingar um myndirnar, sem allar eru sýndar með enskum texta, má finna á vefn- um bioparadis. is. Rúmenskir kvikmynda- dagar haldnir í annað sinn Ástin Diana Cavallotti og Mircea Postelnicu í Ana, Mon Amour.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.