Morgunblaðið - 15.02.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 15.02.2018, Blaðsíða 16
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. FEBRÚAR 2018 ÁSKRIFTARHAPPDRÆTTI MORGUNBLAÐSINS Detroit Drögum alla fimmtudaga í 10 vikur og nöfn vinnings­hafa verða birt í Morgunblaðinu á föstudögum. S ú var tíðin að Detroit var einfaldlega þekkt sem Mót- orborgin (e. The Motor City), enda er hún frá fornu fari heimkynni stóru bílaframleið- andanna þriggja í Bandaríkjunum, General Motors, Ford og Chrysler. Blómaskeið bandarískra bíla var um leið blómaskeið Detroit, og þegar hallaði undan fæti hjá „The Big Three“ gaf að sama skapi á bátinn hjá borginni og það rækilega. En þegar einar dyr lokast opnast jafnan einhverjar aðrar og Detroit er um þessar mundir að endurnýja sig sem ein mest spennandi borg Bandaríkj- anna. Rétt eins og skapandi einstak- lingar flykkjast oft í hverfi þar sem ódýrt húsnæði er að finna, færa þangað líf og lit uns hverfið er með þeim eftirsóttustu (hugsið ykkur Williamsburg í Brooklyn og Grand- ann í Reykjavík) þá hefur ungt og drífandi fólk hópast til Detroit og fyrir bragðið er borgin nú kraum- andi pottur lista, menningar, mat- argerðar og almennrar lífsgleði. Það er bókstaflega allt að frétta af Detroit og magnað að upplifa stór- borg í miðri endurnýjun – eða hrein- lega endurfæðingu. Fyrir bragðið er hún núna jafnan kölluð og það rétti- lega, „The Comeback City.“ Hönnunarborg UNESCO Detroit er nefnilega borg sem er vön að koma til baka eftir hallæri, svo það var bara tímaspursmál hve- nær hún næði vopnum sínum á ný. Má í því sambandi nefna að mottó borgarinnar á latínu er „Speramus meliora, resurget cineribus“ sem út- leggst á íslensku sem „Vonumst eftir betri tíð, hún mun rísa úr öskunni.“ Einkunnarorð þessi komu til í kjöl- far þess að borgin brann nánast öll í miklum eldsvoða árið 1805. Rétt eins og fuglinn Fönix er Detroit á uppleið á ný, og ungt fólk, listamenn og frumkvöðlar hópast þangað. Tómum lóðum hefur verið umbreytt í mat- jurtagarða inni í borginni, atvinnu- húsnæði sem stóð yfirgefið um- breytt í veitingastaði og gallerí. Gróskan á sér engin mörk um þessar mundir í gömlu bílaborginni. Mikið til beinist hún að því að varðveita byggingar þær sem spruttu upp af fádæma krafti um miðja síðustu öld og þessa viðleitni hefur UNESCO verðlaunað með því að útnefna Detroit „Hönnunarborg“ árið 2015, fyrst allra bandarískra borga. Fyrir áhugafólk um arkitektúr og húsa- gerðarlist er ómissandi að heim- sækja Detroit því í borginni er sam- ankomið eitt stærsta safn af friðuðum húsum frá 19. öld og fyrri hluta þeirrar 20. Í því sambandi er nauðsynlegt að benda á Lafayette Park, en það er hverfi sem sjálfur Ludwig Mies van der Rohe skipu- lagði og þar eru margar módernísk- ar perlur eftir hann. Dansinn dunar í Detroit Áhugafólk um tónlist ýmiss konar fer gjarnan í hálfgerða pílagrímsför til Detroit því þar er gríðarmikil saga og hefð fyrir tónlist. Hér var hin goðsagnakennda plötuútgáfa Motown til húsa og Motown-sándið byggðist ekki á neinu smákanónum: meðal listamanna sem útgáfan var með á sinni könnu voru Michael Jackson og the Jackson 5, Stevie Wonder, Marvin Gaye, The Tempta- tions, The Four Tops, Smokey Rob- inson og The Miracles, Diana Ross og The Supremes, og Gladys Knight & the Pips. Þegar leið á níunda ára- tuginn sprakk teknó-senan aftur á móti út með látum og það stóðu ekki minni goðsagnir að þeirri tónlist: fremstir í flokki voru þremenningar sem kölluðust „The Belleville Three“, en það voru þeir Derrick May, Kevin Saunderson og Juan Atkins. Enn þann dag í dag er Detroit álitin höfuðborg teknó-tón- listar og síðan árið 2000 er raftónlist- arhátíðin „Movement Electronic Music Festival“ haldin í borginni við gríðarlegar vinsældir. Í ár verður hátíðin haldin dagana 26.-28. maí og meðal þeirra sem koma fram í ár eru Claude VonStroke, John Digweed, Modeselektor, Kevin sjálfur Saund- erson og svo Wu-Tang Clan. Allt fyrir íþróttaáhugafólkið Þekktasta liðið frá Detroit er vafa- laust NBA-körfuboltaliðið Detroit Pistons, sem varð NBA-meistari ár- in 1989 og 1990. Liðið var skipað harðskeyttum leikmönnum á borð við bakverðina Joe Dumars og Isiah Thomas, í bland við hreinræktaða fanta svo sem framherjana Dennis Rodman og John Salley, að ógleymdum miðherjanum Bill Laim- beer, sem að líkindum er einn verst þokkaði leikmaður deildarinnar fyrr og síðar of ekki að ósekju; það er ekki út í bláinn að liðið fékk í þá daga á sig viðurnefnið „The Bad Boys“. Í dag er talsvert annar bragur á Pi- stons-liðinu og nýjasta viðbótin er stjörnuleikmaðurinn Blake Griffin. Það er því ekki úr vegi að bregða sér á leik í Little Caesars Arena og sjá „stimplana“ eins og liðið heitir í leik. Af öðrum liðum er vert að nefna ruðningsliðið Detroit Lions, hafna- boltaliðið Detroit Tigers og loks ís- hokkíliðið Detroit Red Wings. Lifandi borg á uppleið Ef taka ætti eitt fyrirtæki sem ímynd upprisu þeirrar sem Detroit hefur gengið í gegnum hin seinni ár- in mætti gjarna nefna í því sambandi fyrirtæki sem kallast Shinola [sjæ- nóla]. Það er ungt að árum, stofnað árið 2011, og upphaflega sem fram- leiðandi armbandsúra. Mörgum þótti það glapræði á sínum tíma – hver vill eiginlega úr frá Detroit? – en með fallegri hönnun og almenni- legum gæðum þar sem handverkið er í hávegum haft hefur fyrirtækið blómstrað og framleiðir í dag breiða línu armbandsúra ásamt reiðhjólum og margs konar leðurvöru, og hefur náð því takmarki sínu að sýna svo ekki verður um villst að það er vel hægt að framleiða hluti ennþá í Bandaríkjunum. Shinola rekur í dag verslanir víða um Bandaríkin en flaggskipsbúðin við 441 W Canfield er einkar glæsileg og gaman að koma þar við, þó ekki nema til að skoða sig um og dást að því sem fyrir augu ber. Matgæðingar eru óvíða í betri málum en í Detroit um þessar mund- ir, þökk sé sprengingu í veitinga- stöðum, kaffihúsum og allra handa matsölustöðum. Vert er að benda sælkerum á Dime Store í Chrysler House-byggingunni, þar sem hægt er að fá besta brönsinn í borginni all- an daginn; Standby er sá staður sem hristir bestu kokteilana og þar á meðal er hinn vinsæli og eiturgræni Snake in the Grass. Ostborgararnir eru að sama skapi ljúffengir. Fyrir huggulega stund á veitingastað í miðborginni má mæla með hinum vinsæla Wright & Co, sem er mitt á milli þess að vera afslappaður og sparilegur. Mikilvægt er að muna að glápa ekki um of ef þú sérð frægt fólk en það það er upp til hópa fasta- gestir á þessum stað. Þú hefur því val þegar kemur að Detroit – að láta þér nægja að lesa um borgina sem blómstrar um þess- ar mundir eða upplifa sprenginguna af eigin raun. Upprisa Mótorborgarinnar Áningarstaður Sælkerar ættu að leggja leið sína í Dime Store í Chrysler House því þar má fá ljúffengan bröns frá morgni til kvölds. Módernismi Detroit hefur að geyma ótal merkilegar byggingar og meira að segja heilt hverfi – Lafayette Park – er eftir Mies van der Rohe. AFP Flugkappinn Hinn öflugi Blake Griffin er genginn til liðs við körfuboltaliðið Detroit Pistons en að troða boltanum í körfuna eru hans ær og kýr. Hönnunarverslun Flaggskipsbúð Shinola er í Detroit og þar fást armbands- úr, reiðhjól, plötuspilarar og fleira, allt hannað og handunnið í borginni. Detroit Bæjarstæði bílaborgarinnar miklu er ekki amalegt þar sem hún stendur á landamærum Bandaríkjanna og Kanada við bakka Detroit-árinnar sem rennur milli St. Clair-vatns og Erie-vatns.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.