Læknablaðið - 01.12.2017, Blaðsíða 53
kvenlæknar landsins voru Kristín Ólafs-
dóttir f. 1889 sem varð cand. med. 1917,
fyrst íslenskra kvenna, Katrín Thorodd-
sen f. 1896 og Jóhanna Guðmundsson
f. 1898 er starfaði í Danmörku. Einn
Færeyingur (Níels Finsen), tveir Danir
og einn Þjóðverji sem fæddir voru á
tímabilinu komu hér að sinna námi eða
læknisverkum.
Af læknunum 175 voru flestir fædd-
ir í Reykjavík eða 29 enda mátti hún í
aldarlok teljast höfuðstaður Íslands. Af
sýslum landsins ber Húnavatnssýslu
hæst með 27 fædd læknisefni. Er það
níföld fjölgun frá fyrri hluta aldarinnar.
Af þessum 27 voru 74% bændasynir.
Nafntogaðastir þessara lækna og allir
fæddir á sama áratug munu „Guð-
mundarnir þrír“ G. Björnsson land-
læknir (f. 1864), G. Hannesson prófessor
(f. 1866) og G. Magnússon prófessor
(f. 1863)
Ýmsum hefur fundist það undrum
sæta hve margir húnvetnskir bænda-
synir voru sendir í svo dýrt nám í erfiðu
árferði. Leitt hefur verið getum að því
að hér kunni sauðasalan svonefnda
að hafa skipt máli. Á síðari hluta 19.
aldar græddu íslenskir bændur veru-
lega á sölu sauðfjár á fæti til erlendra
kaupmanna sem síðan fluttu féð utan,
einkum til Bretlands, fóðruðu það um
hríð og slátruðu síðan. Er þess getið að
eitt árið hafi 80.000 fjár verið flutt utan.
Bændum var borgað í reiðufé sem þeim
var hagur að. Árið 1896 voru þessi við-
skipti bönnuð í Bretlandi og þvarr þar
með þessi tekjulind.
Það kann að styðja þessa skýringu
að á síðasta áratug 19. aldar fædd-
ust flest læknisefnin á einum áratug
aldarinnar í Húnavatnssýslu og voru 9
talsins. Fyrstu tvo áratugi nýrrar aldar
virtist ævintýrið úti því þá fæddust í
sýslunni aðeins tveir læknar. Þeir voru
bændasynir og grannar og skildi Laxá
á Ásum ein að jarðirnar. Þetta voru þeir
Sigurður G. Sigurðsson síðar berkla
yfirlæknir og landlæknir sem fæddist á
Húnsstöðum 1903 og Hjalti Þórarinsson
prófessor í handlækningum er fæddist á
Hjaltabakka 1920.
Heimild
Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi.
Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1944.
Guðmundarnir þrír.
LÆKNAblaðið 2017/103 573