Morgunblaðið - 14.07.2018, Qupperneq 16
STANGVEIÐI
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Þrátt fyrir hamfarirnar í Hítardal
um liðna helgi, þar sem gríðarmikil
skriða hefur fallið yfir farveginn of-
arlega og þurrkað upp langan kafla
neðan hennar, heldur lax áfram að
veiðast í ánni en 56 laxar veiddust í
liðinni viku, á sex stangir. Áin hefur
fundið sér nýjan farveg meðfram
skriðunni og niður þverána Tálma,
og að sögn Birtu Björndóttur, sem
var við veiðar þriðjudag til fimmtu-
dags, berst talsvert af mosa og öðr-
um gróðri niður ána sem er skiljan-
lega nokkuð skoluð, auk þess sem
hún er talsvert bólgin og vatnsmikil
eftir rigningarnar undanfarið.
Birta segir að þar sem sum hefð-
bundin veiðisvæði séu dottin út hafi
verið veitt þéttar en vant er. „Og
það veiddist, við fengum fimmtán
eða sextán laxa á stangirnar sex,“
segir hún. „Sum svæði voru betri en
önnur, allir settu í fisk og sumir
náðu að landa,“ segir Birta sem var
óheppin því eftir að hafa þreytt
sannkallaðan stórlax, sem leið-
sögumaðurinn sagði hafa verið „níu-
tíu plús“, sleit laxinn tauminn við
háfinn.
„Það var svekkjandi,“ segir hún.
Með því besta sem sést hefur
Mjög góð veiði hefur verið í Þverá
og Kjarrá í sumar; veiðin í ánni með
veiðisvæðin tvö er á toppi listans yf-
ir bestu veiðina, 1.186 laxar höfðu
verið færðir til bókar á miðviku-
dagskvöldið var, sem er nokkuð
betra en undanfarin ár á sama tíma,
en nær 350 laxar veiddust í liðinni
viku á stangirnar 14, um þrír og
hálfur lax á stöng á dag að meðaltali.
„Þetta er með því besta sem sést
hefur í ánni og er klárlega besta
veiðin síðan 2013,“ segir Ingólfur
Ásgeirsson staðarhaldari en það
sumar veiddust 3.374 laxar í Þverá
og Kjarrá, sem er met.
„Við erum bara búin að veiða í
rúman mánuð, bróðurparturinn af
júli er eftir, allur ágúst og inn í sept-
ember, það er stórstraumur núna og
fínar göngur að koma inn. Síðasta
holl í Þverá var með 98 laxa og á
sama tíma veiddust 60 á fjallinu, í
Kjarrá.“
Ingólfur segir hlutfallið af stórlaxi
í veiðinni afar gott, það besta sem
menn hafa séð undanfarna áratugi.
„Stórlax er þriðjungur af veiðinni
enn, og framan af júní eingöngu, og
svo veiðist mikið af mjög fallegum
67-69 cm virkilega fallegum smálaxi,
sem er mjög vel haldinn.“
Á þessu rigningasumri eru að-
stæður mjög góðar hvað vatnsstöðu
varðar. „Það verður gott vatn út
sumarið – nú má fara að stytta upp,“
segir hann og hlær. „Það mætti fara
að sjást til sólar.“
Gott í Brennu og Straumum
Ingólfur var að koma úr Brennu,
ármótum Þverár og Hvítár í Borg-
arfirði, þar sem veitt er á þrjár
stangir. Og þar hefur veiðin verið
frábær, um 260 laxar hafa verið
færðir til bókar. „Brennan á að geta
farið í 400 til 500 laxa í sumar. Það
er fiskur um allt og auk laxins er
mikið af mjög fallegum sjóbirtingi
að ganga, þriggja til sjö punda fisk-
ar. Birtingurinn er mættur óvenju-
snemma og síðasta holl fékk tíu. Það
er skemmtileg viðbót við frábæra
laxveiði.“
Annað ármótasvæði í Hvítá,
Straumarnir við Norðurá, voru hæg-
ir í gang. Þar veiddust aðeins 12 lax-
ar í júní og þótti lélegt. „Það er gjör-
breytt staða þar, því nú hafa veiðst
þar hundrað laxar á tíu dögum,“
segir Ingólfur. Veiðimenn sem voru
þar í gærmorgun náðu 14 löxum fyr-
ir hádegi á stangirnar tvær. „Það er
lax upp og niður alla Straumana.
Það er gaman að sjá veiðina í
Borgarfirði á svona góðu róli. Upp
úr aldamótum var hlutfall stórlax
þar komið niður í fimm til tíu pró-
sent en með góðri veiðistjórnun, að
stórlaxi sé sleppt og gengið vel um
þessa auðlind, eru menn að upp-
skera, að sögn fiskifræðinga, bestu
stöðu sem sést hefur á stórlaxa-
stofnunum síðan um 1990. Allt að
þrjátíu prósent laxins sem gengur
er stórlax. Þetta er ótvíræður bati.“
Og Ingólfur spáir fyrir um veiðina
í Borgarfirði í sumar: „Þetta verður
eit af stóru veiðiárunum.“
Smálax gengur af krafti
Veiðimenn segja alls staðar sögur
um að smálaxinn gangi nú í árnar í
ágætum mæli. Í Sporðaköstum á
Mbl.is sagði af Ólafi Kr. Ólafssyni
sem var við veiðar í Soginu og fékk
með félögum sínum tíu laxa á einum
degi. Hann sagði fisk hafa verið á
nánast öllum veiðistöðum en þeir fé-
lagar voru að veiða Bíldsfellssvæðið.
„Smálaxinn var að koma inn af full-
um krafti,“ sagði hann. Öflugar smá-
laxagöngur eru sagðar í Þjórsá, og
njóti veiðimenn við Urriðafoss góðs
af, veiðin glæddist líka mikið í Rang-
ánum í vikunni og þá er til að mynda
mikið af smálaxi mætt á neðstu
svæði Langár, Grímsár og Laxár í
Kjós.
Norðan heiða mætir smálaxinn
alltaf seinna en er farinn að láta sjá
sig, til að mynda í Húseyjarkvísl þar
sem leigutakinn segir hann óvenju-
snemma á ferðinni. Og blaðamaður
var fyrir neðan Ægissíðufoss í Laxá
í Aðaldal í vikunni, þar sem stórlax
hafði einokað veiðibækur, þegar
smálaxar tóku að skríða inn. Nokkr-
ir tóku flugur veiðimanna þar vilj-
ugir og tíðindin af þeim glöddu
veiðimenn sem biðu þeirra ofar í
ánni.
„Þetta verður eitt af stóru veiðiárunum“
Besta veiði í Þverá-Kjarrá síðan
metsumarið 2013 Veiðist í Hítará
Aflahæstu árnar
Heimild: www.angling.is * Tölur liggja ekki fyrir
0 250 500 750 1.000
Staðan 11. júlí 2018
Veiðivatn
Stanga-
fjöldi Veiði
12. 7.
2017
13. 7.
2016
Þverá / Kjarrá 14 1.186 1.001 1.003
Norðurá 15 834 794 801
Urriðafoss í Þjórsá 4 718 531 *
Miðfjarðará 10 515 749 1.077
Haffjarðará 6 487 420 565
Blanda 14 417 514 1.300
Ytri-Rangá og vesturbakki Hólsár 18 401 570 1.720
Langá 12 346 532 471
Elliðaárnar 6 325 345 309
Grímsá og Tunguá 8 301 361 175
Laxá í Kjós 8 276 251 162
Brennan í Hvítá 3 229 168 *
Eystri-Rangá 18 216 145 1.442
Laxá í Aðaldal 17 175 171 378
Laxá á Ásum 4 172 242 163
Morgunblaðið/Einar Falur
Átök Þorri Hringsson glímir við 88 cm nýgengna hrygnu sem tók flugu hans í Sjávarpolli í Laxá í Aðaldal.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Skoluð Veiðimenn kasta á Breiðina í Hítará frá hinu veiðihúsinu, Lundi.
Áin er bólgin og talsvert skoluð og ber með sér gróður eftir að skriðan féll.
16 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. JÚLÍ 2018
Allt um sjávarútveg
Vogir sem sýna verð
á vörum eftir þyngd
Löggiltar fyrir Ísland og
tilbúnar til notkunar
ELTAK sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum
VERSLUNAR-
VOGIR