Skírnir - 01.09.2010, Page 81
337um leikskáldið kamban
fjórða áratugnum, fái mjög þokkalegar viðtökur við frumflutning-
inn, er allt gert til að gera lítið úr þeim eftir styrjöldina, hvaða hvatir
sem til þess lágu. Tilraun til að eignast vettvang í Bretlandi og skapa
sér síðar vinnugrundvöll í Þýskalandi mistekst að mestu. Og þegar
stríðið brýst út flyst hann aftur til Danmerkur og heldur sér öll
stríðsárin mest til hlés sem höfundur, þó að tvö síðustu verkin séu
leikin 1941, þegar samvinnupólitíkin er í fullu gildi. Hann fæst aðal-
lega við að þýða íslensk ljóð á dönsku. Hann reynir að komast til
Svíþjóðar, en bíður á annað ár leyfis. Leikrit sem finnst í fórum
Kambans eftir lát hans virðist eiga að gerast í Svíþjóð. Efni þess er
á þá leið, að ekki hefur skáldið haft trú á því að sá friðarboðskapur
fengist leikinn í Danmörku við þáverandi aðstæður.
Á sú skoðun rétt á sér að í síðustu verkum sínum hafi skáldið
reifað seglin og stórhugurinn dvínað? Og ef svo var, hvað olli? Var
það sá kuldi sem iðulega andaði að honum í Danmörku? Var það
áhugaleysi annarra þjóða, til dæmis að sýna leikverk hans, sem særði
stórlæti hans, sem þrátt fyrir allt hafði verið orðaður við Nóbels-
verðlaunin eftir útkomu skáldsögunnar Skálholt?109 Var það ástand -
ið í heiminum? Var einhver strengur brostinn? Vel má skoða betur
innviði verkanna í ljósi slíkra spurninga, en það verður að bíða ann-
ars færis.
Því hefur verið haldið fram að Kamban hafi ekki verið ýkja
afkastamikill höfundur.110 Sá sem hér heldur á penna getur ekki
tekið undir þá skoðun. Auk þeirra verka sem hér hafa verið nefnd,
samdi hann þrjú kvikmyndahandrit sem aldrei urðu að myndum
og hafa að minnsta kosti tvö þeirra varðveist ásamt drögum að
mörgum öðrum leikritum.111 En þó að Guðmundur Kamban
hefði ekki samið nema tvö verk um ævina, leikritið Vér morðingjar
og skáldsögurnar Jómfrú Ragnheiður og Mala domestica, myndi
hann eigi að síður teljast í hópi fremstu rithöfunda Íslendinga fyrr
og síðar.
skírnir
109 Sjá Harald Schiller í Sydsvenska dagbladet, 20. október 1933. Þar eru nefndir auk
Guðmundar, Gunnar Gunnarsson, Johannes Jørgensen og Johannes V. Jensen
sem fékk verðlaunin 1944.
110 Helga Kress 1970b: 164.
111 Lbs. 3503 4to.
Skírnir haust 2010_Layout 1 27.10.2010 18:02 Page 337