Skírnir - 01.09.2010, Page 156
takast á hendur hefðbundin kynhlutverk sín með því að eigna sér
valdastöðu sem alla jafna tilheyrir karlkyns persónum. Þær leitast
því næst við að viðhalda valdastöðu sinni með því að afneita biðlum
sínum og lítilsvirða þá. Söguþráður sagnanna lýsir jafnan þessum
átökum milli meykóngsins og biðilsins og því hvernig meykóng-
urinn er að lokum yfirbugaður af vonbiðli sínum. Það má því líta
svo á að frásagnarfræðileg uppbygging sagnanna gangi út á að um-
bylta ákveðinni samfélagsgerð sem talist geti ógn við ríkjandi hug-
myndafræði um kynhlutverk og samfélagsstöðu. Leitast verður því
við að sýna hvernig túlka má meykóngasögurnar sem ákveðna
(hvort heldur meðvitaða eða ómeðvitaða) viðleitni til að staðsetja
kyngervi innan samfélags með því að staðsetja það innan frásagnar-
heimsins.
Uppruni og aðlögun meykóngaminnisins
Almennt er talið að eftirtaldar sögur tilheyri meykóngahefðinni:
Dínus saga drambláta, Clári saga, Nitida saga, Sigrgarðs saga
frækna, Sigurðar saga þǫgla, Viktors saga ok Blávus og Partalopa
saga. Gibbons sögu, sem að öllum líkindum er afleidd útgáfa af
Partalopa sögu, ætti einnig að flokka sem meykóngasögu. Sögurnar
eru allar, að frátaldri Partalopa sögu og mögulega Clári sögu, frum-
samdar á norrænu. Marianne Kalinke (1990) telur jafnframt forn-
aldarsögurnar Hrólfs sögu Gautrekssonar og Hrólfs sögu kraka til
meykóngasagna. Hins vegar má benda á að þrátt fyrir að fornald-
arsögurnar tvær hafi vissulega að geyma minnið um meykónginn, þá
myndar það minni ekki grunn sögunnar. Fremur er um efnisþátt að
ræða í lengri frásögn sem eftir sem áður beinist að fjölskyldu-
tengslum, afrekum og örlögum karlhetjunnar.3 Sagan af Þórbjörgu
412 sif ríkharðsdóttir skírnir
3 Þó ber að taka fram, eins og Kalinke bendir á, að greinileg tengsl eru á milli forn-
aldarsagnanna tveggja og rómansanna hvað varðar ákveðin efnisatriði og frásagn-
arþætti. Seinni tíma aðgreining á milli fornaldar- og riddarasagna (sem byggir
aðallega á efnistökum, þ.e. innlendum vs. erlendum persónum, atburðarás eða
staðsetningum) hefur að öllum líkindum minna með skilning miðaldamanna á
bókmenntategundunum að gera en okkar eigin (sjá til að mynda grein Torfa Tul-
inius (1990) þar sem hann fjallar um hlutverk landafræði í sögunum sem og við
flokkun þeirra).
Skírnir haust 2010_Layout 1 27.10.2010 18:03 Page 412