Skírnir - 01.09.2010, Page 250
áttu og þeim sýndist. Þá var helsti samfélagsvandinn yfirdrottnun
ríkisvaldsins, slíkt bann hefði aukið það ofurvald. En nú eru ýmis
teikn á lofti um að hið nýja íslenska stórauðvald geti haft óviður-
kvæmileg áhrif á flokka og kosningar, samanber áður gefin dæmi.
Við þessar aðstæður er rétt að takmarka frelsi til að dæla peningum
í pólitík eins og Bandaríkjamenn hafa reyndar gert. Slík frelsis-
skerðing eykur heildarfrelsið meira en sem nemur skerðingunni.
Tökum annað dæmi engu síður handfast. Noregur er eitt síðasta
vígi forsjárkratisma, t.d. er ríkisfyrirtækið Statoil-Hydro lang-
öflugasta fyrirtæki landsins og kvikmyndahús eru flest hver í eigu
bæjarfélaga. Norskir auðkýfingar stunda leistann sinn og eru ekki í
því að kaupa stjórnmálamenn eða leggja löndum sínum lífsregl-
urnar.18 Því verður ekki séð að nauðsyn beri til að berjast gegn
auðvaldi í Noregi, fremur að efla einkaframtakið, t.d. með því að
gefa einkaaðilum fleiri möguleika í olíuvinnslunni.
Hvað um það, hafi frelsið eðliseiginleika þá er það sumpart nei-
kvætt frelsi en um leið að einhverju leyti fall af mætti og mögu-
leikafjölda. Það þýðir á mannamáli að því fleiri möguleika sem
menn hafa, því frjálsari eru þeir. Að eiga engra kosta völ er að vera
ófrjáls og fjarvera ytri þvingana sem slík gerir okkur ekki endilega
frjáls. Yfirleitt þarf máttar með, það er máttarþáttur í frelsinu.
Kannski mætti efast um að máttur sé byggður inn í frelsishugtakið
en allavega verða menn að hafa mátt til að geta hagnýtt sér frelsi svo
hugtakið um mátt til að færa sér frelsi í nyt er alltént nátengt frelsis-
hugtakinu. „Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt“19, frelsi
væri lítils virði ef enginn gæti fært sér það í nyt. Og þá höfum við
séð hver sannleikskjarninn er í boðskap sextíuogáttakynslóðarinnar:
Við getum ekki notið samfélagsfrelsis nema að sálin sé sæmilega
frjáls, við verðum að hafa einhvern mátt. Máttinn til fólksins,
„power to the people!“ Til að efla þennan mátt verður að koma í veg
fyrir formgerðarofbeldi að svo miklu leyti sem það er mögulegt.
506 stefán snævarr skírnir
18 Íslenskir auðherrar eru sífellt með túlann opinn, lesandi löndum sínum pistilinn,
t.d. með endalausum samþykktum á kaupsýslufundum eða í gegnum Við skipta -
ráð.
19 Svo yrkir Tómas Guðmundsson í kvæðinu Fjallganga (Tómas Guðmundsson
1993: 97–100).
Skírnir haust 2010_Layout 1 27.10.2010 18:03 Page 506