Skírnir - 01.09.2010, Síða 256
Ný rannsóknaraðferð — örkolagreining
Fornleifastofnun Íslands hefur styrkt íslenskar rannsóknir með samvinnu
við erlenda vísindamenn. Gott dæmi um þetta er að finna í Viðhengi 3 í
skýrslu stofnunarinnar um uppgröftinn 2003 við Aðalstræti 14–16. Höf-
undur viðhengisins er Alex Chepstow-Lusty (2004), og titillinn er:
High resolution pollen and microcharcoal analysis from a Viking
period skáli at Aðalstræti, Reykjavík, Iceland: Evidence of pre-Land-
nam settlement?
Höfundurinn var fyrst og fremst að rannsaka breytingar í hlutfalli frjó-
korna frá ýmsum plöntutegundum á öldum fyrir og eftir 870, en tók nú
með talningu örkola í sniðunum. Þetta er í fyrsta skipti sem þessari álitlegu
aðferð, örkolagreiningu, er beitt hér á landi. Hún er liðlega fimm áratuga
gömul og hefur einkum verið notuð í rannsóknum á áhrifum skógarbruna
á gróður á liðnum öldum og árþúsundum. Í löndum þar sem skógarbrunar
voru tíðir nýtist þessi aðferð ekki í fornleifarannsóknum.
Aðferðin er í grundvallaratriðum einföld og auðskilin. Öll viðarkol í
fornum jarðlögum á Íslandi eru mannvistarleifar því að þau myndast ein-
ungis við bruna, og allur eldur á Íslandi var af völdum manna. Þegar viði var
brennt í bæjum landnámsmanna, bárust með reyknum og settust á yfirborð
jarðar agnarsmá viðarkolakorn, örkol (um 0,1 mm í þvermál eða minni)
sem eru sótið sem gerir reykinn sýnilegan. Mest settist af þeim þétt við
bæinn, einkum stærri kornin, en önnur náðu mun lengra, svipað og fíngerð
aska frá eldfjöllum.
Með tímanum lagðist nýr jarðvegur ofan á örkolin og ný örkol í nýjan
jarðveg, svo lengi sem eldað var á staðnum. Ekki er mögulegt að nota ör-
kolin til kolefni-14 greininga, þau eru í of litlu magni, en aldur þeirra má
finna á annan hátt. Þau liggja í örþunnu láréttu jarðlagi eins og öskulögin
frá eldfjöllum og þau má tímasetja út frá lóðréttri afstöðu örkolalagsins til
þekktra öskulaga. Aðferðin hefur verið einfölduð á síðustu árum; traustari
niðurstöður fást nú og á einfaldari hátt, með því að einangra örkolin með
efnafræðilegri aðferð og telja þau síðan. Örkolagreining getur orðið öflugt
verkfæri í íslenskum landnámsrannsóknum.
Örkolagreiningin við skálann í Aðalstræti
Höfundur viðhengisins, Alex Chepstow-Lusty, mældi þéttleika örkola í
2,0 cm þykkum sneiðum í þremur lóðréttum sniðum við leifar víkingaaldar-
512 páll theodórsson skírnir
Skírnir haust 2010_Layout 1 27.10.2010 18:03 Page 512