Skírnir - 01.09.2010, Page 279
þungamiðja ljóðsins, og einkennir myndmál þess, í því felst að ímynd-
unaraflið hljóti að skapa lífsreynslu úr brotum, þarmeð er komið að
hlutverki skáldskaparins. Það er ekki ólíklegt, að Halldór hafi haft ljóð
Mallarmé í huga, en ekki sé ég nánari svip með ljóðunum en fyrrnefnda
umgerð með þessar þrjár persónur í skógi … (Örn Ólafsson 1992: 48)
Þorsteinn segir:
Meðal frægustu ljóða þessarar tegundar (þ.e. symbólismans) er
„Síðdegi skógarpúkans“ eftir Mallarmé, sem ósennilegt er að Halldór
hafi þekkt, enda eru kvæðin mjög ólík þó svo ýmsir þættir séu þeim
sameiginlegir. (Þorsteinn Þorsteinsson 2010: 172)
Um bók mína Seiðblátt hafið segir hann:
Fyrir skömmu kom út viðamikil könnun á ellefu íslenskum skáldum
sem kenna má við symbólisma. Henni er þó ekki ætlað að vera tæmandi
úttekt á þeim þætti skáldskapar okkar og þar vantar ljóð sem ættu þar
tvímælalaust heima að mínum dómi. (Þorsteinn Þorsteinsson 2010: 175)
Þessi umsögn er nánast eins röng og verið getur. Af framansögðu leiðir að
ég er vantrúaður á endanlegar niðurstöður. Þær eru til umræðu langtímum
saman, er oft hrundið eða þær endurskoðaðar á annan hátt, í ljósi nýrrar
þekkingar eða aðferða. Og vissulega hef ég aldrei ímyndað mér að ég gæti
gefið „tæmandi“ afgreiðslu einhvers máls. Hinsvegar hef ég að sjálfsögðu
af fremsta megni reynt að gefa alhliða og yfirvegaða mynd viðfangsefnisins.
Þessi bók mín er samanburður á ljóðagerð helstu skálda rómantíska tíma-
bilsins, frá 1809 til um 1900 annarsvegar, en hinsvegar ellefu sýmbólskra
skálda, á tímabilinu 1891 til 1933. Þar sem ég tek aðeins 5–7 ljóð til athug-
unar eftir hvert skáld, segir sig sjálft að þar „vantar“ umfjöllun um ýmis
ljóð! Hvernig hefði átt að fjalla um þau öll, mörg hundruð?
Annað mál er, að fyrst Þorsteinn fjallar um symbólisma, og ættfærir
umrætt kvæði Halldórs Laxness til þeirrar stefnu, þá hefðu verið eðlileg
vinnubrögð að tilfæra helstu skilgreiningar á henni, t.d. úr nýlegu bindi Ís-
lenskrar bókmenntasögu Máls og menningar. Einnig er prýðileg lýsing
stefnunnar í formála Guðrúnar Bjartmarsdóttur og Ragnhildar Richter
fyrir úrvalsritum Huldu. Og sjálfur tók ég afstöðu til þessarar umfjöllunar
í niðurstöðum umræddrar bókar minnar. Það er síður en svo almennt
samþykki um einkenni stefnunnar né um öll skáld sem til hennar beri að
telja. Ég færði rök gegn ýmsum fyrri ályktunum, m.a. sagði ég að:
andmæliskírnir 535
Skírnir haust 2010_Layout 1 27.10.2010 18:03 Page 535