Skírnir - 01.09.2010, Page 284
í örbylgjuofninum og drekka tvo bjóra úr dós og horfa á sjónvarpið
á meðan. Kannski gamla bíómynd, kannski Taggart, kannski Benny
Hinn á Omega ef hann er í kvöld, það er alltaf svolítið gaman að
honum þó hún sé ekkert sérstaklega trúuð: það fylgir honum líf og
fjör, minnir á Kalla, alltaf jákvæður og brosmildur. Hann hefur líka
þennan kraft til að brjótast inn í líf fólks sem eitthvað er að hjá og
laga það á svipstundu með því að hrinda fólkinu eða láta heilagan
anda hrinda því, hún er ekki viss. Sjálf er hún hætt að kæra sig um
lækningar og breytingar, og auk þess er ekkert að henni annað en að
lífið er fyrir utan og hún er ekki orðin neitt gömul.
Hún er ekkert gömul og samt er langt síðan nokkur hefur
komið, langt síðan hún hefur hitt nokkurn, langt síðan hún hefur
hrifist, það er langt síðan hún hefur hlegið og kjaftað og sungið,
langt síðan hún hefur kysst, langt síðan allt. Hún fer í vinnuna í
bankanum á hverjum degi og situr á gjaldkerastólnum sínum og af-
greiðir fólkið sem enn hefur ekki komið sér upp einkabanka — en
það er ekki að hitta fólk. Á leiðinni heim fer hún í búð og þar verður
stundum á vegi hennar alls konar fólk sem segir alls konar hluti við
hana. En það er ekki að hitta fólk. Stundum kemur Sveinsína systir
Kalla í heimsókn og sest þá við eldhúsborðið og talar um börnin
sín og aðra í plássinu og börnin þeirra og tengdafólk þeirra og
frændfólk tengdafólks þeirra — og börnin þeirra. En það er ekki að
hitta fólk.
Stundum hringir Gummi. Hann kom í fyrrasumar, var bara
einn, spurði hvort hann mætti ekki fá að koma yfir helgi, hann
langaði að elda handa henni þorsk og gefa henni hvítvín, hafa það
notalegt. Hann er þannig, nærgætinn — elskulegur. Svo kom hann
upp úr hádegi á föstudegi með fullan bakpokann af alls konar
kryddi og grænmeti, hvítlauk og engifer og kóríander og dill, tóm-
ata, fennel og guð má vita hvað, nokkrar hvítvínsflöskur sem hann
setti strax í kælinn, hann hnoðaði deig í brauð á örskotsstundu og
var svo rokinn niður á bryggju til að athuga hvort hann fengi þorsk
en fékk hann hvergi og fór í 10/11 búðina þar sem bara var hægt að
fá frosin ýsuflök en lét samt ekki hugfallast heldur fór til pabba síns
í Smiðjuna þar sem einhver kallinn átti bát og var til í að fara með
honum og renna fyrir þorsk. Hann er þannig, hann Gummi. Hann
540 guðmundur andri thorsson skírnir
Skírnir haust 2010_Layout 1 27.10.2010 18:03 Page 540