Skírnir - 01.09.2013, Blaðsíða 89
SKÍRNIR
ÍSLENSK MÁLSTEFNA ...
319
á innbyrðis vexti frekar en bókmenntir annars staðar; málheimur
bókmenntanna sem og samfélagsins alls nærist líka á þýðingum.
En vitund um slíkar „flækjur“ hefur ekki mikil áhrif á hug-
myndina um eyjarmenninguna, þar sem sagan, þjóðin, menningar-
arfurinn, náttúran, tungan og bókmenntirnar mynda lífræna heild.
Þetta er öflugur kokteill og sá sem þetta skrifar getur t.d. ekki annað
en viðurkennt að hafa fundið áhrif hans. Það má verja þennan sam-
slátt, sjá í honum örvandi og uppbyggilegt afl og færa fyrir honum
menningarsöguleg rök. Þau tengsl sem Islendingar eiga í tungumáli
sínu aftur til miðalda eru vissulega um margt sérstök. Baldur Jóns-
son (2002:415) segir á einum stað að eitt helsta markmið málverndar
sé að koma í veg fyrir röskun á skilningi okkar á málarfinum: „Sam-
hengið í máli og bókmenntum íslendinga á engan sinn líka í víðri
veröld (ekki einu sinni í Grikklandi eða Israel ef einhver skyldi
halda það). Ef við glötum því verður lítil næring eftir handa íslensku
þjóðerni til að lifa á.“ Þyki einhverjum hér djúpt tekið í árinni, má
benda á umfjöllun Hreins Benediktssonar um stöðugleika íslensks
máls (í rituðu formi), þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að
við getum enn „lesið okkur að kalla að fullu gagni íslenzkt mál frá
upphafi ritaldar, án verulegs sérlærdóms. Enda þótt ekki verði mælt
í tölum, að hve miklu leyti tvö mál eða tvö málstig eru gagnkvæmt
skiljanleg, er þó ekki fjarri sanni, til samlíkingar, að áætla, að okkur
veitist álíka erfitt að lesa 12.-13. aldar íslenzku eins og flestum ná-
grannaþjóðum okkar að lesa móðurmál sitt t.d. frá 17. eða 18. öld“
(Hreinn Benediktsson 1964: 37).
Þetta samhengi aftur til síðmiðalda og þeirrar gróskumiklu
orðlistar og ritmenningar sem þá viðgekkst á Islandi er vitaskuld
mjög skýrt dæmi um menningararf og gildi sögulegrar geymdar og
ræktarsemi. Jakob Benediktsson segir í grein um íslenskan orða-
forða að framfylgja þurfi hreintungustefnunni af hófsemi; „hóflegur
fjöldi tökuorða er tungunni hættulaus, meðan hann snertir ekki
sjálfan kjarna hennar, brýtur ekki í bága við sjálft málkerfið [...].“
En Jakob er afdráttarlaus í afstöðu sinni til hins sögulega samhengis
tungumálsins: „íslenzk menning er órjúfanlega tengd íslenzkri
tungu, íslenzkum bókmenntum, íslenzkum orðaforða. Rofni þau
tengsl, glatist sambandið við fortíðina, mundi þess skammt að bíða