Skírnir - 01.09.2013, Blaðsíða 90
320
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
að saga íslenzkrar menningar væri öll“ (Jakob Benediktsson 1964:
108-109). Helgi Hálfdanarson, þýðandi, fræðimaður og einn ötulasti
talsmaður íslenskrar málræktar, segir í greininni „Dagur þjóðtung-
unnar“: „Þegar Islendingar ræða hag sinn í viðsjálum heimi, beinist
athyglin ekki síður að þjóðlegri hámenningu en afkomu á sviði efna-
hags. Og öllum má ljóst vera, að fjöregg íslenzkrar þjóðmenningar
er íslenzk tunga. En sjálfstæð menning þjóðar eflir þá fjölbreytni
sem veit á farsæla þróun alls mannkyns“ (Helgi Hálfdanarson 1998:
357). Athyglisvert er hvernig áherslan á þjóðmenningu er sett í
alþjóðlegt samhengi, enda segir Helgi á öðrum stað: „Það er fátt
sem ég hef meiri skömm á en þjóðrembing í sínu sanna eðli, en
menn mega ekki af tómum ótta við sinn eigin þjóðrembing vanmeta
þjóðleg menningar-verðmæti, hvað þá vanrækja þau“ (Helgi Hálf-
danarson 1985: 25).
Ummæli þessara manna vitna um að þeir skynja ekki aðeins
glögg tengsl milli tungumálsins, bókmenntanna og sögunnar heldur
eru „menning“ og „þjóð“ einnig lykilhugtök í skilningi þeirra á
þeim tengslum og gildum er brenna á þeim. En þau hugtök eru á
hinn bóginn stundum til merkis um að sú „lífræna heild“ eða sá
þjóðlegi „kokteill", sem ég nefndi hér að framan, er líka mýta sem
er endurframleidd og endurhönnuð til að gegna ákveðnum hlut-
verkum, t.d. sem ímynd í þeirri atvinnugrein sem kennd er við
ferðamennsku eða í annarskonar íslenskri kynningarstarfsemi. Eitt
nýjasta dæmið er sviðsetning hins íslenska framlags á bókamess-
unni í Frankfurt 2011. ísland og íslenskar bókmenntir voru þá í
heiðurssessi messunnar og flestir eru sammála um að einkar vel hafi
tekist til. En eins og Ann-Sofie Nielsen Gremaud bendir á í nýlegri
grein, einkenndist sviðsetningin mjög af framangreindum samslætti.
Ráðist var af krafti í að endurnýja hina gömlu hugmynd um „sögu-
eyjuna“ og Island var sviðsett sem fjarlægt, framandi og mystískt
land þar sem menningin og sérstaklega bókmenntirnar renna saman
við náttúruheiminn, t.d. í klippimyndum þar sem „bókin er sam-
ofin íslenskri náttúru“ og birtist m.a. sem foss, stuðlaberg eða jök-
ull. „Táknmynd vörumerkisins fyrir þátttöku Islands á bókasýn-
ingunni er einnig blendingur bókar og foss“ (Gremaud 2012: 17).