Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Síða 5
5Ljósmæðrablaðið - júní 2012
Vor í lofti ...og vorið boðar alltaf eftir-
væntingu í mínum huga. Þessi helmingur
ársins finnst mér, sem og mörgum, mann-
vænni, skemmtilegri og allavega bjartari en
sá hluti árs sem nú kveður.
Síðastliðið ár finnst mér hafa einkennst
af innra starfi í Ljósmæðrafélaginu. Hópar
ljósmæðra innan félagsins hafa unnið mikla
og góða vinnu við að skoða meðal annars
lög og innviði félagsins. Lög hvers félags er
kjarninn í starfseminni, þó að það plagg sé ef
til vill ekki alltaf upp á borðum. Þegar mikið
liggur við hafa lögin þó síðasta orðið. Á aðal-
fundi 24. mars síðastliðinn voru samþykkt
ný lög félagsins sem tekið hafa þó nokkrum
breytingum. Í síbreytilegu samfélagi er
nauðsynlegt að aðlaga lög og reglur að
samtímanum og þeim þörfum sem uppi eru
á hverjum tíma. Þessar breytingar eru mikið
til samræmis við lög annarra stéttarfélaga og
er gott að hafa lögin til að styðjast við sem
einskonar verklag. Meðal þess sem kemur
nýtt inn í lögin er klausa um trúnaðarmenn
félagsins. Hlutverk þeirra er nú stærra en
áður, stofnað verður trúnaðarmannaráð sem
í verða meðlimir kjaranefndar sem og allir
trúnaðarmenn félagsins. Hlutverk þessa
ráðs er að vera stjórn innan handar í stórum
málum geta komið inn á borð félagsins.
Einnig ráðgefandi í aðdraganda miðlægrar
kjarasamninga sem og stofnanasamninga.
Drögum að verklagi eða starfsreglum innan
félagsins hefur annar hópur ljósmæðra
einnig skilað. Töluverða vinnu á eftir að
inna af hendi svo að handbók félagsins geti
litið dagsins ljós. Þar er að mörgu að huga
í vaxandi félagi og mikilvægt að vanda vel
til verka. Þrátt fyrir misjafna sýn á hlutina
er nauðsynlegt að sameiginleg niðurstaða
fáist sem er farsæl og sanngjörn fyrir allar
ljósmæður sem koma að vinnu fyrir félagið.
Sú vinna heldur áfram í stjórn félagsins á
næsta starfsári. Og er von mín að handbók
líti dagsins ljós í lok þessa árs eða í byrjun
næsta.
Stofnanasamningar eru lausir í kjölfar
miðlægra samninga. Töluverð vinna
hefur verið lögð í að greina helstu
stofnanasamninga ljósmæðra. Við þurfum að
bera okkar stofnanasamninga við samninga
annarra félaga innan BHM og sjá fyrir
hvað við fáum launahækkun og hverju við
viljum breyta. Bókun eitt í miðlægum ríkis-
samningi okkar fjallar einmitt um það að
gera úttekt á fyrirkomulagi launakerfisins.
Afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga
um mismunandi hópa hjá ríkinu, til dæmis
um laun, launadreifingu og launaþróun.
Okkar markmið er meðal annars að endur-
skoða hækkun launa vegna viðbótarnáms.
Ljósmæður á stærsta vinnustað okkar og
víðar fá til dæmis ekki metið til launahækk-
unar nálastungunámið, ALSO, né önnur
námskeið sem gera okkur verðmætari starfs-
krafta og hæfari í okkar starfi. Einnig þarf
að koma inn starfsaldurtengdri hækkun þar
sem launaskrið yfir ævina er mjög óeðlileg.
Ljósmæður mættu líka dreifast betur í
launatöflunni. Við erum eins og hópur átta
ára stráka í fótbolta, allir á eftir boltanum í
einni þvögu. Fáir fá að njóta sín og dreifing
ljósmæðra í launatöflu ætti að mínu mati að
vera mun meiri. Svo er það launaþak yfir-
manna og klárlega þarf að hækka laun yfir-
manna svo að eðlilegt launaskrið geti orðið.
Töluverðar breytingar verða í félaginu á
þessu ári. Skrifstofumanneskjan okkar hún
Brynja Helgadóttir kveður okkur eftir að hafa
unnið í tæplega tvö ár hjá félaginu við góðan
orðstír. Anna Sigríður Vernharðsdóttir hætti 1.
maí sl. sem vefstjóri ljosmodir.is. Hún og ljós-
usystur hennar áttu hugmyndina að síðunni og
gáfu félaginu síðuna á sínum tíma. ljosmodir.is
hefur svo sannarlega vaxið og dafnað í hennar
umsjón og vil ég þakka Önnu Siggu mikið
brautryðjendastarf. Óska ég henni velfarnaðar
í því mikla starfi sem hún tekur nú að sér.
Samkvæmt nýju lögunum heyrir Fylgjan
okkar, handbók ljósmæðra, nú undir stjórn
ritnefndar og vil ég einnig nota tækifærið og
þakka Elínborgu Jónsdóttur ritstjóra innilega
fyrir einlægan áhuga á vexti Fylgjunnar öll
þessi ár.
Gleðilegt sumar.
Esther Ósk Ármannsdóttir
formaður Ljósmæðrafélags Íslands
Innviðir Ljósmæðrafélagsins
Á V A R P F O R M A N N S L M F Í