Morgunblaðið - 15.11.2018, Qupperneq 76
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Sýningar hefjast í dag í Bíó Paradís
á heimildarmynd Gríms Hákonar-
sonar, Litla Moskva, sem var frum-
sýnd á Skjaldborgarhátíðinni í maí.
Í henni fjallar Grímur um Neskaup-
stað og segir svo um myndina á vef
kvikmyndahússins: „Á tímum kalda
stríðsins komust íslenskir sósíalist-
ar sjaldan til áhrifa í stjórnmálum.
Landinu var stjórnað af hægri- og
miðjuflokkum sem hölluðu sér til
vesturs; við vorum í NATÓ og með
bandaríska herstöð í Keflavík. Það
var aðeins einn staður á landinu
sem sósíalistar réðu; Neskaup-
staður. Þeir komust til valda árið
1946 og stýrðu bænum í 52 ár.“
Grímur kláraði myndina snemma
á þessu ári en hann byrjaði að vinna
að henni fyrir fimm árum. „Svo
gerði ég Hrúta sem gekk rosalega
vel þannig að þessi mynd fór í bið-
stöðu í tvö ár, á meðan ég var að
fylgja Hrútum eftir,“ segir Grímur.
Merkilegt tímabil
Grímur segist í myndinni fjalla
um Neskaupstað allt frá þeim tíma
er sósíalistar voru við völd í bænum
til samtímans. Hann segir þetta
sósíalistatímabil Neskaupstaðar
merkilegt þar sem í miðju kalda
stríðinu hafi bærinn verið sá eini á
landinu þar sem sósíalistar réðu
ríkjum. Í myndinni sé líka fjallað
um þær breytingar sem áttu sér
stað eftir að því tímabili lauk.
„Síldarvinnslan, aðalútgerðarfyr-
irtæki bæjarins, var sameign bæj-
arbúa á tímum sósíalistanna. Í dag
er það í meirihlutaeigu Samherja
og bæjarbúar hafa misst völdin yfir
fyrirtækinu,“ nefnir Grímur sem
dæmi um þá breytingu sem orðið
hafi á stjórnarháttum í bænum.
Af öðrum breytingum nefnir
hann að bærinn hafi verið samein-
aður öðrum bæjarfélögum þegar
Fjarðabyggð varð til og þannig tap-
að að hluta til sjálfstæði sínu.
„Síðan eru það Norðfjarðargöng,
þau rjúfa þessa einangrun sem
bærinn var alltaf í,“ bætir Grímur
við. Þetta séu hinar þrjár stóru
breytur.
Sett í ákveðinn búning
Grímur segir sósíalistana hafa
verið kosna aftur og aftur, á fjög-
urra ára fresti, allt frá árinu 1946.
„Í rauninni fellur aldrei sósíalism-
inn heldur var ákveðið að sameinast
þessum nágrannabæjum og þá
breytist auðvitað þetta pólitíska lit-
róf því í þeim bæjum voru aðrir
flokkar sterkir,“ segir Grímur.
– Tekurðu afstöðu í myndinni eða
er hún algjörlega hlutlaus gagnvart
umfjöllunarefninu?
„Nei, ég myndi nú ekki segja að
ég sé að taka afstöðu en ég set hana
í ákveðinn búning. Ég læt viðmæl-
endurna segja söguna og þar takast
á ólík sjónarmið sem skapa ákveðna
togstreitu og gefa myndinni dýpt.
Sumir sakna gamla tímans og finnst
allt hafa verið betra á tíma sósíal-
ismans og öðrum finnst allt í fína
lagi í dag,“ svarar Grímur. „En auð-
vitað er ég höfundur myndarinnar
og það er mitt stílbragð á henni. Ég
hafði áhuga á að segja sögu af
mönnum sem höfðu fallega hugsjón
og vildu breyta samfélaginu en
hlutirnir fóru kannski ekki alveg
eins og þeir vildu.“
– Ertu frá Neskaupstað?
„Nei, ég er ekki þaðan en ég man
eftir því þegar ég var krakki að
fylgjast með kosningasjónvarpinu
að þá var alltaf talað um þennan
rauða bæ fyrir austan. Reykjavík
var stjórnað af Sjálfstæðisflokknum
og mestallt landið var blátt en alltaf
var talað um rauða bæinn,“ svarar
Grímur.
Fyrir nokkrum árum hafi hann
leitt hugann á ný að Neskaupstað
og því að ekkert hafi verið fjallað
um bæinn í kvikmyndum. Í forvitni
hafi hann farið þangað og byrjað að
kynna sér málin. „Mér fannst þetta
áhugaverður efniviður í heimildar-
mynd og ég er að sjálfsögðu vinstri-
maður, er ekkert að leyna því. Ég
er nógu gamall til að hafa verið
meðlimur í Alþýðubandalaginu áður
en það var lagt niður,“ segir Grím-
ur kíminn, „þannig að jú, jú, ein-
hvers konar áhugi á sósíalisma og
sagnfræði er líka til staðar hjá
mér.“
Þríleikur um bændauppreisnir
Grímur gerði það gott með Hrút-
um, sópaði að sér kvikmyndaverð-
launum víða um lönd og hefur nú
nýlokið við að klippa næstu leiknu
kvikmynd, Héraðið, sem verður
frumsýnd á næsta ári. Líkt og
Hrútar er sögusviðið íslensk sveit.
„Það má eiginlega segja að ég sé að
klára þríleik um bændauppreisnir,“
segir Grímur sposkur, „fyrst kom
heimildarmyndin Hvellur sem
fjallaði um Laxárdeiluna, svo Hrút-
ar og Héraðið fjallar líka um
bændauppreisn. Aðalpersónan er
kona sem fer í uppreisn gegn kaup-
félagi sem öllu ræður í litlu sam-
félagi.“
– Lagðirðu upp með það strax í
byrjun að gera þríleik?
„Nei, þetta gerðist meira óvart.
Þetta hljómar bara svo vel,“ segir
Grímur og hlær við.
Arndís Hrönn Eyjólfsdóttir fer
með aðalhlutverkið í Héraðinu og
segist Grímur að mestu hafa unnið
að myndinni með sama fólki og
hann vann með að Hrútum.
Kvikmyndin var tekin upp á
Erpsstöðum í Dölum og á Hvamms-
tanga og segir Grímur að hún sé
töluvert ólík Hrútum. „Hún fjallar
um nútímabændur og aðalpersónan
er kona. Myndin er líka mun póli-
tískari en Hrútar. Þetta er sam-
félagsádeila,“ útskýrir Grímur, „en
það er dálítil tenging milli Litlu
Moskvu og Héraðsins að því leyti
að þær eru báðar um pólitísk og
efnahagsleg veldi í litlum samfél-
ögum.“
Hrútar í Ástralíu
og Suður-Kóreu
Fyrir fáeinum vikum bárust
fréttir að utan af því að tökur væru
hafnar á ástralskri kvikmynd sem
byggð væri á Hrútum og að með
aðalhlutverkin færu þekktir leik-
arar, Michael Caton og Sam Neill.
„Við seldum réttinn að myndinni og
ég fékk að lesa handritið o.s.frv. en
hafði enga aðkomu að því. Grunn-
sagan er sú sama en þeir eru búnir
að breyta ansi miklu og þá m.a. til
að staðfæra myndina. Það er ekki
hægt að hafa stórhríð þarna þannig
að þeir eru með skógarelda í stað-
inn,“ segir Grímur um myndina
sem nefnist Rams á ensku.
Grímur segir Hrúta hafa gengið
vel í Ástralíu, aðsókn verið góð að
myndinni sem hafi orðið kveikjan
að endurgerðinni. „Ég myndi segja
að það væri aðeins búið að poppa
hana upp,“ segir Grímur um mun-
inn á kvikmyndunum. „Það er fyrst
og fremst heiður að einhverjir í
Ástralíu vilji eyða tíma og orku í að
gera mynd eftir handritinu sem ég
skrifaði,“ segir hann að lokum og
bætir við að einnig standi til að end-
urgera Hrúta í Suður-Kóreu.
Morgunblaðið/Hari
Heima Grímur Hákonarson heima hjá sér með veggspjald sinnar þekktustu kvikmyndar innrammað á veggnum.
Bæjarbúi Guðmundur Sigurjónsson, einn viðmælenda Gríms í heimild-
armynd hans Litla Moskva sem Bíó Paradís hefur sýningar á í dag.
Rauður bær í bláu landi
Sósíalistabærinn Neskaupstaður er umfjöllunarefni heimildarmyndar Gríms Hákonarsonar, Litla
Moskva Viðmælendur úr ólíkum áttum Næsta leikna kvikmynd, Héraðið, frumsýnd á næsta ári
76 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. NÓVEMBER 2018
Skeifunni 8 | Sími 588 0640
ítölsk hönnun – ítölsk framleiðsla
STAN Model 3035
L 206 cm Áklæði ct. 86 Verð 575.000,-
L 198 cm Leður ct. 15 Verð 635.000,-