Morgunblaðið - 24.01.2019, Page 45

Morgunblaðið - 24.01.2019, Page 45
45 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. JANÚAR 2019 Húsnæðismál hafa lengi verið í eldlínunni í pólitískri umræðu. Braggahverfi Reykjavíkur voru til umræðu í hverjum kosningunum á fætur öðrum um miðbik aldarinnar og á forsíðum blaðanna mátti reglu- lega lesa fréttir um húsnæðisvand- ann með stríðsletri. Þessi vandi hef- ur varað árum og áratugum saman. Þó að braggahverfin heyri nú sögunni til þá viljum við öll búa við öryggi og fyrirsjáanleika í hús- næðismálum og að þau séu ekki of íþyngjandi. Því miður hafa mörg átt í vanda með að tryggja sér þak yfir höfuðið á undanförnum ár- um og því undrar engan að úrbætur á húsnæð- ismarkaði hafa verið ein af aðaláherslum verka- lýðshreyfingarinnar. Átakshópur um húsnæðismál skilaði tillögum sínum í byrjun vikunnar. Tillögurnar eru 40 tals- ins í sjö flokkum og eru mikilvægt og jákvætt inn- legg. Hópurinn var skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta, sveitarfélaga, launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði og atvinnurekenda. Vinna hópsins var umfangsmikil og markmiðið að leggja til fjölbreyttar lausnir á húsnæðisvand- anum. Nú liggur fyrir greining á umfanginu þegar kemur að húsnæðisframboði. Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er fyrirhuguð á næstu árum og áætlað er að um 10.000 íbúðir verði byggðar á ár- unum 2019 til 2021. Niðurstöður hópsins eru að eftir muni standa íbúðaþörf upp á um 2.000 íbúðir í lok tímabilsins og leggur til leiðir til þess að hægt sé að brúa þetta bil. Tillögur hópsins til að hraða þessari uppbygg- ingu eru meðal annars þær að styrkja þurfi grundvöll almenna íbúðakerfisins með áframhald- andi stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og draga þannig úr húsnæðiskostnaði tekjulágs fólks og tryggja um leið betur öruggan húsnæðis- markað. Þá er lagt til að leitað verði eftir sam- starfi stéttarfélaga, SA og lífeyrissjóða um fjár- mögnun húsnæðisfélagsins Blæs. Fjölgun á hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága þannig að dregið verði úr húsnæðiskostnaði og húsnæðisöryggi verði betur tryggt er leiðarljós tillagnanna. Liður í því eru til- lögur um að efla vernd leigjenda og tryggja betur réttindi þeirra. Til þess að hraða uppbyggingu eru lagðar til aðgerðir sem miða að því að stytta byggingartíma. Margar þeirra snú- ast fyrst og fremst um aukna raf- ræna stjórnsýslu og að einfalda að- gengi að upplýsingum og gögnum. Slík einföldun á þó ekki að koma nið- ur á gæðum. Aukin áhersla á að halda miðlægt utan um öll gögn, bæði hvað varðar húsnæðismarkaðinn al- mennt og allt sem lýtur að bygginga- framkvæmdum, mun skila betri yfir- sýn yfir húsnæðismarkaðinn, ein- falda stjórnvöldum ákvarðanir og stefnumótun til lengri tíma og gera öllum aðilum auðveldara um vik sem tengjast skipulags- og byggingarmálum. Þá fjallaði hópurinn sérstaklega um samgöngu- mál í tengslum við uppbyggingu á nýju húsnæði enda mikilvægt að við sköpum ekki nýjan vanda þegar við leysum úr öðrum. Lögð er áhersla á greiðar samgöngur, ekki síst almennings- samgöngur, og að öll uppbygging sé í samhengi við uppbyggingu í samgöngumálum. Samstaða var um tillögurnar og í þeim felast skýr leiðarljós fyrir ríki, sveitarfélög, samtök launafólks og atvinnurekenda. Stjórnvöld hafa lýst yfir einbeittum vilja sínum á undanförnum mánuðum til að finna lausnir á því ástandi á húsnæðismarkaði sem hefur ríkt og hef- ur reynst mörgum þungt. Það hafa heildarsamtök launafólks og samtök atvinnurekenda einnig gert. Öryggi og fyrirsjáanleiki í húsnæðismálum er for- gangsmál og það er nauðsynlegt að taka markviss skref til að lækka hlutfall húsnæðiskostnaðar hjá fólki, sérstaklega þeim sem lægri tekjur hafa. Með niðurstöðum átakshópsins hefur vandinn verið skilgreindur og færar leiðir til úrbóta sömu- leiðis. Nú verður vinnunni haldið áfram. Látum þennan vanda ekki verða til umræðu í mörgum kosningum í viðbót eins og braggahverfin voru á sínum tíma. Tökum höndum saman og leysum hann. Eftir Katrínu Jakobsdóttur » Átakshópur um húsnæðismál skilaði tillögum sínum í byrj- un vikunnar. Tillögurnar eru 40 talsins í sjö flokkum og eru mikilvægt og jákvætt innlegg. Katrín Jakobsdóttir Höfundur er forsætisráðherra. Það er hægt að leysa húsnæðisvandann Í óræðri framtíð fær Alþingi það verkefni að taka ákvörðun um hvernig best sé og skynsamlegt að verja 330 milljörðum króna. Fjármunirnir eru til ráðstöfunar á komandi árum og það þarf að finna þeim farveg. Þingmenn eru ekki bundnir af öðru en að ráðstafa fjármununum þannig að all- ur almenningur njóti. Kostirnir sem þingmenn standa frammi fyrir eru margir en mis- jafnir. Eitthvað segir mér að meirihluti þingmanna verði lítt hrifinn af þeirri hugmynd að skipta fjárhæðinni jafnt á milli allra landsmanna; senda hverjum og einum um 950 þúsund krónur. Þeir hinir sömu yrðu líklega ekki heldur hoppandi kátir með að útdeila fjárhæðinni á hvern Íslend- ing með því að leggja inn á sér- eignarreikning viðkomandi og styrkja þannig lífeyrisréttindi allra. Sú skoðun að besta ráðstöfun pen- inganna sé einfaldlega að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar ríkisins get- ur fengið hljómgrunn í það minnsta hjá einhverjum þingmönnum og þeir hinir sömu geta tekið undir skyn- semi þess að grynnka enn meira á skuldum ríkisins en þegar hefur verið gert. (Frá árinu 2013 hafa skuldir ríkisins verið greiddar niður um 660 milljarða króna.) Svipuð rök liggja að baki því að setja fjár- munina til hliðar í þjóðarsjóð til að mæta alvarlegum áföll- um í framtíðinni. Stuðningur við að nota hluta peningana til að byggja upp sam- göngukerfið fellur örugglega í frjóan jarð- veg. Óhætt er að full- yrða að víðtækur og góður stuðningur yrði við slíka ráðstöfun innan þings og utan. Hið sama á við um fjár- festingu í innviðum heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Og einhverjir gætu dregið fram skynsemi þess að fjár- festa í öflugum gagnastreng milli Ís- lands og annarra landa, ekki aðeins til að auka öryggi heldur ekki síður til að styrkja atvinnulífið og byggja undir ný tækifæri. Innviðir eða áhætturekstur Traustir innviðir eru forsenda hagsældar og bættra lífskjara. Skynsamleg fjárfesting í innviðum samfélagsins, jafnt efnahagslegum sem félagslegum, er sameiginlegt verkefni. Dæmi um efnahagslega innviði eru samgöngumannvirki, orkuvinnsla og -dreifing og fjar- skipti. Félagslegir innviðir eru með- al annars skólar, byggingar og tæki fyrir heilbrigðisþjónustu, fangelsi, og íþróttahús. Tillaga um að nýta 330 milljarð- ana, sem liggja á lausu, í samfélags- lega innviði er líkleg til að ná fram að ganga með yfirgnæfandi stuðningi þingmanna og almenn- ings. Engum (ég vona að ég hafi rétt fyrir mér) dettur í hug að leggja það til að binda fjármunina í fjármála- kerfinu – kaupa til dæmis tvo banka. Fjárfesting sameiginlegra fjármuna í áhætturekstri á fjármálamarkaði væri talin glapræði, ekki síst þegar við blasa umfangsmikil verkefni á sviði samfélagslegra innviða. Jafnvel hörðustu baráttumenn ríkisrekstrar á flestum sviðum, gera sér grein fyrir firrunni sem felst í því að ráð- stafa fjármunum landsmanna í banka- og fjármálarekstur í stað innviða. En þótt enginn sé líklegur til að berjast fyrir því að 330 milljörð- unum verði varið fjárfestingu í bankastarfsemi liggur það fyrir að ríkið hefur bundið mikla fjármuni í bönkum. Um 330 milljarðar eru í tveimur bönkum og 120 milljarðar til viðbótar eru í þremur lánasjóðum. Auk þess er ríkið óbeint eða beint í ábyrgðum fyrir 857 milljarða. Áætl- að verðmæti eignarhluta ríkisins í tveimur bönkum er um 13% af vergri landsframleiðslu. Umsvif ríkisins á fjármálamarkaði hér á landi eiga sér enga hliðstæðu í vest- rænum ríkjum. Aðeins í Rússlandi, Kína, ríkjum í Norður-Afríku og Suður-Ameríku, er fyrirferð hins opinbera jafnmikil á fjármála- markaði og hér á landi. Fórnarkostnaður almennings Ríkið hefur bundið hundruð millj- arða í ýmsum eignum sem nýtast lít- ið eða ekki þegar kemur að grunn- skyldum ríkisins – heilbrigðis- þjónustu, almannatryggingum, samgöngum, menntakerfi og lög- gæslu. Lítil og takmörkuð umræða á sér hins vegar stað um hvernig þess- ar eignir þjóna landsmönnum. Vegna þessa missum við sjónar á mikilvægu markmiði: að nýta rík- iseignir með arðbærum og skyn- samlegum hætti. Og þess vegna er litið fram hjá þeim fórnarkostnaði sem almenningur þarf að færa vegna þess að gríðarlegir fjármunir eru bundnir í fjármálafyrirtækjum eða öðrum eignum sem skipta vel- ferð venjulegs Íslendings litlu eða engu. (Látum liggja á milli hluta hversu neikvæð og óheilbrigð áhrif ríkið hefur á samkeppni og framþró- un með umfangsmiklu eignarhaldi). Um eitt er ég sannfærður: Fjár- festing í öflugri heilbrigðisþjónustu skilar meiri arðsemi en að binda áhættufé í bankastarfsemi – lífsgæði almennings verða meiri. Uppbygg- ing menntakerfisins er áhrifaríkari leið til að tryggja jöfnuð og að allir fái tækifæri til að rækta hæfileika sína óháð efnahag, en að sitja með fjármuni fasta í áhætturekstri. Í nýlegri „Hvítbók um framtíðar- sýn fyrir fjármálakerfið“ er bent á fórnarkostnað ríkissjóðs af um- fangsmikilli eign í bankakerfinu. Verulegar arðgreiðslur til ríkisins undanfarin ár hafi vegið þar á móti „en nú stefnir í að þær verði mun lægri á komandi árum“. Á sama tíma stendur ríkið frammi fyrir fjárfest- ingum sem „fela í sér ótvíræðan samfélagslegan ábata“. Verðmæti eignarhluta í bönkunum jafngildir fimm nýjum háskólasjúkrahúsum eða hátt í þrjátíu Hvalfjarðar- göngum. Ég hef orðað þetta þannig að um- breyta eigi fé sem er fast í bönkum, flugstöð, fjölda fasteigna, ýmsum fyrirtækjum í samkeppnisrekstri og jörðum, yfir í aðrar eignir sem við teljum mikilvægari fyrir samfélagið. Andstaðan er hörð, ekki aðeins við að ríkið dragi sig út úr fjármálakerf- inu að mestu leyti heldur ekki síður að fjármunir í flugstöð séu leystir úr fjötrum og þeim umbreytt í vegi, brýr, göng, hafnir og innanlands- flugvelli. Í stað þess að stokka upp eignasafn ríkisins og færa í sam- félagslega innviði er gælt við að auka álögur á almenning og fyrirtæki. Fjárfesting í innviðum er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hér á landi, sem standast samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Bætt lífskjör í framtíðinni byggja á traustum innviðum samfélagsins. Þegar tekin er ákvörðun um að binda hundruð milljarða í eignum sem styðja ekki við grunnskyldur hins opinbera, er um leið tekin ákvörðun um að færa fórnir – veikja samfélagslega innviði. Þann kostnað bera allir, ekki síst þeir sem lakast standa. Ef við ættum 330 milljarða hand- bæra, hvað myndum við gera? Eftir Óla Björn Kárason » Fjárfesting sam- eiginlegra fjármuna í áhætturekstri væri tal- in glapræði, ekki síst þegar við blasa um- fangsmikil verkefni á sviði samfélagslegra innviða. Óli Björn Kárason Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Ef við ættum 330 milljarða handbæra Það er óskemmtileg reynsla að hafa komið sjálf- um sér illilega á óvart. Það vita margir af eigin reynslu og aðrir mega trúa mér. Eitt kvöldið í nóvember á síðasta ári fórum við nokk- ur og settumst saman inn á veitingahús. Öll eigum við sæti á Alþingi og þetta kvöld stóð svo á að umræðu um fjárlög var að ljúka og öll höfðum við þá lokið ræð- um okkar um þau. Við sát- um sum lengi og höfðum áfengi um hönd. Við göspruðum út og suður, þar á meðal um stjórnmálin, stjórnmálaflokkana og ýmsa stjórnmálamenn. Ekki hvarflaði að neinu okkar að við værum að tala við fleiri en okkar litla hóp. Engu okkar datt í hug að nokkur yrði móðgaður eða sár af tali okkar. Viku síðar var sagt frá því opinberlega að samtal okkar hefði verið hlerað og hljóð- ritað. Annar gestur á veitingahúsinu hefði setið tímunum saman með upptökutæki og komið upptökunni á valda fjölmiðla. Þeir fóru síðan að birta úr henni brot og brot og svo lengri og lengri kafla, allt auðvitað í nafni réttar almennings til að vita hvernig þingmenn gætu talað þegar þeir væru ölv- aðir. Atvinnuleikhús efndi strax til sýn- ingar þar sem allt mun hafa verið lesið upp. Margt kom illilega við mig í þessu. Mér fannst vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk talar saman á veitinga- húsum. Mér fannst vont að fjölmiðlar teldu sjálfsagt að birta slíkt drykkjuraus opin- berlega og eiginlega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvorttveggja. En verst af öllu fannst mér að heyra í sjálf- um mér. Ég hef vissulega margt við upptökuna og við ýmis viðbrögð við henni að athuga. Mér finnst líka mjög athyglisvert hversu hart hefur verið barist gegn því að við, sem vor- um hleruð, fáum aðgang að gögnum sem eru til og geta líklega sýnt hvernig var í raun staðið að því að hlera samtal okkar. En ekkert af þessu finnst mér þó eins slæmt og sumt af því sem ég sjálfur hef sagt þetta kvöld. Upptakan var að vísu ólögmæt, hún virðist klippt saman og margt í fréttaflutningi af tali okkar og tals- máta hefur verið tekið úr sam- hengi, en í mínum huga er aðal- atriðið að margt af því sem ég hef greinilega sagt þetta kvöld er að mínu mati til skammar, ekki aðeins sleggjudómar og fáránlegar hugleiðingar heldur einnig stundum með orðbragði sem kemur mér mjög illilega á óvart að ég hafi notað. Þegar mér varð ljóst hvernig ég hafði í raun talað við félaga mína þetta kvöld ákvað ég að taka mér launalaust leyfi frá þingmennsku minni. Ég vildi ná áttum og horfa í spegilinn á þennan mann sem þarna hafði talað með orðbragði sem ég hefði ekki getað ímynd- að mér að hann ætti til. Um þetta hef ég síðan átt í samtali við bæði sjálfan mig og marga sem meira vita. Ég hef talað við áfengisráðgjafa og leitað aðstoðar sál- fræðings og ég hef átt löng og hispurslaus samtöl við þá sem lengi hafa þekkt mig. Ég er miður mín yfir mörgu sem ég sagði þetta kvöld og sérstaklega yfir því að orð mín hafi orðið til þess að særa fólk, sem ég hef aldrei viljað særa, en varð skiljanlega sárt þegar upptaka af samtalinu var spiluð fyrir alþjóð. Ég ber ábyrgð á eigin orðum og finnst virkilega leiðinlegt að hafa látið þau verstu þeirra falla. Í okkar fámenna hópi á veitingahúsinu voru þessi orð ósmekklegt en meiningarlaust raus yfir glasi, sem engan særði. Það var ekki okkar ákvörðun að þau skyldu borin á borð fyrir alla þjóðina. Í kosningunum haustið 2017 var ég kjör- inn á þing og í þingstörfum mínum hef ég reynt að berjast fyrir hagsmunum fólksins í því kjördæmi sem ég tilheyri og fyrir þeirri stefnu sem flokkur minn byggist á. Ég hyggst gera þetta áfram eftir bestu getu. Ég fagna hverjum þeim sem vill eiga við mig samstarf um raunveruleg brýn málefni en mun ekki erfa það við neinn sem fer aðrar leiðir. Horft í spegilinn Eftir Bergþór Ólason Bergþór Ólason »Ég ber ábyrgð á eigin orðum og finnst virkilega leiðinlegt að hafa látið þau verstu þeirra falla. Höfundur er þingmaður Miðflokksins.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.