Skessuhorn


Skessuhorn - 25.03.2015, Blaðsíða 30

Skessuhorn - 25.03.2015, Blaðsíða 30
30 MIÐVIKUDAGUR 25. MARS 2015 Sigmundur Benediktsson, vélvirki á Akranesi, gaf nýverið út kvæða- bókina Úr viðjum vitundar. Er það hans þriðja bók. Fyrri tvær bæk- ur Sigmundar voru vísnabækurn- ar Þegar vísan verður til og Með- an stakan mótast létt og er þar um að ræða bækur þar sem umfjöllun- arefnin eru af ýmsum toga og höf- undur á létt með að skipta á milli hinna ýmsu bragarhátta, en er ætíð trúr hefðbundu kveðskaparformi með stuðlum og rími. Kvæðabókin sem nú er kom- in út á það sameiginlegt með fyrri bókum að þar ríkja kunnuleg form kveðskapar og ljóðahátta, sem fylgt hafa þjóðinni gegnum aldir og taldist löngum til andans íþrótta að geta tjáð sig á þennan hátt. Kvæði Sigmundar eru fjölbreytt bæði að efni og formi, hann bregður jafn- vel fyrir sig að yrkja eftir fornyrð- islagi. Bókinni er skipt í kafla og er þægilegt fyrir lesandann að leita uppi það efni sem helst höfðar til hans, hvort sem það eru trúarljóð, léttari kvæði, hugleiðingar um andleg efni eða aðdáun á lífskrafti náttúrunnar. Í bókinni eru einnig nokkur tækifæriskvæði ort til vina á merkum tímamótum í lífi þeirra og í þeim kafla er einmitt Brúð- kaupsljóð sem ort er undir forn- yrðislagi og hefst svo: Gefist brúðgumi, gefist brúður. Heitfest í heillum hollra vætta. Metist mannhelgi mundum bundin. Blessist blíðvegur baugum festur. Sigmundur er fæddur árið 1936 í Eyjafirði og var bóndi í nokkur ár í sinni fæðingarsveit áður en hann flutti á suðvesturhornið, þar sem hann hefur unnið lengst af sínum starfsaldri og flest árin sem vél- virki í Sementsverksmiðjunni. Á langri ævi hafa stundum verið erf- iðar brekkur að sigrast á, stundum verið dökkt yfir og þá er gott að geta ort og létt með því byrði hug- ans eins og greina má í þessu síð- asta erindi í kvæðinu Ok: Hvar ert þú reisn sem ryður frá raunum og sálardofa? Komdu nú fljótt með bros á brá sem breyta leiða í gleði má svo lífið ég megi lofa. Því fegurðarskynið innra á ef að til nær að rofa. Eyjaförður hefur alla tíð verið Sigmundi kær og þar er ,,heima,‘‘ í hans huga. Þangað hefur hann oft lagt leið sína til að taka þátt í kunnuglegum sveitastörfum þar sem hann kann vel til verka og oft verða þá til lítil ævintýri í hversdag- leikanum, það þarf bara að kunna að uppgötva þau, eins og kvæðið Naglastuldurinn ber með sér. Til- efnið var að þegar Sigmundur var komin suður á Akranes eftir sauð- burðarstúss í sveitinni fann hann í vasa sínum nokkra nagla sem til- heyrðu eyfirsku búi og það varð tilefni til að senda bóndanum af- látsbeiðni í bundnu máli. Hér er fyrsta erindið: Þó ég hafi villur varast varð mér skyssa á. Að dró ég mér af birgðum búsins bágt þér mun að sjá. Að það hafi óvart verið ekki rýrir tap. Sjálfsagt hefur raunin ramma runnið þér í skap. Þessi kvæðabrot gefa að nokkru hugmyndir um hversu fjölbreytt efnistök eru í bókinni og einnig má ljóst vera að hin ýmsu kvæða- form eru léttleikandi skýr og vel með þau farið hvort sem verið er að fjalla um erfiðar hugsanir eða spaugsamara efni. Bókina er hægt að panta hjá höf- undi í síma 431-4335 og 845-9535 og sigmben@simnet.is mm Úr viðjum vitundar - ný kvæðabók Sigmundar Sigmundur með bækurnar sínar þrjár; Þegar vísan verður til (2012), Meðan stakan mótast létt (2013) og Úr viðjum vitundar (2015). Pennagrein Hamingjuóskir til fermingarbarna á vori 2015 Sjá, hér er krikja. Já, hún vill styrkja þig í lífi þínu með orði sínu. Þegar ég fletti síðasta tölublaði Skessuhorns, blaðinu sem helg- að er fermingu og undirbúningi hennar, gladdist ég óumræðilega. Fjöldi fermingarbarna var spurður hvers vegna þau ætluðu að fermast. Svörin voru nær öll á einn veg. Þau sögðust trúa á Guð, þau langaði að staðfesta skírnarheitið og hafa Guð að leiðtoga lífsins. Mig langar að óska þeim öllum til hamingju með ákvörðun sína og áform. Það er gleðiefni að verða þess áskynja að kirkjan á sér unga fylgjendur. Börn sem hafa ákveð- ið að treysta kirkju sína, og um leið kirkju okkar. Og þó svo fari að þið gleymið af og til, á ungdómsár- um ykkar að sækja kirkjuna, að þið ræktið trúna án þess í önn æskuár- anna og ærslum, þá er hún og verð- ur söm og þið munið þekkja hana þegar þar að kemur. Ég minnist kvölds eins eftir að ég hafði fermst hjá séra Þorsteini Björnssyni í Fríkirkjunni í Reykja- vík. Hann bjó í Garðastræti og gekk ætíð í hempunni og frakka með svartan hatt á höfði niður í kirkjuna við Tjörnina. Við hliðina á kirkj- unni var Glaumbær, eitt af vinsæl- ustu danshúsum höfuðborgarinn- ar á sínum tíma, og þangað lá leið ungmennanna. Eitt sinn hittumst við séra Þorsteinn framan við Mið- bæjarskólann og gengum saman út að kirkjunni, hann á leið til aftan- söngs á föstu og ég á leið á dansleik. Við kirkjutröppurnar snéri hann sér að mér og sagði: „Góða skemmtun á dansleiknum í kvöld og ég veit að þú kemur með mér í kirkjuna þegar þú hefur fengið nóg af því að dansa. Hún verður hér“. Við kvöddumst með handabandi og ég man að mér þótti sérstaklega gaman að dansa það kvöld. Síðar og æ síðan hefur trú mín kallað mig til kirkju, og ég veit að þannig verður það líka hjá ykk- ur kæru fermingarbörn þessa vors. Ég gleðst vegna birtunnar í svörum ykkar og óska ykkur velfarnaðar á lífsins leið. Myndina, sem fylgir og ljóðið, er varð til eftir lestur svara ykkar, tileinka ég ykkur og einlægri trú okkar. Reykholti á boðunardegi Maríu Guðsmóður, Guðlaugur Óskarsson Háskólalestin mætti með allt sitt hafurtask í tvö framhaldsskóla á Vesturlandi síðstliðinn fimmtudag. Lestin hefur flakkað um landið auk stórra kynninga sem fóru fram á höfuðborgarsvæðinu. Í Mennta- skóla Borgarfjarðar voru gestirn- ir á ferð fyrir hádegi á fimmtudag- inn en eftir hádegið voru nemend- ur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga sóttir heim. Auk þess voru nem- endur á Patreksfirði tengdir kynn- ingunni með fjarfundabúnaði með aðstoð Lofts Árna Björgvinssonar kennara. Háskólalestin kynnir fyr- ir framhaldsskólanemendum náms- efni háskólanna og önnur freistandi tilboð. mm/tfk Kynntu námsframboð háskólanna Hjördís Vilhjálmsdóttir í Grundar- firði hélt upp á sextugs afmælið sitt í maí 2014. Ætlun hennar hafði ver- ið að fara hljótt með það, halda ekki veislu né þiggja gjafir. En börnin hennar og eiginmaður voru á öðru máli og vildu halda henni veglega veislu. Eftir að það var samþykkt var vandamálið hvað gera skyldi ef einhverjir vildu færa henni gjaf- ir. Þá fékk hún þá hugmynd að láta gamlan draum rætast, en hann var að færa Vökudeild Landspítalans gjöf sem þakklætisvott fyrir umönn- un fimm af sjö barnabarna hennar, en þau voru lögð þar inn við fæð- ingu. Þurftu þau að dvelja frá einum degi og upp í þrjá mánuði, það sem lengst þurfti að dvelja. Var veislu- gestum tilkynnt þetta og óskað eftir að þeir sem vildu færa henni afmæl- isgjöf myndu í stað þess hjálpa henni að láta þennan draum rætast með því að setja pening í þessa söfnun. Fyrir afrakstur söfnunar Hjördísar voru keyptir þrír hægindastólar fyr- ir foreldra barna á Vökudeildinni, þar sem þeir geta setið með börn sín langtímum saman í umönnun. Það var svo 2. mars síðastliðinn sem Hjördís mætti á Vökudeildina með elsta barnabarni sínu, Andra Má, en hann var við fæðingu aðeins fjór- ar merkur og 41 cm. Hann fæddist eftir 28 vikna meðgöngu og dvaldi á Vökudeildinni í þrjá mánuði. Þessi stóri og myndarlegi herramað- ur í dag afhenti ásamt ömmu sinni Margréti Ó. Torlacius deildarstjóra Vökudeildar söfnunarfé að upphæð 360.000 krónur. Hjördís þakkar öll- um sem lögðu þessu verkefni lið, og létu draum hennar þar með rætast. tfk Safnaði vegna afmælis síns fyrir gjöf til Vökudeildar Landspítalans

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.