Skessuhorn - 11.11.2015, Qupperneq 14
MIÐVIKUDAGUR 11. NÓVEMBER 201514
„Það gekk mjög vel í sumar. Okk-
ur tókst að ljúka við að grafa niður
á klöpp á uppgraftarsvæðinu þann-
ig að við erum komin í gegnum allar
mannvistarleifar á þessum stað. Hins
vegar er alveg greinilegt að leifar
þeirra húsa sem við fundum í fyrra-
sumar og héldum áfram að rann-
saka í sumar eru hluti af miklu stærra
mannvirki eða húsakjarna. Það nær
út fyrir það uppgraftarsvæði sem við
höfum unnið á til þessa. Það er bæði
mjög sérstakt og afar spennandi,“
segir Lilja Björk Pálsdóttir fornleifa-
fræðingur hjá Fornleifastofnun Ís-
lands. Undanfarin ár hefur hún stýrt
fornleifarannsóknum í gömlum ver-
búðum á Gufuskálum á Snæfellsnesi.
Rannsóknir í sumar skiluðu mörgum
áhugaverðum gripum.
Margir gripir fundust
Lilja Björk segir að rannsóknir sum-
arsins staðfesti að á Gufuskálum
hafi frá upphafi einkum verið árs-
tíðabundin búseta og þá tengd ver-
tíðum við sjóróðra og fiskvinnslu.
Þarna hafi því verið ekta verbúðir.
„Þetta má lesa úr minjum sem við
höfum fundið. Húsin sem við höfum
nú lokið við að grafa út eru sérstök
að því leyti að þau minna á gangabæ.
Þetta eru herbergi eða rými og síð-
an göng á milli þeirra. Þetta er allt
öðruvísi en ég hafði ímyndað mér.
Við erum nú að bíða eftir aldurs-
greiningum á minjum sem við höf-
um fundið en sennilega eru elstu
hlutar þessara húsa frá því um 1400,
eða um 600 ára gamlir.“
Í sumar fannst mikið af ýmsum
gripum sem fólk hefur skilið eft-
ir sig og vitna um daglegt líf í ver-
búðunum. Nú er verið að hreinsa
þá, greina, skrá og forverja. Í þessu
verður unnið nú í vetur. „Taflmenn
voru áberandi nú í sumar eins og í
fyrra. Þeir voru aðallega skornir úr
klumbubeinum úr ýsu en við höfum
einnig fundið taflmann úr hvalbeini
og rostungstönn. Hann er mjög fal-
legur. Samsetning gripanna breytt-
ist þó ekki í sumar samanborið við
2014. Við fundum leifar af leir-
kerjum og marga hnífa, sem sum-
ir eru með fallega skreyttum skeft-
um. Tveir þeirra eru með útskorn-
um dýrshausum, hugsanlega af hval.
Aðrir eru með mynstrum. Falleg-
asti eða kannski sá merkilegasti kom
fram í sumar. Það er stór og alveg
heill hnífdólgur.“
Langar til að skrifa bók
Í fyrravetur vakti mikla athygli þeg-
ar sjór gekk á land á Gufuskálum í
ofsaveðri og miklu brimi. Fornminj-
ar spilltust og í kjölfarið varð nokk-
ur umræða um að minjum við sjáv-
arsíðuna á Íslandi standi víða ógn
af ágangi sjávar. Eigi fornleifarann-
sóknir að fara fram á þessum stöð-
um þá sé það oft í kappi við tímann.
„Já, það skemmdist því miður mikið
í vetur sem leið en ekki samt þann-
ig að allt hafi eyðilagst. Mig lang-
ar til að halda þessum rannsókn-
um áfram næsta sumar. Við fengum
styrk til rannsóknanna í sumar úr
Fornminjasjóði en stærstu styrkirn-
ir hafa hingað til komið frá Banda-
ríkjunum. Þaðan hafa líka komið
fornleifafræðingar og fornleifafræði-
nemar og unnið með okkur. Nú þeg-
ar við höfum lokið við það svæði sem
byrjað var að rannsaka árið 2012 er
næsta skref að sækja um leyfi fyrir
frekari rannsóknir þarna á Gufuskál-
um því svæðið er friðlýst. Auk þess
munum við sækja um styrki til rann-
sókna næsta sumar. Þarna eru mikl-
ar upplýsingar að hverfa vegna land-
brots og tíminn er ekki að vinna með
okkur.
Lilja Björk og samstarfsfólk henn-
ar hafa gefið út áfangaskýrslur um
gang rannsóknanna á Gufuskálum.
„Draumurinn er að gefa út bók um
þessar rannsóknir. Efnið er svo sann-
arlega til staðar en það er spurning
um fjármagn. Ég stefni þó að því. Ef
allt gengur eftir og við fáum bæði
fjármagn til áframhaldandi rann-
sókna og leyfi þá erum við að tala um
að þetta verkefni á Gufuskálum nái
yfir tíu til fimmtán ár. Það er margt
ókannað enn. Verbúðin sem við
erum búin að kanna núna dygði þó
alveg ein og sér til að skrifa um hana
heila bók. Hún gæti orðið sú fyrsta
í bókaflokknum um verðbúðirnar á
Gufuskálum,“ segir Lilja og hlær.
Efnilegir fornleifa-
fræðingar undir Jökli
Hvað sem bókaskrifum líður þá eru
rannsóknirnar á Gufuskálum þegar
orðnar tilefni til fræðslu um lífshætti
forfeðranna. Lilja segir frá ánægju-
legu dæmi um þetta sem hafi komið
henni skemmtilega á óvart og verið
gleðiefni. „Þau höfðu samband við
mig frá Grunnskóla Snæfellsbæjar
og spurðu hvort ég gæti komið og
sagt krökkunum frá rannsókninni
á Gufuskálum og hugsanlega farið
með þau í vettvangsferð á uppgraft-
arsvæðið. Þetta væri þá í tengslum
við átthagakennsluna hjá þeim. Ég
fór og þetta var afskaplega gaman.
Ég sagði þeim almennt frá fornleifa-
fræðinni. Þau voru ótrúlega stillt og
prúð að sitja undir þeim fyrirlestri í
tvo tíma. Svo fórum við í vettvangs-
ferðina og það var alveg frábær upp-
lifun. Þau voru svo áhugasöm. Það
var greinilegt að þau höfðu ver-
ið að hlusta á það sem ég hafði sagt
þeim.“
Lilja segir að hún hafi svo veitt
nemendunum úr Snæfellsbæ stutta
leiðsögn um svæðið. Síðan lagði hún
fyrir þau verkefni þar sem þau voru
beðin um að skipta sér upp í hópa
og hefja rannsóknir. „Þau vildu ekki
frekari leiðbeiningar heldur fara sjálf
og kanna svæðið frekar. Svo tvístrað-
ist hópurinn og þau ruku af stað. Ég
var svo ánægð með niðurstöðurn-
ar úr þessu. Þau dreifðu sér um allt
minjasvæðið og teiknuðu upp það
sem þau fundu og sáu. Sum teiknuðu
beinadreif og húsaleifar. Önnur fóru
beint í sniðin eða rofsárin og teikn-
uðu það sem þau sáu og túlkuðu það.
Þau voru alveg ótrúlega flink. Það
eru greinilega margir efnilegir forn-
leifafræðingar í Snæfellsbæ,“ segir
hún og brosir.
Leyndardómar
Sönghellis afhjúpaðir
Lilja og félagar hennar við forn-
leifarannsóknirnar stunduðu fleiri
rannsóknir á Snæfellsnesi í sumar.
„Við fengum styrk úr Fornminja-
sjóði til að þvívíddarskanna Söng-
helli norðan við Stapafell í samvinnu
við pólska fornleifafræðinga. Hellir-
inn er bæði þekktur fyrir hljómburð
sinn en líka fyrir það að í honum er
að finna ógrynni áletrana sem fólk
hefur krotað á veggi hans í aldanna
rás. Þrívíddarskönnun er sérstök
tækni með háþróuðum búnaði sem
nær að greina það sem skrifað hefur
verið á veggina. Næsta skref er svo
að fá styrk til að vinna úr gögnunum
og teikna upp risturnar sem koma
fram. Það er miklu meira þarna sem
sést með þrívíddarskanna heldur en
við sjáum með berum augum. Þarna
eru ótal áletranir, þær elstu sem við
getum greint eru með ártalinu 1515.
Svo er ein sem virðist frá 1346. Fólk
hefur rissað inn ártöl og oftast upp-
hafsstafi með. Þetta er mjög spenn-
andi verkefni,“ segir Lilja Björk Páls-
dóttir.
mþh
Árangursríkar fornleifarannsóknir á Gufuskálum
Lilja Pálsdóttir þar sem blaðamaður Skessuhorns hitti hana í síðustu viku. Þá var
hún við fornleifagröft í gömlum prestsbústað við Ánanaust í Reykjavík. Lilja situr
á gamalli vegghleðslu og sjá má aðra að baki henni.
Taflmaður úr rostungstannbeini sem kom upp í sumar. Hnífdólgurinn góði sem fannst stráheill. Hér er hann nýafhjúpaður
úr jarðveginum.
Hópur stúlkna úr Grunnskóla Snæfellsbæjar í vettvangsferð á Gufuskálum. Þær
eins og aðrir nemendur sýndu fornleifasvæðinu þar mikinn áhuga.
Nemendur úr Grunnskóla Snæfellsbæjar við rannsóknir í verbúðarrústunum í
sjávarbakkanum á Gufuskálum.
Hluti af veggristunum sem komu greinilega fram þegar leyndardómar Sönghellis
við Stapafell voru kannaðir með þvívíddarskanna nú í sumar. Skoða má mynd-
band af skönnunini á youtube-myndbandavefnum með því að nota leitarorðin
„cave, songhellir, snaefellsnes, iceland.“
Tveir efnilegir og upprennandi fornleifafræðingar úr Snæfellsbæ líta yfir vett-
vang rannsóknarinnar.
Forleifafræðingur heldur hér á milli fingra sinna aftasta hluti á því
sem virðist útskorið hnífskefti með dýrshaus, hugsanlega á hval.