Skessuhorn - 11.11.2015, Blaðsíða 43
MIÐVIKUDAGUR 11. NÓVEMBER 2015 43
var hann hafður til sölu hér í Ferju-
koti með laxinum. Það er ekki hægt
að reykja álinn nema hann hafi náð
vissri stærð. Rita hefur gert það og
reyktur áll er algert sælgæti,“ segir
Heba Magnúsdóttir.
Tómlegra án Kela
Guðrún Fjeldsted mágkona Hebu
þekkir vel til vatnaveiða í Borgar-
firði. „Það er áll víða um héraðið, oft
langt inni í landi. Til að mynda hef-
ur orðið vart við hann í grennd við
Varmaland. Ég var oft uppi í Grímsá
á morgnana og sá þá iðulega hvern-
ig klappirnar í ánni iðuðu af glerál.
Í fyrrasumar árla morguns sá ég svo
heilmikið af glerálum í Gufuá sem
fellur í Borgarfjörð hér skammt utan
við mynni Hvítár. Þá voru glerálarn-
ir að fara þar upp,“ segir hún.
Állinn er því hvergi nærri horfinn
úr vatnakerfum Borgarfjarðar og
vísast mun unga fólkið í álaveislunni,
þau afkomendur Þorkels og Hebu,
nýta þennan merka en óvenjulega
fisk í framtíðinni. Páll Jensson er
og í fullu fjöri og kann að miðla af
reynslu sinni. Hann minnist Þor-
kels vinar síns. „Það var alltaf mik-
ið um að vera þegar við stunduðum
álaveiðarnar með Kela. Nú í haust
var ég einn um að veiða og ég sakn-
aði hans. Þetta var ekki eins gam-
an án hans, vantaði allt umstangið
og fjörið sem fylgdi honum. Þorkell
átti allan heiðurinn af veiðiskapn-
um. Hann skipaði fyrir og sagði til,“
rifjar Páll upp.
Alltaf fjör á álaveiðum
Páll segir að þeir félagar hafi skipt
með sér svæðum við álaveiðarnar.
„Veiðistaðurinn minn er í Ferju-
bakkaflóanum norðan við brýrnar
yfir Ferjukotssíkin. Þorkell veiddi
hins vegar neðan við Ferjukotsbæ-
inn, nær Hvítá. Vatnsstraumurinn
lá náttúrulega um Ferjukotssíkin og
niður til þar sem hann var með sínar
gildrur. Einn daginn voru þrír dauð-
ir minkar í gildrum hjá mér. Ég skar
skottin af þeim því þetta var þegar
enn var greitt þokkalega fyrir þau.
Svo henti ég minkahræjunum út í
vatnið aftur. Þau bárust niður með
ánni. Þegar Þorkell var búinn að fá
skottlausa minka í gildruna hjá sér
þrjá daga í röð áminnti hann mig því
hann grunaði hvað hafði gerst ofar í
síkjunum. „Svona gerir maður ekki
Páll,“ sagði hann.“ Páll hlær þeg-
ar hann rifjar upp þessa veiðisögur
þeirra félaganna.
Álarnir sem veiddust voru geymd-
ir lifandi í þar til gerðum kassa sem
hafður var í ánni og streymdi vatn
í gegnum. „Það var Þorkels verk að
sjá um að kassinn væri vel bundinn
við tvo girðingarstaura sem festir
voru í botninn á ánni. Það var ótrú-
leg hvað þessi kassi átti auðvelt með
að losna þegar gerði einhver veð-
ur. Álakassinn var stöðugt áhyggju-
efni hjá honum. Það gekk á ýmsu.
Eitt sinn varð hann að leggja á hjóla-
bát út á Hvítá til að bjarga kassan-
um. Annað skipti þurfti hann að rífa
sig á fætur um miðja nótt og vaða út
í vatn upp í klof til að binda kass-
ann betur,“ segir Páll. „Álaveislun-
um fylgja alltaf ný ævintýri á hverju
ári.“
mþh
Þorkell Fjeldsted bóndi í Ferjukoti var fæddur 28. ágúst 1947 en lést 18. nóvember
í fyrra, 67 ára að aldri.
Heba Magnúsdóttir húsfreyja í Ferjukoti heldur stutta tölu áður en sest er að
borðum.
Guðrún Fjeldsted, Elísabet Fjeldsted bróðurdóttir Guðrúnar og Daníel sonur
Elísabetar.
Guðrún Hauksdóttir gæðir sér á
álnum.
Rita Bach sýnir hvernig það er til siðs
í Danmörku að raða beinagörðum
álsins í hring meðfram börmum
disksins þegar álinn er snæddur.
Yngsta kynslóð Fjeldsted-ættarinnar við borðhald í Ferjukoti.
Þorkell Fjeldsted yngri með ál milli fingra sinna ásamt Axel Frey Eiríkssyni föður
sínum.
Fyrr á þessu ári
tók verslana-
keðjan Nettó
upp átakið
„Minni Sóun-
Allt nýtt,“ en
með átakinu er
ætlað að kynna
fyrir við-
skiptavinum
og starfsfólki
hvað unnt sé
að gera til að
stuðla að minni sóun, flokkun úr-
gangs og ýmiss konar orkusparnaði. Í
síðustu viku hratt Nettó af stað átaki
í tveimur verslunum sínum á höfuð-
borgarsvæðinu og munu fleiri versl-
anir fylgja í kjölfarið. „Því miður
hendum við gríðarlega miklu magni
af matvöru og sorpi í okkar nútíma-
samfélagi. Við ákváðum að sporna
við þessu og höfum nú þegar unnið
að því að minnka sorp um 100 tonn
á ári í verslunum okkar. Við höfum
unnið að alls kyns orkusparnaði á síð-
ustu árum með sérstökum lokum á
allar frystikystur í verslunum okkar.
Nú bætist við Minni Sóun - Allt nýtt
átakið þar sem áherslan er á aukna
flokkun og minni sóun matvæla,“
segir Hallur Geir Heiðarsson, rekstr-
arstjóri Nettó.
Nettó býður
nú stigvaxandi
afslátt af vörum
sem nálgast
síðasta sölu-
dag. Vöruverð
lækkar eftir
því sem líftími
vöru styttist og
stuðlar þetta
að minni sóun
matvöru. 20%
afsláttur er veittur af þurrvöru sem er
á dagsetningu eftir 30 daga og fersk-
vöru sem á tvo daga í síðasta söludag.
30% afsláttur er af þurrvöru sem er
á dagsetningu eftir 15 daga og fersk-
vöru sem á einn dag í síðasta söludag.
50% afsláttur er af þurrvöru sem er
á dagsetningu eftir sjö daga og fersk-
vöru sem er komin á síðasta söludag.
Allt þetta undir slagorðinu Keyptu
í dag – notaðu í dag! „Ef við nýtum
allt þá spörum við umhverfi okkar og
minni sóun á sér stað. Einfalt er að
temja sér innkaup þannig að þú kaup-
ir matvöru og notar hana t.a.m. sam-
dægurs. Ef við leggjumst öll á eitt þá
hlúum við að jörðinni - við eigum jú
bara eina“ segir Hallur enn fremur.
mm
Nettó kynnir átakið
„Minni sóun - Allt nýtt“
Hinn árlegi Malaví markaður var
haldinn í Grundaskóla á Akranes
síðastliðinn fimmtudag. Fjöldi fólks
lagði leið sína á markaðinn þar sem
hægt var að kaupa ýmsar vörur sem
yngri nemendur skólans hafa unn-
ið undir leiðsögn kennara á liðn-
um vikum. Unglingadeildin hélt úti
kaffihúsi í sal skólans, þar sem með-
al annars var boðið upp á nýbakað-
ar vöfflur og tónlistaratriði. Að venju
seldist vel og að sögn Hrannar Rík-
harðsdóttur skólastjóra Grundaskóla
safnaðist á fimmta hundruð þús-
und króna. Í áraraðir hefur það ver-
ið til siðs hjá Grundaskóla að nem-
endur og starfsmenn gefi ekki hvort
öðru jólagjafir. Þess í stað sameinast
þeir um stóra jólagjöf til Malaví, sem
er eitt af fátækustu ríkjum verald-
ar. Grundaskóli hefur undanfarin ár
verið í samstarfi við Rauða krossinn
að umfangsmikilli uppbyggingu á
skólastarfi þar fyrir fátæk börn. „Við
erum bæði ánægð og þakklát fyrir
þær undirtektir sem Malaví markað-
urinn og þar með söfnunin fær. Það
eru í mínum huga góð skilaboð til
barna og unglinga að gera eitthvað
fyrir aðra án þess að ætlast til ein-
hvers í staðinn,“ sagði Hrönn Rík-
harðsdóttir skólastjóri.
grþ
Fjölmenni á Malaví markaði í Grundaskóla
Skólinn var fullur af fólki sem gerði góð kaup og styrkti gott málefni í leiðinni.
Nemendur seldu meðal annars
jólakort.