Skessuhorn


Skessuhorn - 17.02.2016, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 17.02.2016, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 17. FEBRÚAR 201616 Garðar Bergmann Gunnlaugsson er flestum landsmönnum kunnur. Á fimmtán ára ferli sínum sem knatt- spyrnumaður hefur hann skorað fjölda marka, bæði hérlendis og er- lendis, en einnig gengið í gegnum erfiða tíma, meiðsli og slíkt. Sem atvinnumaður hefur hann kynnst bæði velferðarsamfélögum og samfélagi þar sem spillingin ræð- ur ríkjum. Eftir að Garðar sneri heim settist hann að á Akranesi á nýjan leik og hefur leikið vel með liði ÍA. Til marks um góðan árang- ur hlaut hann bronsskóinn á síð- asta keppnistímabili og var valinn í fyrsta sinni til að leika með lands- liði Íslands fyrr á þessu ári, 32 ára að aldri. Blaðamaður Skessuhorns tók hús á Garðari að heimili hans á Akranesi og ræddi við hann um knattspyrnuna, lífið og tilveruna. Borinn og barnfæddur Skagamaður „Ég er fæddur á Akranesi og ólst upp á Sandabrautinni, með útsýni yfir Sementsverksmiðjuna,“ segir Garðar Bergmann Gunnlaugsson léttur í bragði í samtali við Skessu- horn og hugsar hlýlega til upp- vaxtaráranna á Akranesi. „Það var æðislegt að fá að alast upp á Skag- anum. Þetta er algjör paradís fyr- ir krakka,“ segir hann. Garðar býr einmitt á Akranesi ásamt unn- ustu sinni Ölmu Dögg Torfadóttur, Baltasar syni þeirra og Hektori og Viktoríu sem hann á af fyrra hjóna- bandi. Einnig á hann soninn Daní- el sem býr hjá móður sinni í Mos- fellsbæ. „Ég kynntist miklu frelsi sem barn finnst mikilvægt að mín börn fái að kynnast því að alast upp í þannig umhverfi líka,“ seg- ir hann. Garðar bætir því þó við að Skag- inn hafi breyst nokkuð frá því að hann sleit barnsskónum. Hann hafi til að mynda stækkað til muna. Hann lítur út um gluggann þar sem við sitjum á heimili fjölskyld- unnar í Flatahverfinu og bendir á gamla Steinsstaðabæinn. „Ég var að bera út sem krakki og var ein- mitt með hverfin hér í kring. Þá var ekki komin byggð hérna og Steins- staðabærinn stóð bara einn og sér. Ég var oft skíthræddur við að fara með blöðin þangað, aleinn lengst uppi í sveit í kolniðamyrkri,“ segir hann og brosir. Frítíma sínum sem barn kveðst Garðar að stórum hluta hafa varið í veiðar niðri á höfn eða í útileikj- um með vinum sínum seinni part dags og á kvöldin. „Á veturna köst- uðum við snjóboltum í hvern ann- an, gerðum dyraat hjá nágrönn- unum og fleira slíkt,“ segir hann. „Ég var áhrifagjarn krakki. Vinirn- ir gátu æst mig upp og platað til að framkvæma alls konar vitleysu,“ segir hann og brosir. Alltaf verið eðlislægt að skora mörk Á Akranesi hóf Garðar að leggja stund á knattspyrnu ungur að árum. „Ég byrjaði að æfa þegar ég var fimm ára,“ segir hann og kveðst hafa spilað sem framherji meira og minna allan sinn feril. „Ég prófaði allar fremstu stöðurnar en eftir 4. flokk hef ég alltaf verið frammi. Ég skoraði á fullu og var alltaf meðal markahæstu manna í mínum flokki á landsvísu upp alla yngri flokkana. Það hefur alltaf verið mér nokk- uð eðlilegt að skora mörk,“ segir Garðar. Hann lék sinn fyrsta meistara- flokksleik með ÍA árið 2001, þá á 18. ári og lék með liðinu til ársins 2004. Þá gekk hann til liðs við Val. „Ég gekk til liðs við Val sem þá lék í 1. deildinni og við fórum beint upp. Mér gekk ekki vel á því tímabili, það var ákveðinn lágpunktur á mín- um ferli fram til þess. En strax eftir síðasta leik var mér sagt að gleyma tímabilinu og fara að hugsa um það næsta, sem hjálpaði mér mjög mik- ið,“ segir Garðar. Willum Þór Þórsson var svo ráð- inn þjálfari Vals um haustið og ber Garðar honum vel söguna. „Hann rífur mig í gang aftur og við verð- um bikarmeistarar og náum 2. sæti í deildinni, sem er gríðarlega sterk- ur árangur hjá nýliðum í deildinni. Willum er mjög góður svona maður á mann, hreinn og beinn og hjálp- aði mér mjög mikið,“ segir Garð- ar. Yfir komandi vetur var Garðar lánaður til Dunfermline í Skotlandi og lendir þar í meiðslum. „Þar fæ ég brjósklosið sem ég hef verið að glíma við meira og minna alla tíð síðan.“ Lætur vel af dvölinni í Svíþjóð Leiðin lá því heim aftur til Vals en ekki leið á löngu þar til næsti kafli í lífi hans tók við. „Við spiluðum Evrópuleik í Danmörku þar sem ég skora. Ég var nánast strax eftir leik keyptur til IFK Norrköping í Sví- þjóð,“ segir Garðar. Til Norrköp- ing flutti hann ásamt Ásdísi Rán þáverandi eiginkonu sinni og komu þau sér fyrir í miðbænum. „Það var æðislegt að vera í Svíþjóð. Dóttir mín er fædd þar og hvergi í heim- inum held ég að það sé betra að ala upp börn. Velferðakerfið þeirra er alveg frábær,“ segir Garðar. „Ég er meira en til í að borga 40% skatt og ég held að allir séu það ef þeir fá í staðinn fría heilbrigðisþjónustu fyrir börnin og fleira slíkt. Fólk þarf að sjá að það fái eitthvað fyrir skatt- peninginn sinn,“ segir Garðar. Í Nörrköping búa um 100 þús- und manns. Byggðin er dreifð og bæinn segir Garðar hafa smábæj- aryfirbragð. Svía segir hann um margt líka Íslendingum. „Fólkið þarna hefur svipaðan húmor og við, svona léttgeggjaðan,“ segir Garðar og bætir því við að sér hafi geng- ið vel að aðlagast. „Ég lærði tungu- málið strax, hef yfirleitt reynt það í öllum löndum sem ég hef komið. Lykilatriðið er að byrja bara að tala nánast á fyrsta degi, þó það verði hlegið að manni fyrst um sinn. Það var einmitt mikið hlegið að ein- hverjum sjónvarpsviðtölum við mig frá fyrstu mánuðunum mínum þarna,“ segir hann. Mafíósar og málaferli Næst lá leiðin til Búlgaríu, til höf- uðborgarinnar Sófíu. Það seg- ir Garðar að hafi verið allt ann- ar heimur. „Það tók dálítinn tíma að venjast lífinu þar. Umgjörðin er allt önnur og allt frekar gamaldags. Ég var til dæmis handskráður inn í landið í einhverja risastóra bók sem var svo bara sett upp í hillu,“ segir hann. „Ef löggan stoppaði mig eða einhvern annan sem var með erlent ökuskírteini þá sleppti hún okkur oftast um leið, því hún nennti ekki að standa í öllu vesen- inu sem fylgdi því að fletta okkur upp,“ segir Garðar og brosir. En Búlgaríu fylgdi þó öllu myrkari hlið, landið er fátækt og spillingin er mikil. „Löggan tekur við mútum og ef einhvern langar að byggja hús verður hann að sjá til þess að vel sé gert við alla sem þurfa að skrifa undir eða stimpla einhverja pappíra,“ segir Garðar. „En fólkið í Búlgaríu er gott. Mjög hjálpsamt, þrátt fyrir fátækt, spill- ingu og ýmis samfélagsleg vanda- mál.“ Garðar og liðsfélagar hans fengu að reyna spillinguna í Búlgaríu á eigin skinni. „Það voru mafíósar sem áttu liðið. Við fengum yfir- leitt borgað seint og illa. Þegar við fengum launin borguð var okk- ur oftast réttur poki með reiðufé,“ segir hann. „Ef við töpuðum neit- uðu þeir stundum að borga okkur umsamda bónusa og stundum fékk bara byrjunarliðið greitt.“ Að lokum gafst Garðar upp á því hve erfiðlega gekk að fá greidd laun og kærði liðið til FIFA, al- þjóða knattspyrnusambandsins. Hann segist hafa óttast öryggi sitt á þeim tíma. „Á sama tíma og ég kærði þá voru nokkrir leikmenn sem kvörtuðu í fjölmiðla yfir því sama. Þeir voru allir kallaðir á fund með stjórninni. En stjórnin mætti ekki á fundinn heldur lífverðirn- ir þeirra og liðsfélagar mínir voru bara lamdir. Ég sá áverkana hjá nokkrum þeirra og það fór ekk- ert á milli mála hvað hafði gerst,“ segir Garðar. „Þannig að ég var vel smeykur eftir að ég kærði og átti allt eins von á að lenda í sömu bar- smíðum og þeir. En einhvern veg- inn, þrátt fyrir að eigendurnir væru svona spilltir, þá var borin virðing fyrir okkur leikmönnunum í Sófíu og þar sem ég ákvað að fara með þá fyrir dómstóla gerðu þeir ekk- ert þessu líkt á minn hlut,“ bætir hann við. „Það er samt svo ótrú- legt að standa í launadeilum við einhverja sem gersamlega synda í seðlum.“ Garðar fékk laun sín að lokum en þó ekki fyrr en þremur árum síðar. „Þetta á að vera tiltölulega auðvelt ferli en þetta tók alltof langan tíma. Þegar þessar kring- umstæður koma upp finnst mér að FIFA ætti að borga launin en rukka svo liðin, svipað og ríkið gerir með skaðabótakröfur. Félög eru aldrei að fara að sleppa því að borga FIFA, því þá yrðu þau sett í keppn- isbann og færu fljótlega á hausinn eftir það.“ Tekur gríðarlega á andlegu hliðina Eftir nokkrar hremmingar í Búlg- aríu lá leið Garðars til Austurrík- is þar sem hann gekk til liðs við LASK Linz árið 2010 sem þá lék í efstu deild. „Það var rosalega gam- an í Austurríki,“ segir Garðar. „Ég var að komast úr meiðslum en náði að vinna mig inn í byrjunarliðið og var orðinn einn af lykilmönnun- um í hópnum undir lok tímabils- ins. Mér var boðinn nýr samning- ur og ég fer með hann heim til Ís- lands í sumarfrí. Tveimur vik- um seinna er hringt í mig og mér er sagt að félagið sé orðið gjald- þrota og 17 leikmenn farnir,“ seg- ir Garðar. Hann afréð því í sam- ráði við umboðsmann sinn að róa á Garðar Bergmann Gunnlaugsson, knattspyrnumaður á Akranesi „Þegar við fengum launin í Búlgaríu var okkur oftast réttur poki með reiðufé“ Garðar Bergmann Gunnlaugsson. Daníel, Viktoría, Hektor og Baltasar ásamt föður sínum. Ljósm. Edit Ómarsdóttir.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.