Skessuhorn


Skessuhorn - 07.12.2016, Blaðsíða 7

Skessuhorn - 07.12.2016, Blaðsíða 7
Fást í bókaverslunum um land allt Verð 5.980 kr. Sumsstaðar er boðið upp á vildarverð. Ný bók að vestan ÁTTHAGAR Hér er sagt frá uppvaxtar- og æskuárum níu kvenna á ýmsum aldri. Jamaica, Sri Lanka, El Salvador, Rússland, Þýskaland, Pólland, Ungverjaland, Tæland og Ástralía eru átthagar þeirra. Þær hafa búið á Ísafirði í fjölda ára og hafa unnið margvísleg störf og lagt mikið af mörkum til lífsins í bænum. Hafa brugðið birtu hver á sinn hátt á bæjarlífið. Söguhetjur þessarar bókar eru eftirminnilegt dæmi um það hvernig fólk af ýmsum þjóðernum getur lifað saman í sátt og samlyndi. Og bætt hvert annað upp. Þessi bók er afar gott innlegg í umræðu dagsins. Nina Ivanova, Sovétríkjunum: Það var alltaf erfitt að fá mat. Við vorum í Moskvu sem var best sett, enda höfuðborg landsins. Þar var alltaf til brauð, mjólk og súrmjólk. Þegar ostur fékkst í búðunum mynduðust strax biðraðir því hann seldist fljótt upp. Æska mín var bara röð af biðröðum. Við lærðum mjög fljótt sem börn að maður ætti ekki að blaðra, ekki tala of mikið við ókunnuga, ekki segja hitt og þetta, alltaf að vera var um sig. Ég mátti t.d. helst ekki segja hinum krökkunum frá þessum bókum sem ég var að lesa. Monica Mary Macintosh, Ástralíu: Pabbi var afskaplega rólegur maður og frekar hlédrægur. Mamma var orðin úrkula vonar um að hann kæmi sér að því að biðja hennar svo hún með sitt írska skap, tók af skarið og spurði hann hvort hann ætlaði að giftast sér eða ekki. Og ef ekki, þá sagðist hún bara skyldu giftast einhverjum öðrum náunga sem var að eltast við hana. Hún var mjög falleg ung kona. En hún meinti víst lítið með þessu enda var pabbi fljótur að segja já. Helga Ingeborg Hausner, Vestur Þýskalandi: Um leið og múrinn féll byrjuðu Austur-Þjóðverjar að streyma vestur yfir til okkar til að njóta nýfengins frelsis og allir vildu drekka kók. Ég var svo heppin að vinna um tíma í Austur-Berlín áður en ég flutti til Íslands og komst þá í kynni við ungt fólk sem hafði búið í Alþýðulýðveldinu og það sagði mér margt um aðstæður þar. Mér fannst margt mjög flott sem þau sögðu mér frá, burtséð frá pólitíkinni og kúguninni, það er annar handleggur. Barbara Maria Gunnlaugsson, Póllandi: Þegar þetta gerðist var Jóhannes Páll páfi og hann var frá Póllandi. Hann tók afstöðu í deilunum og studdi baráttu verkalýðsins, það var mjög mikilvægur stuðningur. Ég man líka að um þetta leyti sáust oft skriðdrekar á ferð í bænum. Þá voru eftirlitsstöðvar á götunum og enginn mátti vera úti eftir ákveðinn tíma, það var útgöngubann. Vöruskortur í verslunum og nauðsynjar skammtaðar. Fólk skiptist líka á skömmtunarseðlum, einn átti kannski miða fyrir sígarettum en reykti ekki og gat þá býttað við einhvern annan sem átti miða fyrir smjöri eða öðru sem vantaði. Allir fengu sígarettumiða. Beata Joó, Ungverjalandi: Afi var fiðluleikari og hann stofnaði fjölskylduhljómsveit með börnunum sínum fjórum. Þau spiluðu á böllum og alls konar samkomum, brúðkaupsveislum og þess háttar í mörg ár. Seinna gerði ég þetta líka með börnunum mínum og við vorum auðvitað kölluð Jojoo-bandið. Við spiluðum meira að segja tvisvar fyrir Ólaf Ragnar Grímsson í hans forsetatíð. Beverly Louise Stephenson, Jamaica: Við ferðuðumst á bílnum hans pabba, rauðum Ford Morris Minor. Pabbi kunni að keyra og hann keypti þennan bíl sem var einn fyrsti bíllinn í þorpinu og var notaður sem nokkurs konar sjúkrabíll þorpsins. Ef eitthvað kom fyrir, hvort sem var að nóttu eða degi og einhver þurfti að komast á sjúkrahús, þá var bankað hjá okkur. Svo þessi bíll var mikilvægur fyrir þorpsbúa. En svo kom að því að einhver keyrði á hann og eyðilagði hann. Pabbi keypti ekki annan bíl en almenningssamgöngur voru ágætar svo við gátum verið án hans. Paula Isabel Orellana de Díaz, El Salvador: Við höfum lært margt af erfiðri lífsreynslu. Við vorum vel stæð og áttum öll veraldleg gæði sem við gátum látið okkur dreyma um en þá voru foreldrar mínir myrtir og við lifðum í ótta og skelfingu. Svo komum við hingað slypp og snauð, bjuggum okkur nýtt heimili af litlum efnum en erum örugg og áhyggjulaus og eigum hvert annað heilt á húfi. Öryggi og friður er óendanlega dýrmætt og ekki hægt að meta það til fjár. Það skilur enginn fyrr en hann hefur kynnst óttanum. Pálína Sinthu Björnsson (Pom), Tælandi: Maturinn í Tælandi er mjög góður, það er bara svipaður matur og fæst á tælenskum veitingastöðum á Vesturlöndum, eins og hér í Thai-Koon á Ísafirði. Það eru veitingastaðir og götumatsölur úti um allt og það er mjög algengt að fólk kaupi matinn tilbúinn og fari með hann heim til fjölskyldunnar. Tilbúinn matur hjá götumatsölum er yfirleitt mjög góður og ódýr. Dr. Árný Aurangasri Hinriksson, Sri Lanka: Þegar við Þórir bjuggum á Sri Lanka, bauð hann bílstjóranum stundum að borða með okkur. Mamma sat við borðið hjá okkur heldur súr á svip, því henni fannst þetta algerlega óviðeigandi. En Þóri var alveg sama. Hann kom fram við þau bæði á sama hátt. Hann kenndi fólkinu á Sri Lanka nokkrar lexíur í því hvernig á að koma fram við fólk. Og það sama á við um fleiri Íslendinga sem hafa komið til að vinna á Sri Lanka, m.a. Gunnar Þórðarson tengdaföður Shirans og ekki síst Einar Kvaran sem bjó þar í 25 ár. Nafn Íslands er í miklum metum á Sri Lanka vegna starfa Einars og fyrir það hve mikla virðingu hann sýndi öllu fólki, sama af hvaða stétt það var.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.