Litli Bergþór - mai 2019, Side 30
30 Litli-Bergþór
Við brýndum stafni við festarklett hjá fjárrétt, þar
sem reyfi héngu til þerris, því að Grænlendingar
voru við smalamennskur og rúning um þessar
mundir. Þar sáum við færilús í fyrsta sinn í þrjátíu
ár. Þarna mátti sjá, að hart hafði verið beitt á
víðinn og birkið, en þetta er afbragðs fjárland
eins og annarsstaðar í Grænlandi. Við gengum
snarbrattan veg að nokkru leyti steyptan, yfir
dálítinn háls. Handan hans var stórt vatn og
fagurlega grónar hlíðar allt um kring. Þarna á háum
hóli undir klettaþili var mjög fallega uppbyggður
bær og fjárhús tvö fyrir um 700 fjár og sunnar
nýtt hús unga bóndans, Niels Lund, sem er einn
stjórnarmanna í Sauðfjárræktarfélaginu. Móðir
hans, kona eldri bóndans, er nú á ferð á Íslandi.
Okkur var borið kaffi og meðlæti út í sólina og
blíðuna við hús unga bóndans og þar voru að
lokum teknar myndir bæði af gestgjöfum okkar
og ferðahópnum.
Alltaf hélst sama lognblíðan og glampandi
sólskinið og sólskríkjan söng hástöfum við
klettaþilið. Við lögðum svo af stað til baka og
heimafók fylgdi okkur til strandar. Okkur var bent
á forna rétt við vatnið, við enda klettaþilsins, sem
fyrr er nefnt, og garð að því, svo að þar skapaðist
afbragðs aðstaða til aðreksturs. Við kvöddum
svo fólkið og fórum nú á tveim bátum sem leið
liggur út (vestur) til Julianehaab (Qaqartoq). Við
vorum á minni bátnum og fórum á undan. Við
sigldum í sólarátt og sólin sindraði á haffletinum.
Skyndilega rakst báturinn harkalega á lítinn
ísjaka og drap á sér. Lassi hafði lagt sig á fleti
niðri í lúkarnum en hrökk nú upp og sagði á
góðri íslensku, „andskotans asninn". Sem betur
fer hafði þetta engar alvarlegar afleiðingar og
ferðinni haldið áfram án tafar. Stóri báturinn fór
nú að draga á okkur, en þegar hann var kominn
á hlið við okkur dró skyndilega úr ferðinni, því
að önnur vél skipsins bilaði og kom sá bátur þó
nokkuð seinna til hafnar. Rétt sunnan og austan
við höfnina voru tveir tignarlegir borgarísjakar,
sem óspart voru ljósmyndaðir.
Julianehaab er mjög skemmtilegur bær, sem
byggður er kringum vík á móti suðri og inn með
á, sem rennur úr vatni og fram í víkina. Húsin
eru byggð hátt upp í brattar hlíðar, en götur allar
eru malbikaðar og vel frá gangstígum og þrepum
gengið, svo að umferð gengur hratt og vel. – Við
stigum á land á smábryggju, „Konungsbryggjunni“
og vorum flutt í bíl upp í ágætt gistihús uppi
í brekkunni. Við fengum góðan kvöldverð á
hóteli niðri í bænum, en um kvöldið, sem var
Jónsmessukvöld, röltum við fyrst um bæinn og
horfðum á bálin, sem tendruð voru víða um holt
og hæðir, í bænum og ofan við hann. Að lokum
gengum við upp á höfðann austan við bæinn. Við
fórum að hátta um miðnætti, mér þótti ágætt að
fá mér steypubað um kvöldið, Margrét fór í bað
morguninn eftir.
Miðvikudagur 24. júní
Þegar við vöknuðum á miðvikudagsmorgni, var
allt í einu komin rigning. Glöggir menn höfðu
séð forboða þessa kvöldið áður, en mér kom þetta
dálítið á óvart. Eftir morgunverðinn á Nanok var
gengið í verzlanir að kaupa regnfatnað og keypti
Margrét handa sér stakk, buxur og stígvél, en ég
þóttist vel búinn að heiman.
Um kl. 10 var svo lagt af stað á öflugum bát með
tveim hreyflum og öslað inn til Uperniviarsuk,
þar sem Grænlendingar hafa tilraunastöð fyrir
sauðfjárrækt og jarðrækt og jafnframt skóla
fyrir verðandi bændur. Í Grænlandi fær enginn
leyfi til að byrja búskap, nema hann hafi
fengið búfræðimenntun í skólanum og síðan
starfsreynslu hjá grænlenskum bónda og loks á
Íslandi hjá bónda og oft jafnframt í Bændaskóla.
Í Uperniviarsuk tóku á móti okkur þeir Kai Egede
skólastjóri og sauðfjárræktarráðunautur, sem
áður hafði hitt okkur í Görðum, og Paul Bjerge,
faðir Lassa. Kai Egede stjórnar þarna tilraunum í
sauðfjárrækt og er ráðunautur Grænlendinga á því
sviði, en Paul Bjerge stjórnar tilraunum í jarðrækt.
Fyrst var gengið í fjárhús og skoðað fé og hús.
Grænlenska féð er að mestu út af fé, sem flutt var
úr Húnavatnssýslu árið 1915.
Guðmundur Ingimarsson sagði
mér, að það væri mjög líkt því
fé, sem var í Húnavatnssýslu
fyrir hálfri öld, þó öllu stærra.
Það er mun afurðameira en
okkar fé, enda haginn helmingi
betri á Grænlandi en á Íslandi,
eftir því sem Ingvi Þorsteinsson
sagði okkur þarna. Ingvi er þarna
6. árið í röð við gróðurmælingar
og ráðunautastörf, þ.e. 1-1½
mán. á ári. Hann hitti okkur strax
í Görðum. Það er strax auðséð
að þeir Grænlendingar hafa ekki
átt neinn Halldór Pálsson til að
breyta vaxtarlagi fjárins. Það
er greinilega miklu háfættara
en okkar fé og grófbyggðara. Þó að ekki sé gott
að dæma fé í byrjun sumars, þegar ærnar hafa
lagt af á hámjólkurskeiðinu, þá held ég að megi
fullyrða að þetta fé er ekki eins vel gert (eftir
okkar kröfum) og íslenska féð er yfirleitt orðið.
Lærin þynnri og bakvöðvi minni, þynnra um
bóga og herðar. Um bakvöðva er þó auðvitað alls
Það var háfætt hjá
okkur í Bláfelli.
Já, og grófbyggt.