Litli Bergþór - mai 2019, Síða 33
Litli-Bergþór 33
hátt um hamrastalla, en á löngum kafla er hátt
standberg með fjölskrúðugum litbrigðum og
myndum. Á einum stað er all myndarlegur foss og
skútar og geilar í bergið. Við léttum ekki ferð okkar
fyrr en komið var inn undir botn Eiríksfjarðar
þar sem erindið var að skoða skógræktarreit. Þar
gróðursetti Paul Bjerge Síberíulerki, stafafuru frá
Alaska og smávegis af sitkagreni fyrir nálægt 25-
30 árum. Allmikið af lerkinu hefur drepist þarna,
en þó eru þar sæmilega vöxtulegar lerkihríslur.
Stafafuran stendur sig líklega öllu betur. Lasse
hélt að þarna hefðu verið gróðursettar um 2000
plöntur, en um 20.000 í Ketilsfirði heima hjá
honum. Eftir skamma stund var skógarlundurinn
kvaddur og stefna tekin aftur út til Narssarssuaq.
Ég tók myndir af flestum bændabýlunum sem við
sigldum hjá um daginn, enda þokkalegasta veður,
en nú var tekið að draga bliku á loft.
Þegar við höfðum komið okkur fyrir á
hótelinu á Narsarssuaq var tekið að dropa.
Samt drifum við okkur í fjallgöngu ásamt þeim
Páli Jónssyni og Þórveigu og gengum á hæðina
austan við hótelskálana. Þar á hnúknum hefur
verið víghreiður, fjarskiptatæki og sennilega
loftvarnabyssa á stríðsárunum og víða lá eftir
skran frá þeim tíma. Skammt frá okkur hljóp
mórauð tæfa með grátt skott, en önnur kallaði í
hlíðinni fyrir sunnan. Þarna er mjög falleg útsýn
til skriðjökulsins inni á dalnum og yfir lítið vatn
í gróðursælli klettakví. Í hlíðinni s.a. af hnúknum
eru hvítfyssandi lækir og fossar og klappir vafðar
birki, víði, lyngi og grasi. Við fengum ágætan
kvöldverð á „Arctic Hotel“ og höfðum sér matsal
(ásamt Ástralíubúunum). Þegar við sátum undir
borðum kvaddi Ragnhildur frá Gautlöndum
sér hljóðs og þakkaði þeim Jónasi og Lassa
góða fararstjórn. Jónasi færði hún selskinn sem
ferðafélagarnir höfðu samtök um að kaupa hjá
„Eskimopels“ í Narsarsuaq, en Lassa færði hún
hálsklút úr ull. Þegar við höfðum matast var H.Cr.
Motzfeldt og Stína komin frá Brattahlíð. Þau
færðu okkur kerti og snældusnúð frá fornum tíma,
sem fannst innarlega í Brattahlíðarbyggð og Lars
gamli sendi Hjálmi grænlenzka söngvabók. Þau
Kristján og Stína sátu og röbbuðu við okkur fram
til kl. 11, en þá fóru þau á ball í „Klúbbnum“ eins
og þau nefna samkomustaðinn hér. Nú var tekið
að rigna annað slagið.
Sunnudagur 28. júní
Ég vaknaði við rigningarhljóð og þegar ég leit
út sá ég að þoka grúfði yfir fjöllum. Okkur var
sagt að óvíst væri um flug heim. Hvort tveggja
væri að ólendandi væri í Narsarssuaq og svo væru
flugumferðarstjórar í yfirvinnubanni, vegna þess
að þeir krefjast sömu kjara og starfsbræður þeirra
í Evrópu.
Á hótelinu var þýzk kona, Erica Pétursson,
sem búin var að bíða í fjóra daga eftir flugferð til
Godthaab (Nuuk) og var orðin mjög einmana og
niðurdregin. Hún var harla fegin að hitta Margréti
og geta létt af hjarta sínu. Þetta reyndist vera fyrri
kona Hjálmtýs Péturssonar og sagði hún Margréti
margt af hjúskapar- og skilnaðarraunum sínum.
Nú starfar hún sem nuddkona (svæðameðferð)
og er Bahái-trúar. Hún ætlaði til vinkonu sinnar í
Godthaab, sem er sömu trúar og ætlaði að stunda
þar vinnu sína í tvo mánuði.
Þegar leið á dag varð það ljóst að ekkert yrði
flogið og Jónas varð að semja um fæði og húsnæði
fyrir hópinn og greiðslu eftirá að heiman. Annað
slagið rigndi talsvert og Ingvi Þorsteinsson, sem
þarna var kominn með bátnum sem sótti Lassa,
sagði að þetta væri orðið mesta rigningartímabil
sem hann hefði reynt á Grænlandi, en þó að veður
væri stillt alla þessa daga og væri yfirleitt kyrrara
en heima, gæti þó komið stórviðri annað slagið,
einkum þegar „Föhn“-vindarnir blása suðaustan
yfir jökulinn. Við sátum lengi síðdegis og
röbbuðum við Ericu, en um kvöldið gengum við
með Sauðafellshjónum, Páli, Þórveigu og Hreini,
suður fyrir höfnina. Ekki má gleyma að geta þess
að Lassi vinur vor varð að kveðja um miðjan dag,
en hann hafði ætlað að doka við þangað til við
kæmumst á loft. Nú var orðið ljóst að ég kæmist
ekki á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands í
Vík. Ég ákvað þó að sleppa öllum hringingum
heim, enda vorum við orðin peningalaus. En
sumir voru farnir að hringja og gera aðvart um
töfina.
Mánudagur 29. júní
Enn fjötraði þokan okkur inni í Narsarsuaq. Erica
var harla glöð þegar hún frétti að flugvélin væri
komin á loft í Godthaab og við fórum að reikna
út tíma sem það tæki hana að koma þaðan, fljúga
aftur þangað og enn til baka til okkar og loks
með okkur heim. En þessir útreikningar reyndust
gagnslausir, því að það reyndist fals eitt að
flugvélin væri komin af stað. Ég var svo óvarkár
um morguninn að strengja þess heit að skera
hvorki hár né skegg fyrr en heim væri komið. Svo
fór ég að halda að ég yrði síðskeggjaður þegar
þar að kæmi. – Sem betur fer reyndist það þó of
mikil svartsýni. Nokkru eftir hádegi fréttum við
að flugvélin væri á leiðinni frá Godthaab og svo
var tilkynnt um afgreiðslu á farangri og rýmingu
á hótelherbergjum. Hins vegar var tilkynnt um
frestun flugsins til Nuuk enn um einn dag. Erica var
gráti nær og Margrét fór með henni upp í herbergi