Litli Bergþór - mai 2019, Síða 51
Litli-Bergþór 51
Í tilefni af 20 ára afmæli RKÍ 1944 var síðan samþykkt í stjórn að sækja um land í Laugarási undir
sumardvalarheimili og samningur um 2 ha. land var undirritaður við Grímsneslæknishérað í nóvember
1944. Þetta land er í kvos vestan Kirkjuholts, norður af þeim stað sem húsdýragarðurinn í Slakka stendur
nú. Afleggjarinn að þessu landi var upp frá Skálholtsvegi þar sem nú liggur leið í Kirkjuholt, í beinu
framhaldi af Ferjuvegi.
Þegar þarna var komið hafði ríkisstjórnin afhent félaginu 10 herskála, sem hver var 100 m², sem
höfðu staðið við Hafravatn, í „Camp Jeffersonville“. Skálarnir voru fluttir í Laugarás 1945 og ætlunin
að hefja rekstur í þeim vorið 1947. Af því varð þó ekki og fyrir því voru aðallega tvær ástæður: skortur
á fjármagni og meiri vinna við standsetningu en gert var ráð fyrir.
1950 var stofnuð sérstök deild, Reykjavíkurdeild RKÍ, sem fékk m.a. það hlutverk að halda utan um
sumardvalir Reykjavíkurbarna.
Starfsemin hefst
Fyrsta sumarið dvöldu í Krossinum 112 börn á
aldrinum 3-8 ára, í átta vikur. Starfsfólkið, sem hélt
hélt utan um hópinn, taldi 26 manns.
Húsakynnin í Krossinum voru eins og sjá má á
meðfylgjandi teikningu: 4 svefnskálar, og 5 skálar
þar sem voru borðsalur, setustofa, híbýli starfsfólks,
eldhús, þvottaaðstaða og böð. Þessir skálar voru
tengdir saman með tengibyggingum. Loks stóð tíundi
skálinn stakur og þar var upphaflega lítil íbúð í öðrum
endanum, en að öðru leyti voru þar geymd leikföng og
ferðatöskur barnanna.
Það var heilmikið gert með þetta nýja barnaheimili
í blöðum, sagt frá því þegar börnin héldu austur með rútu og erfiða kveðjustund, og síðan aftur þegar
þau komu til baka í bæinn, þegar fögnuður og feimni einkenndu stundina. Þá voru skrifaðar frásagnir
af heimsóknum blaðamanna á staðinn. Umfjöllun um Krossinn var nánast eingöngu jákvæð. Það þótti
frekar mikilvægt að Reykjavíkurbörn fengju að kynnast lífinu í sveitinni.
Svo liðu árin
Fyrri hluta þess tíma sem Krossinn starfaði
var aðsókn mikil og biðlistar á hverju vori
eftir plássi fyrir börn í sumardvöl. Svo fór að
bera á gagnrýni á starfsemi af þessu tagi og
sálfræðingar og uppeldisfræðingar veltu upp
skoðunum um að sálarlífi svo ungra barna sem
þarna var um að ræða, gæti stafað hætta af
svo löngum fjarvistum frá fjölskyldum sínum.
Gagnrýnin hafði áhrif og þá aðallega þannig
að smám saman urðu börnin sem tekin voru
inn, eldri, þannig að síðustu árin voru yngstu
börnin sex ára í stað þriggja þegar heimilið tók
til starfa. Þá var einnig hægt að velja styttri dvalartíma og fóstrum var fjölgað.
Gagnrýnin hafði hinsvegar ekki umtalsverð áhrif á aðsóknina og það voru aðrir þættir frekar sem
ollu því að síðustu árin var æ meir rætt um framtíð heimilisins. Þar var um að ræða fjármagnsskort
og húsnæði, sem stöðugt varð hrörlegra. Skálarnir höfðu, þegar þeir voru byggðir og settir upp við
Hafravatn, aldrei verið hugsaðir til langframa. Þrátt fyrir ýmsar fyrirætlanir um endurbætur á þeim,
varð að lokum ljóst að það myndi aldrei ganga og trú á það fór einnig minnkandi. Það sem síðan á
endanum varð til þess að starfseminni var hætt, var úttekt eldvarnaeftirlits ríkisins, sem gerði kröfur um
umfangsmeiri endurbætur á húsnæðinu en mögulegt eða skynsamlegt þótti að ráðast í.
Frá því sláturhúsið í Laugarási tók til starfa haustið 1964 var nýtilegur hluti húsnæðisins nýttur sem
mötuneyti og gistiaðstaða fyrir starfsfólk þar til um 1980.
Sögu Krossins í Laugarási lauk endanlega með því að skálarnir voru rifnir og fjarlægðir árið 1987.
Þess sér nú varla merki að þarna hafi verið þessi umfangsmikla starfsemi.
Húsaskipan. (teikn. pms).
Drengjahópur í Krossinum 1959, með fóstrum. (mynd Matthías Frímannsson).