Sveitarstjórnarmál


Sveitarstjórnarmál - okt. 2019, Síða 43

Sveitarstjórnarmál - okt. 2019, Síða 43
Ekki einkamál kvenna Katrín segir að karlar sýni jafnréttismálum vaxandi áhuga og taki í ríkari mæli þátt í landsfundunum. „Nú mæta fleiri karlar til leiks enda eru jafnréttismál málefni karla ekki síður en kvenna. Auk þess má nefna að jafnréttismál snúast ekki lengur bara um jafnrétti kynjanna heldur er horft til mun fleiri þátta. Til marks um þetta má nefna tvenn nýleg lög frá Alþingi, annars vegar lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og hins vegar lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Við kynntum þessa nýju löggjöf á fundinum. Fyrrnefndu lögin fjalla um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Síðarnefndu lögin fjalla um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. Við hjá Jafnréttisstofu höfum eftirlit með að þessum lögum sé framfylgt. Þau eru nánast glæný og það tekur samfélagið tíma að átta sig á þeim og hvernig þau nýtast en við leggjum áherslu á að kynna þetta fyrir fólki,“ segir Katrín. Endurnýjun jafnréttisáætlana Jafnréttisstofa hefur nýlega kallað eftir endurnýjuðum jafnréttisáætlunum sveitarfélaga í samræmi við ákvæði jafnréttislaga. Þar er að mörgu að hyggja, enda lagaskyldurnar víðtækar. Katrín segir að tvennt virðist brenna sérstaklega á sveitarfélögunum og var fjallað ítarlega um það í vinnustofum á landsfundinum í Garðabæ. Annars vegar var fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni í ljósi Me Too. Fjallað var um skyldur sveitarfélaga til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða í skólum. Katrín segir að slíkar ráðstafanir geti meðal annars falið í sér að fyrir hendi séu aðgerðaáætlanir sem lýsi því ferli sem fer af stað ef tilkynnt er um slíka hegðun. Auk þess sé mikilvægt að sveitarfélög veiti fræðslu um mörk í samskiptum milli fólks og hvert hægt sé að beina málum af þessu tagi. Hún telur að sveitarfélög eigi, stöðu sinnar vegna, að vera leiðandi í sínu samfélagi hvað þetta varðar. „Sveitarfélög hafa svo marga snertifleti við íbúana í hverju samfélagi. Þau eru yfirleitt fjölmennur vinnustaður og gegna mikilvægu hlutverki gagnvart starfsfólki sínu en snertifletirnir eru auk þess svo fjölmargir við bæði börn og fullorðna í gegnum skóla, leikskóla og félagsmiðstöðvar, svo dæmi séu nefnd. Það er því mikilvægt að sveitarfélög móti sér stefnu og setji sér verkferla sem snúa að málum sem þessum,“ segir Katrín. Kynjuð fjárhagsáætlanagerð Hins vegar var sérstaklega fjallað um kynjasamþættingu með áherslu á kynjaða fjárhagsáætlanagerð. Jafnréttislög kveða á um að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Katrín segir að mörg sveitarfélög hafi sýnt áhuga á að flétta hugsun kynjasamþættingar inn í áherslur við gerð fjárhagsáætlana en frekar fá sveitarfélög hafi stigið raunveruleg skref í þá átt. „Kynjuð fjárhagsáætlanagerð er ekki orðin sérlega algeng en stærri sveitarfélög eins og Reykjavík og Akureyri hafa þó stigið skref í þessa átt. Umræðan á fundinum snerist meðal annars um að hjálpa sveitarstjórnarfólki að sjá tækifærin sem í þessu felast. Það er meðal annars mikilvægt fyrir sveitarfélög að greina kúnnahópinn, ef svo má að orði komast, rýna fólkið á bak við tölurnar. Það er gagnlegt að skoða hvaða fólk er að fá þjónustu af hálfu sveitarfélagsins, hver kynjaskipting hópsins er og leggja mat á hvort verið sé að deila gæðunum rétt út frá kynjasjónarmiðum,“ segir Katrín. Svipmyndir frá landsfundi um jafnréttismál sveitarfélaga í haust. (ljósm.: Ingibjörg Hinriksdóttir) Starfsmannapúlsinn JAFNRÉTTISMÁL

x

Sveitarstjórnarmál

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sveitarstjórnarmál
https://timarit.is/publication/1063

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.