Morgunblaðið - 27.09.2019, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 27.09.2019, Blaðsíða 36
36 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. SEPTEMBER 2019 VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Leikhópurinn RaTaTam frumsýnir á Litla sviði Borgarleikhússins í kvöld sýninguna Húh! í leikstjórn Char- lotte Bøving. Um er að ræða þriðju uppfærslu leikhópsins frá 2016 þeg- ar hópurinn frumsýndi heimildasýn- inguna Suss! sem byggðist á reynslusögum fólks um heimilis- ofbeldi. Í fyrra fylgdi síðan Ahhh … verk um ástina sem gert var upp úr textum Elísabetar Kristínar Jökuls- dóttur. Báðar vöktu sýningarnar verðskuldaða athygli. Blaðamaður Morgunblaðsins sett- ist í vikunni niður með Charlotte Bøving leikstjóra, Stefáni Ingvari Vigfússyni dramatúrg og leik- hópnum, sem í eru Albert Halldórs- son, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir og Hildur Magnús- dóttir, til að fræðast um Húh! „Fyrsta sýningin okkar, Suss! fjallaði um markaleysi í samskiptum. Þá áttuðum við okkur á því að fólk sem er markalaust í samskiptum er mögulega fólk sem hefur orðið fyrir einhvers konar ástleysi sem börn. Þaðan fórum við yfir í að fjalla um ástina í Ahhh … Meðan við vorum að skoða texta Elísabetar Jökuls fórum við að velta sjálfinu fyrir okkur. Elísabet er sjálf óbeisluð og algjör- lega hrein í barnslegri einlægni þeg- ar hún leggur sjálf sitt opið á borðið, meðan við, og annað fólk, í samfélag- inu, grípum til þess að vera með grímur til að skýla okkur á bak við. Á Facebook sýnum við alltaf bara okkar bestu hlið og leggjum því ekki allt sjálfið á borðið í öllu sínu litrófi sem inniheldur líka ókosti og galla. Þegar Elísabet gerir það gefur það okkur frelsi til að vera við sjálf,“ seg- ir Halldóra og bendir á að þessar vangaveltur hafi leitt til þess að hóp- inn langaði að skoða sjálfið betur. „Við byggjum sýninguna því á okkur sjálfum og vinnum með texta frá okkur sjálfum,“ segir Halldóra. Engin línuleg frásögn „Þó að textinn sé annars eðlis að þessu sinni vinnum við áfram í þeim stíl sem einkennt hefur fyrri sýn- ingar okkar. Þannig er engin línuleg frásögn í sýningum okkar og lítið fer fyrir samtölum milli leikara, heldur ávarpa leikararnir frekar áhorf- endur,“ segir Charlotte og bætir við að það sé heldur engin karakter- þróun og heldur áfram: „Eitt af því sem ég hef tekið eftir við Íslendinga, á þeim mörgu árum sem ég hef búið hérlendis, er hversu mikið landsmenn nota spurningar sem bjóða bara upp á já eða nei svar. Hver kannast ekki við spurningar á borð við: „Er ekki allt gott að frétta af þér?“ eða „Ertu ekki hress?“ Hver ætlar að segja nei við þeirri spurningu? Þetta eru ekki spurn- ingar sem bjóða upp á alvöru- samtal,“ segir Charlotte og rifjar upp að hún hafi orðið fyrir ákveðinni hugljómun þegar hún fyrr á árinu sá sýningu í Danmörku sem nefnist Opvisning i lavt selvværd (Sýning á lágu sjálfsmati) þar sem leikhóp- urinn vann með persónulegar sögur. Brútalt sköpunarferli „Mér fannst spennandi að fara í sambærilegt rannsóknarferðalag með RaTaTam. Þar sem þetta er þriðja sýningin okkar þekkist hóp- urinn orðið það vel að hann getur farið að vinna með persónulegt efni,“ segir Charlotte og bendir á að hún hafi í öllum sínum einleikjum ávallt unnið með persónulegan efnivið og eigið líf og hafi því mikla reynslu af því. „Mig langaði því að fara með leikhópinn inn á svið sem er ekki beint þægilegt,“ segir Charlotte. Aðspurðir viðurkenna leikararnir að ferlið hafi verið býsna erfitt á köflum. „Þetta hefur verið brútalt ferli, því þetta eru ekki hamingju- sögur heldur fremur frásagnir af mistökum eða atvikum sem hafa skilið eftir ör. Við erum að skoða skömmina sem fyrirbæri og í sam- spili við ímynd okkar og það sem leynist á bak við fullkomnu ímyndina sem við reynum að skapa út á við. Sú mynd sem við birtum á Facebook er ekki nema 1% af lífi okkar. Hin 99% eru lífið sjálft og það er það sem okkur langaði að skoða og bera á borð með öllum meðölum leikhúss- ins og sviðslega tungumálinu sem birtist í tónlistinni, sviðshreyfingum, tempóinu, húmornum, gróteskunni, afhjúpuninni og leyfinu til að vera berskjölduð sem aftur auðveldar áhorfendum að spegla sig í þessum frásögnum,“ segir Charlotte. „Þegar við komum með sögurnar okkar fórum við fljótt að setja þær í samhengi við aðra hluti í lífinu,“ segir Hildur. „Sjálfsmyndin er í for- grunni í samfélaginu nú um stundir. Við erum öll að leita að því hver við erum og hvað skilgreini okkur sem einstaklinga. Við erum svo mikið að deila myndefni á samfélagsmiðlum, en við erum ekki myndefni og sú ímynd sem þar birtist,“ segir Char- lotte og tekur samtímis fram að leik- ararnir séu ekki sögurnar sem þeir eru að miðla. Hversdagssögur Íslendinga „Þið eruð ekki þessar sögur. Lífið er ekki sögur. Sögur eru leið til að ramma okkur inn og búa til form. Það sama á við um þjóðina. Við drög- um upp mynd af Íslendingum sem þjóð út frá bókmenntum, náttúr- unni, þeirri hugmynd af við eigum fallegustu konurnar, sterkustu karl- ana og framúrskarandi listafólk. Á sama tíma notar þjóðin óheyrilegt magn af kvíðastillandi lyfjum, en sú saga er ekki sögð,“ segir Charlotte. „Þegar ég fór í leiklistina á sínum tíma fór vinur minn í sagnfræði og var þá mjög áhugasamur um nýja grein í sagnfræði sem nefndist „hversdagssagan“ sem var bara saga venjulegs fólks þar sem þján- ing og söknuður er oft fyrirferðar- mikill. Mér finnst við í þessari sýn- ingu vera að vinna með hversdags- sögur Íslendinga sem hafa gleymst í uppsveiflu síðustu ára þar sem fók- usinn hefur verið á velgengni í fót- bolta, velgengni íslensks listafólks úti um allan heim og orðsporið um að engri þjóð hafi tekist að rétta jafnvel úr kútnum eftir hrun og okk- ur Íslendingum. En hvernig er að lifa í þessu samfélagi?“ spyr Guð- mundur. Listaverkið í fyrsta sæti „Listaverkið er í fyrsta sæti og sögurnar okkar þurfa að þjóna lista- verkinu. Þannig leituðum við að kjarna frásagnanna og komum þeim í form til þess að þetta yrði sviðs- vænt og áhugavert fyrir áhorfendur. Þetta mega ekki fara í smásmyglis- legar lýsingar á sjálfsfróun. Þetta eru persónulegar sögur án þess að vera prívat sögur,“ segir Guð- mundur og Charlotte bætir við að hópurinn sé þannig aðeins að tala um sjálfan sig og ekki um annað fólk. „Enda snýst þetta um að þau afhjúpi sjálf sig,“ segir Charlotte. „Þetta eru ekkert brjálæðislega krassandi sögur,“ segir Hildur. „En 99% Íslendinga myndu samt aldrei fara upp á svið og segja þessar sög- ur,“ bætir Guðmundur við. „Þetta eru bara sögur sem fjalla um það hver við erum og hvað hefur mótað okkur,“ segir Hildur. „Næstum því sannar upplifanir,“ bætir Albert við og uppsker hláturroku viðstaddra. „Við vonumst til þess að áhorfendur horfi á þessar sögur og geti hlegið að sjálfum sér í gegnum okkur,“ segir Halldóra. „Á sviðinu eru fimm Íslendingar sem eru að segja sögur af sjálfum sér. Þetta eru nútíma Íslendinga- sögur,“ segir Charlotte og tekur fram að hún sé sannfærð um að sýn- ingin sé vellíðanarsýning fyrir áhorf- endur sökum þess hversu húmorinn er fyrirferðarmikill. „Við erum að skoða hvernig sjálfið hagar sér, hræðsla okkar við álit annarra og ótti okkar við að vera ekki nóg. Það er ekki hægt að taka svo þungt efni án þess að tvinna húmornum saman við,“ segir Charlotte. „Þó að þetta séu persónulegar sögur eru þær samtímis sammann- legar. Allir kannast við þessar að- stæður,“ segir Stefán. „Það er óhætt að segja að sköpunarferlið hafi verið býsna krefjandi fyrir leikarana. Það er erfitt að horfast í augu við sjálfan sig. Okkur finnst, sem frumskapandi hópur, hins vegar mikilvægt að skoða áhugaverð þemu sem enginn annar er að snerta á,“ segir Char- lotte að lokum. Ljósmyndir/Steve Lorenz Sögur Albert Halldórsson, Halldóra Rut Baldursdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Hildur Magnúsdóttir og Guðmundur Ingi Þorvaldsson í hlutverkum sínum í sýningunni Húh! sem leikhópurinn RaTaTam frumsýnir í kvöld. RaTaTam Í fremri röð eru f.v. Guðrún, Albert, Hildur og Halldóra. Í aftari röð Guðmundur, Björn Bergsteinn Guðmundsson, Charlotte, Stefán, Þórey Selma Sverrisdóttir, Þórunn María Jónsdóttir og Helgi Svavar Helgason. Hvað hefur mótað okkur?  RaTaTam frumsýnir Húh! á Litla sviði Borgarleikhússins í kvöld  Leikhópinn langaði að rann- saka sjálfið  „Sögur eru leið til að ramma okkur inn og búa til form,“ segir leikstjóri sýningarinnar DUXIANA Reykjavik | Ármuli 10 | Reykjavik | +354 5 68 99 50 | www.duxiana.is GÆÐI OG ÞÆGINDI SÍÐAN 1926 DUX 6006 - SVÆÐISMEÐFERÐ Í örfáum einföldum skrefum geturðu sett upp rúmið þitt til að mæta þörfum þínum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.