Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Page 23

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Page 23
 VIÐTAL Á þessum tíma var ég að vinna sem stuðn- ingsfulltrúi í skóla en maðurinn minn var í vinnu á Grænlandi. Ég sinnti dönskukennslu en fann fljótlega eftir þetta atvik að ég gæti ekki unnið við þá kennslu, allt sem minnti mig á Danmörku olli mér kvíða og vanlíðan. Ég hætti að mæta í vinnuna og enginn skildi af hverju. Í framhaldinu ræddi ég við yfirmenn mína og sagði þeim frá málavöxtum. Mér var boðin önnur vinna og mín lausn var að þigga það boð í stað þess að vinna úr hinni slæmu líðan. Ekkert á nýja staðnum minnti mig á Danmörku en eigi að síður entist ég ekki lengi í því starfi. Ég varð veikari og veikari. Ég er með undirliggjandi vefjagigt og hún er þannig að það þarf að vera jafnvægi milli líkama og sálar, annars fer illa. Ég fylltist þunglyndi og kvíða og átti ofsalega erfitt með að sinna því sem ég þurfti að gera. Loks var líðan mín orðin svo slæm að ég hugsaði með mér að best væri fyrir alla að ég myndi stytta mér aldur. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að best væri að gera það í október, það væri ekki of nærri jólum en eftir sumarfrí. Ég tók að safna að mér lyfjum sem ég fékk til þess að geta sofið. Ég tók lyfin ekki heldur faldi þau hér og þar í íbúðinni. Þannig undir- bjó ég mig fyrir þessa aðgerð. Svo gerðist það að vinkona mín, sem er læknir, missti nána vinkonu sína þannig að hún fyrirfór sér á nákvæmlega sama hátt og ég hafði hugsað mér að fyrirkoma mér. Hún sagði mér frá þessu og það fékk mig til að hugsa. Ég fann að ég gat ekki fengið af mér að fyrirfara mér og særa hana þannig enn meira. Svo undarlega sem það hljómar þá velti ég ekki fyrir mér afleiðingum dauða míns fyrir börnin mín þrjú og eiginmann. Mér fannst þvert á móti að þau væru mun betur stödd án mín. Í framhaldi af þessum hugsunum þá hringdi ég í vinkonu mína, lækninn, og sagði henni hvað ég hefði verið að undirbúa. „Þú ferð beint upp á bráðamóttöku geð- deildar strax eftir helgina,“ sagði hún. Fólk getur ekki orðið geðveikt á Íslandi nema á virkum dögum – þetta var um helgi og þá er bráðamóttakan lokuð. Eftir samtalið ákvað ég að tala við manninn minn. Ég vissi undir niðri að ef ég segði honum þetta ekki myndi ég ekki fara upp á geðdeild og allt héldi áfram í sama farinu. Innlögn á geðdeild Þetta gerðist í júní 2014. Maðurinn minn ók mér upp á bráðamóttöku geðdeildar strax á mánudegi. Ég fór ein inn og fékk samtal við sálfræðing. Ég var viss um að ég yrði send heim en það var öðru nær. Sálfræðingurinn vildi ræða við manninn minn í einrúmi og fá hans álit. Ég hafði haldið að ég hefði leynt líðan minni vel en hann sagði sálfræðingnum að ég lægi mikið fyrir, eyddi tíma í tölvunni en ekki með fjölskyldunni. Hann hafði þó ekki gert sér grein fyrir hve alvarlega var komið fyrir mér. Sálfræðingurinn sagði við manninn minn: „Heima hjá þér eru töflur faldir á hinum og þessum stöðum. Þú þarft að fara og sækja þær. Hafdís verður hér áfram.“ Þetta var mér mikið sjokk. Ég átti að leggj- ast inn á geðdeild! Augljóslega taldi sál- fræðingurinn að ég væri sjálfri mér hættuleg. Ég var svo lögð inn og fyrsta manneskjan sem ég sá á ganginum var mamma bekkjarfélaga eins af börnum mínum. Ég fylltist mikilli skömm. Ég skammaðist mín svo mikið og leið svo illa að maðurinn minn spurði hvað væri að. Þegar ég sagði honum það svaraði hann: „Hafdís, þú ert hvorki fyrsta né síðasta manneskjan sem leggst inn á geðdeild. Hættu þessari vitleysu.“ Það hjálpaði mér mikið að honum skyldi ekki finnast ég minni manneskja eða skammast sín fyrir mig þótt ég væri komin inn á geðdeild. Þessi setning er mér hugstæð enn í dag: „Þú ert hvorki fyrsta né síðasta manneskjan sem leggst inn á geðdeild. „Get over it“. Ég var á geðdeildinni í fimm daga og fékk þar góða aðhlynningu. Heimilislæknirinn minn hafði, áður en ég lagðist inn, sótt um fyrir mig hjá VIRK vegna þess hve honum fannst ég langt niðri. Ég komst varla út á leikskóla með dóttur mína og heim aftur. Þá varð ég að leggja mig og var strax komin með svo mikla verki. Við útskriftina af geðdeildinni var mér sagt að hringt yrði í mig frá spítalanum eftir nokkra daga til eftirfylgni. En viku síðar hringdi síminn og karlmannsröddin á línunni sagðist vera ráðgjafi frá VIRK. Ég hugsaði: „Á ég að hafa karlmann sem ráðgjafa? Þessi maður mun aldrei geta skilið mig.“ Hið besta samstarf tókst við ráðgjafa VIRK Ég var mjög þurr í bragði og nánast dónaleg í þessu fyrsta símtali við ráðgjafann frá VIRK. Hafði allt á hornum mér og sagðist vera að fara í sumarbústað. Það endaði þó með því að ég féllst á að koma og tala við hann en var þess fullviss að þetta myndi aldrei ganga. Varla hafði ég þó hitt ráðgjafann þegar ég fann að þetta var rangt mat. Ráðgjafinn hjá VIRK reyndist mér afskaplega vel. Svona var ég fordómafull. Með mér og ráðgjafanum tókst hið besta samstarf. Við vorum í reglulegu sambandi. Í fyrsta viðtalinu lét hann mig taka próf og gefa sjálfri mér einkunn á allskonar sviðum tilverunnar. „Þú ætlast til of mikils af þér,“ sagði ráð- gjafinn svo að prófinu loknu. Hann útskýrði fyrir mér að með þá verki sem ég var með þá gerði ég alltof miklar kröfur á sjálfa mig. Fyrsta sem við ákváðum svo í sameiningu var að ég skyldi fá tíma hjá sálfræðingi, einnig töldum við að mér kæmi að gagni að fara í Heilsuborg. Aðal vinnan hjá mér í samstarfinu við VIRK var að sækja tíma hjá sálfræðingi, sem ég komst strax að hjá. Hjá sálfræðingnum fór ég að vinna í gömlum áföllum og þar var af nógu að taka. Fimm ára gömul þurfti ég að flýja erlendis frá hingað til Íslands með mömmu minni og litla bróður vegna heimilisofbeldis sem blóðfaðir minn beitti. Við flúðum í skjóli nætur og ég man enn vel eftir þeirri ferð. Viðbrigðin við að flytja í nýtt land voru talsverð. Ég er með undirliggjandi vefjagigt og hún er þannig að það þarf að vera jafnvægi milli líkama og sálar, annars fer illa. Ég fylltist þunglyndi og kvíða og átti ofsalega erfitt með að sinna því sem ég þurfti að gera.“ 23virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.