Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Page 24

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Page 24
Eftir skilnaðinn vorum við mamma og litli bróðir minn fátæk í fyrstu og fluttum oft. Þegar ég var átta ára fór mamma að búa með yndislegum manni sem alla tíð hefur litið á mig sem sína. Hann er pabbi minn og við hann kenni ég mig. Einhvers staðar innra með mér var samt litla fimm ára barnið, sárt og niðurbarið, vildi fá viðurkenningu frá blóðföðurnum. Hann kom hingað til Íslands fyrir nokkrum árum – þá fann ég að ég hafði ekki misst af neinu. Ég átti sem sagt eftir flóttann góða æsku, eignaðist fleiri systkini og allt gekk ágætlega. Ég fór ung að heiman, vildi vera sjálfstæð. Ég eignaðist snemma barn og annað barn nokkru síðar. Leiðir mínar og barnsföður míns skildu þegar seinna barnið var nokkurra mánaða. Ég vann þó ekki úr því áfalli heldur hélt ótrauð áfram eftir skilnaðinn. Ég vann heldur ekki úr þeirri reynslu að verða nokkru síðar fyrir kynferðisofbeldi. Allt fór í „áfallaskúffuna“. Ég er ekki orðin þrjátíu og fimm ára en hef átt heima á þrjátíu og fimm stöðum. Þetta tók líka sinn toll. Skil sjálfa mig betur nú en áður Sálfræðingurinn, sem VIRK fékk tíma fyrir mig hjá, hjálpaði mér að fara í gegnum þessa reynslu alla með þeim afleiðingum að ég skil sjálfa mig miklu betur nú en áður. Ég áttaði mig á að ég hafði alla tíð sótt eftir viðurkenningu, þótt vissulega fengi ég viðurkenningu frá foreldrum mínum – en litla barnið þráði greinilega alltaf viðurkenningu frá blóðföðurnum sem ekki hafði staðið sig. Þeirri tilfinningu átti ég lengi vel erfitt með að verjast. Aftur og aftur þurftu sérfræðingar hjá VIRK að meta stöðu mína og aftur og aftur varð niðurstaðan sú að ég þyrfti fleiri tíma hjá sálfræðingnum og fékk þá. Hið góða við VIRK er að þar fær maður það sem þarf til að ástandið lagist. Lengi vel fannst mér að ég gæti ekki komist út á vinnumarkaðinn aftur, sá fyrir mér að ég myndi enda á örorku. Ég var þá rétt rúmlega þrítug og menntaður sjúkraliði. Þetta fannst mér sorgleg niðurstaða. Hjá sálfræðingnum gat ég sagt frá ýmsu sem ég aldrei hafði sagt neinum. Í framhaldi af því lét vefjagigtin smám saman aðeins undan síga. Ég talaði líka við manninn minn og það var gott að vita að þegar sálfræðitímarnir voru búnir hefði ég manninn minn til að tala við. Ég hafði gifst nokkru eftir að slitnaði upp úr sambúðinni við barnsföður minn. Maðurinn sem ég giftist hefur alla tíð síðan verið stoð mín og stytta. Við eigum saman eina dóttur. Hún fæddist fyrirburi og ég kenndi mér um að hafa ekki getað gengið með hana fullan tíma. Dóttir okkar var í öndunarvél og barðist fyrir lífi sínu vikum saman. Þetta var hræðilega erfið reynsla fyrir okkur foreldrana. Enn bættist í „áfallaskúffuna“. Líka þessu gat ég sagt sálfræðingnum frá. Ég hitti ráðgjafann minn reglulega þann tíma sem ég var í samstarfinu við VIRK. Hann var í sambandi við sálfræðinginn og niðurstaðan var sem fyrr segir lengi vel sú að betur þyrfti að gera. Það, að alltaf var samþykkt á fundum sérfræðinga að ég fengi meiri aðstoð, létti af mér mikilli streitu. Peningar eru ekki allt Fjármálin voru svo kafli út af fyrir sig. Ég lenti á milli kerfa. Mér var afhent uppsagnarbréf frá vinnuveitanda mínum strax og ég kom út af geðdeildinni. Það var áfall, mér hafði aldrei áður verið sagt upp vinnu. Hann var sá eini, fyrir utan manninn minn, sem fékk að vita þegar ég lagðist á geðdeildina. Viðbrögð hans voru sem sagt þessi. Ráðgjafinn hjá VIRK aðstoðaði mig við að sækja um endurhæfingarlífeyri en hann kom ekki strax. Ég komst að því að ég átti ekki rétt hjá stéttarfélagi. Á þeim vinnustað sem ég vann síðast fyrir innlögn var ekki greitt fyrir mig til stéttarfélags. Ég lenti því á milli kerfa, fékk aðeins hundrað þúsund krónur á mánuði. Þetta var erfitt, við höfðum keypt okkur íbúð og það þurfti að borga af henni. Ég íhugaði meira að segja að vinna í hálft ár svo ég fengi réttindi og fara svo að „vinna í sjálfri mér“. En maðurinn minn sagði: „Peningar eru ekki allt. Við komumst í gegnum þetta.“ Hálfu ári síðar komst ég á endurhæfingarlífeyrinn, hann var ekki mikið hærri en fyrri greiðslur – en mér leið eins og ég hefði fengið milljónir í hendurnar. Sem betur fer höfðum við hjónin alltaf lagt í eigin varasjóð og hann kom sér vel á þessum tíma. Þess má geta að hálfu ári eftir að ég var á geðdeildinni var loks hringt frá Land- spítalanum og mér boðinn sálfræðitími. Ég sagði sem var að ég væri löngu komin í samstarf við VIRK og þyrfti ekki á þeim tíma að halda. Mér finnst satt að segja að eftirfylgnin hjá geðdeild Landspítala mætti vera betri. Nú er staðan hjá mér góð. Ég á að vísu ennþá slæma daga en þá segi ég bara við fjölskylduna að ég verði að hvíla mig og geri það. Ég fer í sund og ræktina og er í góðu formi. Fyrst fann ég mig ekki í Heilsuborg og það var bara allt í lagi. Ég vildi fremur ganga úti og gera æfingar heima. Sú afstaða breyttist síðar og í Heilsuborg náði ég smám saman upp góðum líkamlegum styrk, var hjá góðum sjúkraþjálfara. Mín úrræði í samstarfinu við VIRK voru fyrst og fremst sálfræðitímar og seinna tímar hjá Heilsuborg. Alls var ég í samstarfinu í fimmtán mánuði. Ég vinn nú sem sjúkraliði á Hjartarannsóknar- deild Landspítala. Ég sá þessa stöðu auglýsta og sótti um en bjóst ekki við að fá hana. Í atvinnuviðtalinu gekk mér vel. Ég fékk stöðuna og er afar ánægð í starfi – er treyst fyrir stórum verkefnum. Þetta er mikill sigur. Þessi vinna er ekki líkamlega erfið þannig að vefjagigtin plagar mig ekki á sama hátt og áður. Ég er með bloggsíðu og hef tíu þúsund fylgjendur. Þar sagði ég titrandi frá reynslu minni og veikindum og leið betur. Þess má geta að ég gaf út matreiðslubók skömmu eftir að ég byrjaði hjá VIRK. Ef ég ætti að gera upp samstarfið við VIRK í stuttu máli þá er hægt að draga það saman í eina setningu – ég væri ekki ofan jarðar ef ég hefði ekki notið aðstoðar VIRK.“ Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir Ef ég ætti að gera upp samstarfið við VIRK í stuttu máli þá er hægt að draga það saman í eina setningu – ég væri ekki ofan jarðar ef ég hefði ekki notið aðstoðar VIRK.“ 24 virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.