Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Page 33

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2018, Page 33
 VIÐTAL Sjáum gífurlegan árangur Finnst ykkur að VIRK hafi gert mikið fyrir þá sem þangað sækja? „Við sjáum hér gífurlega mikinn árangur og fólk er afar þakklátt VIRK fyrir aðstoðina. Fyrir kemur að til okkar koma einstaklingar sem ekki hafa verið í vinnu í tugi ára en eru svo útskrifaðir héðan út á vinnumarkaðinn. Slíkir sigrar eru frábærir. Í hvert sinn sem einstaklingur er útskrifaður í fullt starf eða hlutastarf er það sigur,“ segja þær Kristbjörg og Guðleif Birna nánast einum rómi. „Við segjum þeim gjarnan sem útskrifast úr samstarfi við VIRK að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu. Flest stéttarfélög niðurgreiða ýmis heilsuúrræði, það ætti fólk að nýta sér. Við heyrum oft í þeim sem hér hafa verið í endurhæfingu og spyrjum þá hvort þeir hafi hreyft sig og gætt að heilsu sinni – stundum er svarið nei. Hjá sumum vinnustöðum, þar sem álag er mikið, ætti að stuðla meira að heilsubætandi úrræðum. Ábyrgðin þarf líka að liggja hjá fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Kristbjörg. Er vímuefnavandi ein af ástæðum þess að fólk hættir að vinna? „Fólk má ekki vera í virkri neyslu í endur- hæfingu. Eigi það í vímuefnavanda þarf það að ljúka meðferð gegn þeim vanda áður en það kemur inn í þjónustu hjá VIRK. Á slíkt er í upphafi lagt mat hjá teymi sérfræðinganna. Fyrir kemur að fólki sé vísað frá þangað til það hefur gert eitthvað í slíkum málum. Þetta er þó ekki áberandi vandi hjá þeim sem hingað leita.“ Verðið þið varar við að einstæðir foreldrar fái fremur kulnun í starfi en aðrir? „Allir sem hafa lítinn stuðning eru í meiri hættu – lítill stuðningur eykur líkur á kulnun í starfi,“ svarar Guðleif Birna. Heildarsýnin hjá VIRK skiptir miklu máli Hvað varð til þess að þið systur lærðuð báðar félagsráðgjöf? „Ég er eldri en Guðleif. Við erum aldar upp á Keldudal í Skagafirði, í stórum systkinahópi á heimili þar sem einnig ólust upp fósturbörn og tekin voru sumardvalarbörn. Starfsstéttirnar sem við kynntumst helst í upphafi voru bændur og félagsráðgjafar. Valið stóð því um þessar starfsgreinar. Ég fékk snemma áhuga á félagsmálum. Mín skoðun er að minna sé um streitu í sveitum en styðst ekki við neinar rannsóknir. Áhugavert væri að gera slíka könnun. Vegalengdir á höfuðborgarsvæðinu og meiri hraði á kannski sinn þátt í þessu. Ég vann lengi hjá Félagsþjónustunni. Ég var orðin þreytt á úrræðaleysi og peningaskorti sem mér fannst þar ríkja um of. Það var ein ástæðan fyrir því að ég sótti um starf hjá VIRK. Ég fylgdist af áhuga með VIRK frá stofnun þeirrar starfsemi,“ segir Kristbjörg. „Ég þræddi sömu leið og Kristbjörg. Lauk prófi frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og síðan félagsráðgjafanámi frá Háskóla Íslands. Fór fljótlega í fótspor hennar hér hjá VIRK. Það hefur verið ánægjulegt fyrir okkur að starfa hér saman. Samstarf okkar byggir þó auðvitað á faglegum forsendum. Stundum þurfum við að hringja hvor í aðra til þess að tala saman á systranótum,“ segir Guðleif Birna og hlær. „Það sem gerir starfið hjá VIRK svo ánægjulegt er heildarsýnin og að hafa aðgang að góðum úrræðum og fjármagni til að geta fylgt einstaklingum eftir á árangurs- ríkan hátt. Þetta er það sem okkur finnst svo heillandi við starfið hjá VIRK,“ segja þær Kristbjörg og Guðleif Birna. Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir 33virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.