Ljósmæðrablaðið - dec. 2019, Side 20
20 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019
Í eigindlegri rannsókn frá árinu 2008 var kannaður reynsluheimur 15
umskorinna erítreskra kvenna sem búsettar voru í Svíþjóð á meðgöngu, í
fæðingu og sængurlegu. Þær höfðu allar gengist undir 3. flokk umskurðar
sem börn. Rannsóknin fór þannig fram að tekin voru viðtöl við konurnar
og þær spurðar opinna spurninga um reynslu sína. Rétt er að hafa í huga
að ekki er unnt að draga víðtækar ályktanir út frá þessari rannsókn, m.a.
í ljósi þess hversu lítið úrtakið er, en hins vegar veitir hún áhugaverðar
vísbendingar sem vert er að gefa gaum. Flestar kvennanna höfðu upplifað
að eignast börn bæði í heimalandinu og í Svíþjóð. Þær höfðu allar
upplifað hræðslu og angist, bæði á meðgöngu og í sjálfri fæðingunni.
Þær óttuðust alvarlegar spangarrifur í fæðingu, alvarlega blæðingu og
sýkingu. Þær óttuðust einnig að fá þvag- og hægðaleka eftir fæðingu og
að það yrði til þess að þeim yrði hafnað af maka og samfélaginu. Þær
óttuðust ennfremur að vera meðhöndlaðar af heilbrigðisstarfsfólki sem
hefði takmarkaða þekkingu á umskurði og æskilegum viðbrögðum við
honum. Flestar konurnar í rannsókninni lýstu miklum verkjum og þján-
ingu varðandi fylgikvilla sem þær hlutu af umskurðinum. Sumar lýstu
miklum sársauka þegar þær höfðu samfarir í fyrsta skipti (Lundberg og
Gerezgiher,2012).
Í rannsókn sem gerð var á háskólasjúkrahúsi í Kuwait var metin tíðni á
umskurði barnshafandi kvenna og fæðingarútkomu ásamt sálfræðilegum
langtímaáhrifum. Tíðni umskurðar var 38% (1842 af 4800 konum).
Fram kom að meira en 85% þeirra kvenna sem höfðu verið umskornar
lýstu hræðslutilfinningu, hjálparleysi og hryllingi þegar þær hugsuðu til
baka til þess tíma sem verknaðurinn var framkvæmdur. Eftir fæðingu
voru meira en 80% sem héldu áfram að fá afturhvarf til atburðarins, 58%
upplifðu tilfinningalega ringulreið og 38% upplifðu kvíða og hræðslu.
Ekki kom á óvart að tengsl voru á milli áfallastreituröskunar og röskunar
á tilfinningalífi (e. affective disorder). Þessar konur voru líklegri til að
dvelja lengur á sjúkrahúsinu (Chibber o.fl., 2011).
Megindleg rannsókn var gerð á unglingsstúlkum í Egyptalandi um
sálfræðileg áhrif umskurðar á unglingsstúlkur á aldrinum 14-19 ára.
Alls tóku 204 stúlkur þátt í rannsókninni og höfðu 135 þeirra, eða
66,2%, gengist undir umskurð en 33,8% höfðu ekki verið umskornar.
Tíðni umskurðar var mun hærri hjá stúlkum sem bjuggu í dreifbýli eða
91,8%, á meðan 43% stúlkna úr þéttbýli höfðu verið umskornar. Niður-
stöður rannsóknarinnar sýndu marktækan mun á sálfræðilegri líðan hjá
þessum tveimur hópum. Þær sem voru umskornar stríddu í auknum mæli
við líkamleg einkenni af sálrænum orsökum, þunglyndi, kvíða, fælni og
andúð (e. hostility) samanborið við þær stúlkur sem ekki höfðu verið
umskornar. Ekki var marktækur munur á hópunum varðandi menntun
stúlknanna eða foreldra þeirra. Allar stúlkurnar voru á aldrinum 6 til
10 ára þegar umskurðurinn var framkvæmdur og er það hversu seint
umskurðurinn var framkvæmdur talið vera ein af ástæðum þess að stúlk-
urnar þjáðust af ofangreindum kvillum. Ályktun höfunda var því að
umskurður fæli í sér áfall og hefði alvarlegar langvarandi afleiðingar á
sálarlíf einstaklings (Ahmed o.fl., 2017).
Í rannsókn Vloeberghs og félaga (2012) kom fram að flestar konurnar
töluðu um langvarandi vandarmál af einhverjum toga. Þær konur sem
gengist höfðu undir umskurð í flokki 3 (e. infibulation) og mundu
nákvæmlega eftir sjálfum atburðinum og konur sem höfðu fengið
fræðslu varðandi umskurð lýstu meiri einkennum áfallastreituröskunar
og kvíða/þunglyndi. Orð eins og reiði, skömm, sektarkennd og útilok-
unartilfinning komu oft fyrir í rannsókninni þegar konurnar reyndu að
lýsa hugarangri sínu. Margar kvennanna nefndu að flutningurinn til
Hollands hafi orðið til þess að þær urðu meðvitaðari um umskurðinn
og heilsufarsvandamál tengd honum. Flestar konurnar töluðu þó um
flutninginn sem frelsun undan þeim samfélagsþrýstingi sem þær sættu í
heimalandi sínu varðandi þennan skaðlega sið.
ÁHRIF Á MEÐGÖNGU OG FÆÐINGU
Áhrif umskurðar á meðgöngu og fæðingu geta verið af ólíkum toga.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin framkvæmdi umfangsmikla megind-
lega rannsókn á fæðingarútkomu hjá umskornum konum frá nóvember
2001 til mars 2003 í sex Afríkuríkjum; Búrkína Fasó, Ghana, Keníu,
Nígeríu, Senegal og Súdan. Alls tóku 28.393 konur þátt í rannsókn-
inni. Skoðað var hvort konurnar höfðu verið umskornar og ef svo var,
af hvaða flokki umskurðurinn var. Stuðst var við flokkun Alþjóða-
heilbrigðismálastofnunarinnar sem lýst var hér að ofan. Alls höfðu
25% kvennanna ekki verið umskornar, 24% kvennanna höfðu gengist
undir 1. flokk umskurðar, 27% undir 2. flokk og 23% undir 3. flokk
umskurðar. Í rannsókninni kom í ljós að auknar líkur voru á blæðingu
eftir fæðingu, keisaraskurði, endurlífgun á nýburum, ungabarnadauða,
lágri fæðingarvigt og lengdri sjúkrahúsdvöl hjá konum sem höfðu verið
umskornar. Líkurnar jukust í hlutfalli við alvarleika umskurðar, þar sem
konur sem gengist höfðu undir umskurð af 3. flokki voru í mestri hættu.
Ein niðurstaða rannsóknarinnar eru sú að áætlað er að umskurður valdi
einu til tveimur tilvikum andvana fæðingar af hverjum 100. Ekki er
með öllu ljóst hvaða áhrifaþættir eiga mestan þátt í neikvæðri fæðingar-
útkomu, en ein afleiðing umskurðar er mismunandi örvefjamyndun á
kynfærum sem orsakar minni teygjanleika en í heilbrigðum kynfærum.
Líklegt er að það geti valdið ólíkum tegundum af fæðingarteppu og rifum
og leitt til spangarklippinga (e. episiotomy). Lengt annað stig fæðingar
samhliða beinum þrýstingi á spöng getur verið undirliggjandi orsök þess
að fá alvarlega spangaráverka og blæðingu eftir fæðingu ásamt öðrum
alvarlegum fylgikvillum í tengslum við umskurð (Banks o.fl., 2006).
Í megindlegri samanburðarrannsókn frá árinu 2016 var tilgangur rann-
sóknarinnar að bera saman fæðingarútkomu hjá konum á árunum 2006-
2012 á sjúkrahúsi í Ástralíu sem sérhæfir sig í heildstæðri meðhöndlun
kvenna með umskurð. Bornar voru saman konur sem voru umskornar
til samanburðar við konur sem ekki voru umskornar. Alls voru 196
umskornar konur sem tóku þátt og þar af höfðu 26% þeirra geng-
ist undir 3. flokk umskurðar. Í samanburðarhóp voru 8852 konur sem
ekki voru umskornar sem fæddu á sama tíma. Allar konur með 3. flokk
umskurðar voru opnaðar á meðgöngu eða í fæðingu. Metin var tegund
umskurðar hjá þeim konum sem það átti við og síðan voru bornar saman
mælingar milli hópa á tíðni keisaraskurða, áhaldafæðinga, spangarklipp-
inga, spangaráverka og blæðingar eftir fæðingu >500 ml. Einnig voru
nýburar skoðaðir með tilliti til fæðingarþyngdar, flutnings á vökudeild
og andvana fæðingar. Niðurstöður sýndu að umskornar konur voru með
svipaða fæðingarútkomu og þær sem ekki voru umskornar fyrir utan
hærri tíðni á 1° og 2° rifu og keisararskurðum en þess má geta að enginn
þeirra var framkvæmdur vegna þess að konurnar voru umskornar. Einnig
segja rannsakendur að rannsókn þeirra undirstriki mikilvægi sérhæfðra
eininga á sjúkrahúsum sem annast umskornar konur þar sem boðið er
upp á heildræna þjónustu. Það geti bætt greiningu á umskurði og þar
með bætt fæðingarmeðhöndlun umskorinna kvenna (Varol o.fl., 2016).
Í eigindlegri rannsókn frá árinu 2015 kom fram að umskornar konur
geta upplifað langdregnar fæðingar, slæmar spangarrifur og fengið fistla
í fæðingarvegi (Dawson,Turkmani, Varol, Nanayakkara, Sullivan og
Homer, 2015). Þær eru jafnframt líklegri til að fá tregðu við þvaglát og
endurteknar þvagfærasýkingar sérstaklega á meðgöngu og einnig líklegri
til að fæða fyrirbura og léttbura (Chibber og fl., 2011).
Ástæður fylgikvilla í fæðingum kunna að vera mismunandi. Þannig
hefur komið fram að örvefjamyndun sem algengt er að myndist eftir
3. flokk umskurðar er ein af ástæðum þess að konurnar eru líklegri til
að lenda í langdreginni fæðingu (Medford, Ball, Walker, Battersby og
Stables, 2017; WHO, 2018). Vanvirkni í legi sem oft er vegna lengdrar
fæðingar getur valdið fósturstreitu sem leiðir til fósturdauða en það er
fremur algengt í mörgum Afríkuríkjum. Einnig er algengara að þessar
konur fái alvarlegar spangarrifur og sýkingu í kjölfarið (Medforth, Batt-
ersby, Evans, Marsh og Walker, 2011).
Í áðurgreindri rannsókn Chibber og félaga (2011) var metin tíðni á
umskurði barnshafandi kvenna og fæðingarútkomu ásamt sálfræðilegum
langtímaáhrifum. Tíðni umskurðar var 38% (1842 af 4800 konum) og
kom í ljós að þær konur dvöldu mun lengur á sjúkrahúsi eftir fæðingu.
Helstu ástæður þess voru fyrirburafæðingar, sýking í nýrum og keisara-
skurður en jafnframt kom í ljós að hluti kvennanna dvaldi lengur á sjúkra-
húsinu þar sem barmar þeirra voru saumaðir saman að nýju að þeirra eigin
ósk (e. reinfibulation). Í rannsókninni kom fram að konur sem höfðu geng-
ist undir umskurð voru 3,4 sinnum líklegri að eiga langdregna fæðingu,
3,3 sinnum líklegri til að eignast fyrirbura, 2,2 sinnum líklegri til að fæða
börn sem sýndu streitumerki í fæðingu, 3,3 sinnum líklegri til að lenda í
blæðingu eftir fæðingu og 1,6 sinnum líklegri til að mælast jákvæðar fyrir
lifrarbólgu C, sem talið er vera vegna óhreinna áhalda sem notuð eru þegar
sjálfur umskurðurinn er framkvæmdur (Chibber o.fl., 2011).