Bændablaðið - 24.08.2017, Page 38

Bændablaðið - 24.08.2017, Page 38
38 HLUNNINDI&VEIÐI Undur náttúrunnar: Kolkrabbar vel gáfum gæddir Nýjar rannsóknir sýna að kolkrabbar eru einstaklega vel gefnar skepnur og hafa sterka vitund um sjálfa sig og umhverfi sitt. Hvort sem fólki finnst kolkrabbar ógnvekjandi eða heillandi benda nýjar rannsóknir til að þeir séu vel gáfum gæddir. Þekkt er að kolkrabbar í fiskabúrum hafa skriðið á milli fiskabúra standi þau hlið við hlið og sótt sér fæðu og að kolkrabbar í lokuðum krukkum geta skrúfað lokið af krukkunum innan frá. Að minnsta kosti er eitt dæmi um að kolkrabbi hafi skriðið upp úr fiskabúri á rannsóknarstöð, lyft upp niðurfalli í gólfinu og látið sig hverfa niður í það. Í einni tilraun, þar sem óþægilega sterku ljósi var beint að kolkrabba, gerði hann sér lítið fyrir og sprautaði vatni á peruna þar til að rafmagninu sló út. Sýnt hefur verið að þetta átta arma sjávardýr þekkir fólk í sundur, jafnvel þótt það sé í eins einkennisbúningum. Líkjast geimverum Prófessor nokkur í heimspeki við háskóla í Sydney og New York segir að ef einhver lífvera á jörðinni líkist geimverum þá séu það kolkrabbar. Hann segir að kolkrabbar séu eins fjarskyldir mönnum og hugsast getur og um leið afskaplega þróaðar lífverur. Ekki er vitað með vissu hver var síðasti sameiginlegi forfaðir manna og kolkrabba en talið er að það hafi verið frumstæð blóðsuga eða flatormur með vanþróað taugakerfi. Þetta þýðir að menn og kolkrabbar eiga lítið sameiginlegt hvað þróun varðar. Þrátt fyrir það hafa báðar dýrategundir þróað augu, útlimi og heila eftir ólíkum þróunarbrautum. Það sem meira, er báðar tegundir sýna greind, getu til að læra, draga ályktanir og merki um vitund. Hvað er vitund? Heimspekingurinn segir að erfiðast sé að dæma um hvort kolkrabbar hafi vitund og reyndar sé það sama að segja um menn. Ekkert segir okkur fyrir víst að menn hafi vitund að undanskilinni sjálfsvitund og að allir aðrir sýni einungis merki um vitund án þess að hún sé til til staðar. Hann segir að kolkrabbar sýni merki um forvitni og hann telur lítinn vafa á að þeir séu meðvitaðar lífverur. Þeir hafa góða sjón, eiga til að raða grjóti upp á nýtt við holur sem þeir dvelja í. Þetta bendir til að vitund lífvera hafi þróast eftir meira en einni leið á Jörðinni. Svo má heldur ekki gleyma því að kolkrabbar í sínu náttúrulega umhverfi líta út fyrir að vera afskaplega gáfaðir. /VH Umhverfismál: Leifar af kókaíni, þunglyndis-, verkja- og sýklalyfjum finnast í villtum laxi Leifar af áttatíu og einni gerð af lyfjum og snyrtivörum hafa greinst í villtum laxi sem veiðist við árósa Puget-svæðis sem er skammt frá Seattle-borg í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Meðal lyfja eru kókaín, þunglyndis-, verkja- og sýklalyf. Stundum er er því haldið fram að villtur lax sé einhver hollasti matur í heimi. Fullur af ómega 3, próteini og góðum fitusýrum. Rannsóknir á villtum laxi við árósa Puget- svæðis skammt frá Seattle-borg í Washington-ríki í Bandaríkjunum er einnig stappfullur af leifum af alls konar lyfjum og snyrtivörum. Meðal þeirra áttatíu og eins lyfjaleifa sem fundist hafa í laxi við árósana er talsvert magn af kókaín, þunglynd- is-, verkja- og sýklalyfjum. Áætlað er að um 45 tonn af lyfj- um og snyrtivörum berist í árósana á ári. Lyfjum sturtað niður Flest bendir til að lyfin hafi borist í laxinn úr lyfjum sem fólk hefur skolað niður og hreinsistöðvar hafi ekki náð að skilja út áður en þau bárust í ána. Í Seattle Times er haft eftir fulltrúa bandaríska lyfjaeftirlits- ins að magn efnanna í laxinum hafi verið mun meira en búist hafði verið við og að mismunandi efni hafi fund- ist í 62% sýna. Auk þess sem leifar af lyfjum og snyrtivörum fundust einnig í vatnssýnum sem tekin voru við árósana. Veiðieftirlitsmenn í Washington- ríki segjast hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif lyfjakokteillinn geti haft á dýralíf á Puget-svæðinu og öðrum svæðum þar sem mikið magn af lyfjum kann að finnast í náttúrunni. Mælingar sýna að lax sem sækir í árósa við Puket deyr að jafnaði mun yngri en laxar sem sækja í ár sem ekki eru mengaðar af lyfjum og snyrtivörum. Líkt og mengun vegna plasts og gróðurhúsalofttegunda, sem mikið er í umræðunni núna, er mengun vegna lyfja og snyrtivara vaxandi vandamál sem alfarið er af manna- völdum. /VH Mynd / centralcoastbiodiversity.org Flökkufiskur ættaður úr Kyrrahafi veldur áhyggjum: Hnúðlax í íslenskum ám Nokkuð hefur borið á því að hnúð- lax hafi veiðst í ám hér á landi í sumar. Sérfræðingar Hafró telja að hann geti numið land í íslensk- um ám. Í lok júlí veiddist hnúðlax í net í Patreksfirði og snemma í ágúst veiddust nokkrir hnúðlaxar í Hafralónsá í Þistilfirði og annar í Sandá í Þistilfirði. Laxinn sem veiddist í Patreksfirði var kynþroska hængur. Fyrsta dæmið er frá 1960 Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hnúð- laxa verður vart í íslenskum ám. Fyrsta skráða dæmið er frá því í ágúst 1960 þegar einn slíkur veiddist í Hítará á Mýrum. Árið 2015 bárust fregnir um hnúðlax í ám víðs vegar um landið, Ytri Rangá, Hamarsá í Hamarsfirði, Skjálfandafljóti, Þorskafjarðará og Soginu. Í Fiskifréttum hefur komið fram að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa varað við að hnúðlax geti numið land í íslenskum ám. Upprunninn í Kyrrahafi Hnúðlax, Oncorhynchus gorbuscha, kallast einnig bleiklax og á nátt- úruleg heimkynni í norðanverðu Kyrrahafi og algeng þar frá Beringssundi niður með Norður- Ameríku, Kóreuskaga og Japan. Hnúðlax er auðþekktur á dökkum hringlaga blettum á sporðinum og fíngerðu hreistri. Gerðar voru til- raunir með að sleppa hnúðlaxaseið- um í ár við Kólaskaga um 1960. Talið er að afkomendur þeirra hafi komið sér fyrir í nokkrum ám í Noregi og að laxarnir sem fundist hafa hér séu þaðan komnir. Fremur smávaxinn lax Hnúðlax dregur nafn sitt af stórum hnúð á baki hænganna. Hnúðurinn myndast við kynþroska auk þess sem skoltur hængsins stækkar við kynþroska. Við kynþroska eru hnúðlaxar 1,75 til 2,5 kíló að þyngd og 45 til 60 sentímetrar á lengd. /VH Alls stunduðu 250 bátar grá- sleppuveiðar á nýlokinni grá- sleppuvertíð. Heildaraflinn í ár var 4.542 tonn sem er 16% minni afli en á vertíðinni í fyrra. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Bændablaðið að vertíðin í ár hafi staðið frá 20. mars til 14. ágúst og að veiðidagar í ár hafi verið óvenju margir. „Landinu er skipt í átta veiðisvæði og hafði hver bátur leyfi til að stunda veiði í 46 daga samfellt á sínu svæði en undanfarin ár hafa þeir verið 32.“ Veiði undir meðallagi Að sögn Arnar var veiði á vertíðinni misjöfn eftir svæðum. „Víða var hún léleg, og þegar á heildina er litið er veiðin nokkuð undir meðaltali. Langmestu var landað í Stykkishólmi, 919 tonnum. Næstmest var landað á Bakkafirði, 294 tonn, og á Drangsnesi 290 tonn sem er tæpur helmingur þess sem var á vertíðinni í fyrra.“ Verð hærra en í fyrra Örn segir að Landssamband smábátaeigenda hafi ávallt brýnt fyrir grásleppukörlum að veiða ekki umfram það sem þeir hafa markað fyrir, þannig að komið verði í veg fyrir offramboð. „Á síðasta ári var veiði undir eftirspurn og skilaði það verðhækkun. Sú verðhækkun hefur gengið eftir á helstu mörkuðum fyrir grásleppukavíar. Grásleppan er ein fárra fisktegunda sem skilar hærra verði til sjómanna í ár en í fyrra.“ /VH Grásleppuvertíðinni lokið: 16% minni afli en á síðasta ári en verð hærra

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.