Bændablaðið - 06.04.2017, Qupperneq 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. apríl 2017
Kynning á íslenskum kjötafurðum í Japan:
Mikill áhugi í Japan fyrir íslensku hrossakjöti
HROSS&HESTAMENNSKA
Í rúmt ár hefur staðið yfir til-
raunaútflutningur á fitusprengdu
hrossakjöti til Japan. Skömmu
eftir síðustu áramót fór hópur
Íslendinga til Japan í markaðs-
og kynningarátak.
Hrossakjöt, folaldakjöt, lamba-
kjöt og innmatur er sú afurð sem
áhersla var lögð á. Í febrúar síðast-
liðnum tóku þessar íslensku búgrein-
ar þátt í stærstu matvælasýningu í
Japan sem kallast Food Table.
Kaupfélag Skagfirðinga, sem
hefur sérhæft sig í vinnslu á
Japansvöðvum, hefur ákveðið að
hækka skilaverð til bænda. KS stefn-
ir síðan á að setja af stað hvatakerfi
í haust þar sem aukagreiðslur koma
fyrir hross sem falla í Japans fitu-
flokk.“
Erlendur Á. Garðarsson, fram-
kvæmdastjóri hjá IM ehf. og verkefn-
isstjóri, segir að verkefnið hafi verið
unnið með utanríkisráðuneytinu,
sendiráði Íslands í Tókýó, atvinnu-
vegaráðuneytinu og Íslandsstofu.
„Auk þess sem Markaðsráð kinda-
kjöts og Félag hrossabænda stóðu
einnig að því. Móttökur á íslenska
kjötinu voru mjög góðar og þótt tölu-
vert starf sé fram undan má segja að
árangur hafi verið umtalsverður. Nú
er svo komið að verkefnið er farið
að hafa bein áhrif á bændur.
Góðar viðtökur í Japan
Sveinn Steinarsson, formaður
Landssambands hrossabænda, segir
að viðbrögðin við kjötinu hafi verið
góð í Japan og að hann sé bjartsýnn
á framhaldið.
„Íslenska hrossakjötið er frá-
brugðið öðru innfluttu hrossakjöti
í Japan, það þykir mýkra og svo er
fitusprengda kjötið með verðmæta
sérstöðu. Kaupandinn talar einnig
um að kjötið sé bragðgott og fíngert.
Það verður spennandi fyrir afurða-
sala að þróa sig á þessum markaði og
jafnframt áskorun að stunda viðskipti
með ferskvöru þegar vegalengd er
mikil og allir þættir þurfa að vera
í lagi.
Það er verið að þróa umbúð-
ir sem kjötinu verður pakkað í og
finna bestu aðferðina við kælingu
svo að kjötið haldi ferskleika alla leið
á markað. Frystu vöruna er auðvit-
að ekkert vandamál meðan henni er
safnað saman og send eftir þörfum.“
Kynning í íslenska sendiráðinu
Sveinn segir að á sýningu sem kallast
Food Table og á kynningu í sendiráði
Íslands í Japan hafi verið kynntar
þrjár tegundir af kjöti, hrossakjöt,
folaldakjöt og lambakjöt.
„Satt best að segja var ég mjög
stoltur af því sem við buðum upp á.
Varðandi hrossakjötið þá erum við
með einn viðskiptavin sem tekur það
allt og vill gjarnan fá meira en er í
boði eins og er. Folaldakjötið kynnti
sig einnig vel en boðið var upp á
að smakka það á sýningunni og í
matarboðum. Það var greinilega eftir
því tekið hversu bragðgott það var
og mjúkt og greinilega áhugi fyrir
því og til stendur að senda út prufur
á aðila sem er mjög umfangsmikill
í veitingahúsarekstri.
Japanir eru ekki vanir að nota
hrossakjöt í steikur þannig að það var
nýlunda fyrir þá að steikja fitusnautt
folaldakjöt. Í framhaldi af því erum
við að vonast til að koma á mark-
aðinn vöðvum úr frampörtum og
lærum. Þeir sýndu einnig hryggvöðv-
unum mikinn áhuga en sem stendur
fara þeir allir á heimamarkað hér. Ef
Japanir bjóða verulega gott verð er
spurning að flytja einhvern hluta af
þessum vöðvum út.
Við verðum samt að muna að
þetta er nýr markaður og það tekur
tíma að komast inn á hann. Ekki síst
þar sem þeir eru óvanir svona vöru til
steikingar og fullnaðarmatreiðslu.“
Ólík matarmenning
„Eins og búast mátti við var margt
sem kom okkur á óvart í Japan.
Matarmenning þeirra er að mörgu
leyti frábrugðin okkar en þó eru
dæmi um að menn njóti svip-
aðra rétta. Steikur eru vinsælar,
en á veitingastöðum og jafnvel í
heimahúsum eru menn að dunda
við að steikja þetta sjálfir á borðun-
um. Það fylgja gjarnan annaðhvort
pottar með sjóðheitu soði eða jafn-
vel smá grill á hvert borð. Þú færð
síðan sneiðar af kjöti með grænmeti
sem þú græjar á staðnum. Þetta er
auðvitað dálítið skemmtilegt, lengir
máltíðina og gerir hana svona að
einhverju verkefni. Það var mjög
gaman að prófa þetta og kynnast
matarvenjum Japananna,“ segir
Sveinn.
Japanir vita hvað þeir vilja
Sveinn segir að japanskir kaup-
endur viti hvað þeir vilji og leggi
mikið upp úr gæðum, hreinleika og
ferskleika hráefnis og greinilegt að
vinnsla og frágangur á vörunni sé
eins og talað er um.
„Ég fór á fund ásamt Erlendi Á.
Garðarssyni sem hefur haft veg og
vanda að þessu Japansverkefni til
að ræða ýmis vandamál sem hafa
komið upp varðandi skort á upp-
lýsingum og misskilningi, aðallega
innan heilbrigðiseftirlitsins í Japan.
Við urðum fljótt áskynja um að ef
hlutirnir eru ekki 100 prósent í lagi,
þá væri maður fljótt úti í kuldanum.
Slíkt er kannski engin furða þar sem
hrossakjötið er borðað hrátt og því
ekkert svigrúm til mistaka.
Sem betur fer er þekking og
reynsla til staðar á Íslandi til að glíma
við kröfur viðskiptavinanna enda
geta þeir sem greiða besta verðið
gert meiri kröfur. Eins og Erlendur
segir stundum, ef þeir segja hoppaðu,
þá spyrðu „hversu hátt“ og á það við
gæði og framsetningu á vörunni.“
Skilaverð til bænda hækkar
Í framhaldi af útflutningi á hrossa-
kjöti til Japan hefur Kaupfélag
Skagfirðinga ákveðið að hækka
skilaverð á hrossum. „KS hefur sér-
hæft sig í skurði á hrossakjöti fyrir
Japansmarkað á Sauðárkróki og í
sláturhúsinu á Hellu og ég geri fast-
lega ráð fyrir að fleiri sláturhús eigi
eftir að bætast í hópinn.
Ágúst Andrésson hjá Kjötafurða-
stöð KS hefur greint mér frá því að
þeir ætli jafnvel að borga prem-
ium-verð í haust fyrir svokölluð
Japanshross þannig að ég hvet alla
sem geta haldið hrossum vel í hold-
um að hafa það í huga. Það má því
segja að það sé ögn bjartara fram
undan og eftirspurn eftir hross-
um til slátrunar mun aukast gangi
væntingar eftir.
Að lokum vil ég segja að mér
finnst mikilvægt að það sé verið
að nýta hrossaafurðir betur en
áður og í rauninni er það siðferði-
leg skylda okkar úr því við þurfum
að slátra hrossum á annað borð,“
segir Sveinn Steinarsson, formaður
Landssambands hrossabænda. /VH
Kaupfélag Skagfirðinga hækk-
aði skilaverð til bænda á hrossa-
kjöti um síðustu mánaðamót
vegna aukinnar sölu til Japan.
Verð fyrir kílóið af fullorðnum
hrossum hækkar úr 70 krónum
í 105 krónur fyrir kílóið.
Ágúst Andrésson, fram-
kvæmdastjóri hjá Kaupfélagi
Skagfirðinga, segir ástæðuna fyrir
hækkuninni vera góðan árangur í
markaðssetningu á hrossakjöti í
Japan. „Sala á hrossakjöti til Japan
er mest á haustin og fram í mars.
Fyrir þann tíma munum við boða
sérstaka premíu á skilaverðið á
hross sem falla sérstaklega undir
kröfur Japananna. Premían kemur
ofan á þær 105 krónur sem við
borgum núna. Ég er ekki alveg
klár á hvað premían verður mikil
en hún verður nokkur.“ /VH
Hækkun á skilaverði til bænda:
KS hækkar verð til bænda vegna
sölu á hrossakjöti til Japan
Japanir borða hrossakjöt hrátt og því um viðkvæma vöru að ræða. Kröfur um
Í sendiráðinu var íslenska hráefnið matreitt í japönskum anda.
Mikill áhugi var á folaldakjötinu.