Bændablaðið - 06.04.2017, Blaðsíða 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 6. apríl 2017
Íslandsstofa, í samstarfi við aðalræðisskrif-
stofu Íslands í New York, skipuleggur nú ferð
fyrir íslenska framleiðendur og útflytjendur
á matvælum og drykkjarvörum, til New York
dagana 24.–27. júní 2017.
Tilgangur ferðarinnar er fyrst og fremst að
kynnast sérvörumarkaðnum og viðskiptaum-
hverfinu í Bandaríkjunum, með áherslu á aust-
urströnd Bandaríkjanna og New York. Farið
verður á Fancy Food-sýninguna í New York,
matvörumarkaðir og sérvöruverslanir heimsótt-
ar og þátttakendur fá kynningu á viðskiptaum-
hverfinu í Bandaríkjunum. Þátttaka í ferðinni
er kjörið tækifæri fyrir matvælafyrirtæki sem
hafa hug á að kynna sér matvælageirann (eink-
um sérvörumarkaðinn) í Bandaríkjunum nánar,
komast í tengsl við dreifingaraðila og kanna
grundvöll eða hefja útflutning.
Allar nánari upplýsingar um ferðina er að
finna á vef Íslandsstofu, www.islandsstofa.is.
Ný stjórn Landssambands kúabænda var
kjörin á aðalfundi samtakanna sem haldinn
var Akureyri nýverið.
Arnar Árnason var endurkjörinn for-
maður samtakanna, en aðrir í stjórn eru
Bessi Freyr Vésteinsson, Hofsstaðaseli,
Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð, Herdís
Magna Gunnarsdóttir, Egilsstöðum og Pétur
Diðriksson, Helgavatni.
Þessi stjórn verður starfandi starfsárið
2017 til 2018. Stjórnarmenn eru jafnframt
Búnaðarþingsfulltrúar Landssambands kúa-
bænda 2017 til 2019. Varamenn voru kjörn-
ir þeir Davíð Logi Jónsson, Egg og Rafn
Bergsson, Hólmahjáleigu. /MÞÞ
MÆLT AF
MUNNI FRAM
Núna, liðugri viku eftir vorvísnagerð Skarphéðins Ásbjörnssonar, mylgrar hér niður snjó við
Eyjafjörð. Samt er kominn einhver
vorhugur í þjóðina. Alla vega er byrj-
að að bruma í sálinni á Ingólfi Ómari
Ármannssyni, en að sunnan sendi hann
næstu þrjár vorvísur:
Blika drangar blánar ver
blær um vanga líður.
Vorsins ganga greiðfær er
glóey fangið býður.
Seður lýði glóey góð,
glæðir tíðin þorið.
Kveður þýðan ástaróð
yndisblíða vorið.
Vorið blíða vekur þrá,
vonir lýði fanga.
Glóey skrýðir grund og sjá
grös í hlíðum anga.
Fyrir allnokkru bárust fregnir af báglegu
ástandi frárennslismála í Mývatnssveit.
Þjóðin bókstaflega gól af gremju yfir
ástandi skólpmála í þessari náttúruperlu
Norðurlands. Eftir að hafa hlýtt á umræður
í Kastljósi sjónvarpsins orti Davíð Hjálmar
Haraldsson á Akureyri þessa vísu:
Það er fjör og hamagangur hér,
á hótelinu allir flýta sér
að skíta í Mývatn meðan það er hreint.
Á morgun snemma verður það of seint.
Líkt og fram kom í síðasta vísnaþætti,
þá er nokkurt vinfengi með Einari
Kolbeinssyni í Bólstaðarhlíð og títt-
nefndum Skarphéðni Ásbjörnssyni á
Akureyri. Skarphéðinn á forláta trillu
sem hann sækir á sjávarfang. Þótt Einar
hafi um langa hríð verið lausa maður í
áhöfn hjá mér, þá fór nú svo í haust, að
Skarphéðni tókst að véla Einar tötrið
með sér til svartfuglsveiða frá Dalvík.
Trúlegt þykir mér, að Skarphéðinn
hafi talið Einari trú um að hjá sér hefði
hann skárra skipsrúm og betri skiptahlut.
Alltént sendi Skarphéðinn mér þessa vísu
í símann strax og þeir félagar höfðu leyst
landfestar:
Siglir nú á skárri skel
en skeð hefur nokkuð lengi.
Til tilbreytingar veiðir vel
í vandaðra manna gengi.
Einhverra vonbrigða gætti þó er á miðin
var komið. Virtist sem Einar stæði hvergi
undir væntingum Skarphéðins og skot-
fimi hans stórlega ofmetin. Skarphéðinn
sendi vísu:
Skotfimi slík sjaldan sést
og sárafáir hygg að noti.
Á að giska enginn féll
í öðru og þriðja hverju skoti.
Nú, ekki gekk Skarphéðni að fastna sér
Einar í fast skipsrúm því uppvægur vildi
hann á sjó með mér fyrir tæpri viku síðan.
Einar vílar ekki fyrir sér ferðalög hing-
að norður ef veiðiskapur er í boði. Einar
ekur þessa 120 km á Skodabifreið sinni
með undra hraða. Við upphaf ferðar sendi
Einar vísu:
Lífið virðist laust við neyð,
ljúft er þess að njóta,
hugurinn ber mig hálfa leið,
hitt fer ég á Skoda.
Og litlu síðar:
Framhjá geysist frægum stað
hvar fráleitt hljóma sálmar.
Þar sem gramur gekk um hlað
gamli Bólu-Hjálmar.
Á Leirubrúnni yfir Eyjafjarðará sendi hann
svofellda fyrirspurn:
Eftir að þú hundskast heim
úr hænsnastússi þínu,
mun þá leggja kaffikeim
úr kotrassgati þínu?
175
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
Ný stjórn LK, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Arnar Árnason, Pétur Diðriksson og Davíð Logi Jónsson. Mynd / MÞÞ
LÍF&STARF
Landssamband kúabænda:
Ný stjórn kjörin á aðalfundi
Landssamtök sauðfjárbænda:
Ný stjórn og Oddný Steina nýr formaður
Oddný Steina Valsdóttir, Butru í Fljótshlíð,
er nýr formaður Landssamtaka sauðfjár-
bænda (LS).
Oddný lýsti ein yfir framboði til for-
mennsku eftir að Þórarinn Ingi Pétursson lýsti
því yfir að hann gæfi ekki kost á sér áfram í
formannsembættið. Þórarinn Ingi var kjörinn
formaður árið 2012 og tók þá við af Sindra
Sigurgeirssyni. Þórarinn gaf áfram kost á sér
sem formaður Markaðsráðs kindakjöts en ný
stjórn tekur afstöðu til þess.
Allir félagsmenn voru í kjöri til formanns,
en Oddný hlaut 44 af 46 greiddum atkvæðum.
Oddný Steina kom ný inn í stjórn LS árið
2012, en var áður í varastjórn. Hún varð vara-
formaður strax það ár og hefur verið síðan.
Hún er fyrsta konan til að gegna formennsku
í LS. Varaformaður verður valinn af stjórn LS
og sömuleiðis ritari.
Tveir nýir í stjórn
Ný stjórn var einnig kosin á aðalfundinum.
Þar koma nýir inn þeir Gunnar Þórarinsson,
Þóroddsstöðum, og Trausti Hjálmarsson,
Austurhlíð. Þórhildur Þorsteinsdóttir, Brekku,
er endurkjörin en hún var ritari í gömlu stjórn-
inni. Böðvar Baldursson, Ysta-Hvammi, var
áfram valinn til stjórnarsetu, en hann sat sem
meðstjórnandi í síðustu stjórn. Út úr stjórn
fór Atli Már Traustason, Syðri-Hofdölum, og
Oddný sem sat í stjórn sem varaformaður, en er
eins og fyrr segir komin í formannssætið. /smh
Ný stjórn LS. Oddný Steina Valsdóttir á Butru, formaður og Þórhildur Þorsteinsdóttir, Brekku.
Aftari röð frá vinstri: Böðvar Baldursson, Ysta-Hvammi, Gunnar Þórarinsson, Þóroddsstöðum
og Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð. Mynd / HKr.
Íslenskur matur á Bandaríkjamarkað