Bændablaðið - 06.04.2017, Blaðsíða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. apríl 2017
Jakuxar eru líklega ein furðu-
legustu nytjadýr í heimi.
Heimkynni þeirra eru á harð-
býlum og víðfeðmum hásléttum
Himalajafjalla sem stundum
eru kallaðar þak heimsins. Þar
er loftið þunnt og frost fer niður
í -40° á Celsíus.
Jakuxar þrífast við aðstæður
sem engin önnur húsdýr þola og
eru nýtir sem burðardýr, kýrnar eru
mjólkaðar og kjöt og innyfli nýtt til
matar. Ullin er ofin og húðir sniðn-
ar í tjöld, klæði og nytjahluti. Úr
hornunum eru smíðuð hljóðfæri og
listmunir auk þess sem mykjan er
brennd sem eldiviður. Án jakuxa er
ólíklegt að fólk gæti þrifist á háslétt-
um Himalajafjalla.
Áætlaður fjöldi jakuxa í heim-
inum er um 15 milljón og 90%
af þeim fjölda er að finna í Kína,
Himalajafjöllum, hásléttum Tíbet,
Nepal, Mið-Asíu og norður til
Mongólíu og Síberíu. Langflestir
jakuxar eru húsdýr þrátt fyrir að
enn sé að finna litlar hjarðir villtra
jakuxa, sem eru í útrýmingarhættu,
á afmörkuðum verndarsvæðum.
Erfitt er að henda reiður á fjölda
jakuxa í hverju landi en langflest-
ir, um 13 milljón, munu þeir vera
í Kína og ríflega 600 þúsund í
Mongólíu. Auk þess sem nokkur
hundruð innflutta jakuxa er að finna
í Bandríkjum Norður-Ameríku og
stöku dýragarði.
Talið er að villtir jakuxar í heim-
inum séu innan við 15 þúsund og að
þeir séu afkomendur taminna dýra
sem hafa sloppið og aðlagast lífinu
í náttúrunni.
Skyldir nautgripum
Jakuxar eru af sömu ættkvísl og
nautgripir, Bos. Latneskt heiti villtra
jakuxa er Bos mutus en taminna B.
grunniens. Þeir sem láta sig flokk-
unarfræði jakuxa varða eru ekki
á einu máli um hvort flokka eigi
villta jakuxa sem sérstaka tegund
eða undirtegund B. grunniens.
Talið er að hjarðir B. baikalensis,
sem er útdauð tegund, hafi í eina tíð
ráfað um sléttur Síberíu og jafnvel
farið yfir Beringssund til Norður-
Ameríku.
Ólík öðrum nautgripum baula
jakuxar ekki heldur gefa frá sér
nokkurs konar urr eða rophljóð og
mun tegundarheitið grunniens vera
dregið af því.
Íslenska heitið jakuxi líkist enska
heitinu yak sem mun upprunalega
vera komið frá Tíbet þar sem það er
samheiti yfir nautin. Mutus á latínu
þýðir aftur á móti þögull eða hljóð-
laus.
Ásýnd og líkamsstarfsemi
Í samanburði við íslenska nautgripi
eru jakuxar stór dýr. Fullorðið villt
naut getur náð tæpum tveimur metr-
um við herðakamb og um tveimur
metrum frá haus og aftur á hala.
Kýrnar eru smávaxnari. Skrokkurinn
er belgmikill og fæturnir stuttir og
sterkir og með stórum hringlaga
klaufum sem varna því að dýrin
sökkvi í mýrlendi. Undir þykkri
húðinni sem er án svitahola er lík-
aminn þakinn þykku og einangrandi
fitulagi.
Jakuxar virðast rytjulegir að sjá
vegna þess hversu langhærðir þeir eru
og lafir hárið langt niður fyrir belginn
á þeim. Hárið, eða jakuxaull eins og
það er kallað, er þétt og einangrandi
og ver dýrin fyrir kulda. Hali jakuxa
líkist fremur tagli á hesti en hala naut-
gripa.
Villtir jakuxar eru yfirleit dekkri en
tamdir, brúnleitir eða svartir en tamdir
eru til í fjölda litum og litaafbrigðum,
hvítir, dökkir eða tvílitir.
Hálsinn er stuttur en hausinn stór
og breiður og aftan við hausinn er
hnúður. Munnurinn er stór en augun
og eyrun lítil. Hornin yfirleitt löng, 30
til 100 sentímetrar eftir kyni. Kollóttir
jakuxar eru yfirleitt tamdir.
Villtir jakuxar eru stærri en tamd-
ir. Jakuxakýr vega frá 200 og upp í
250 kíló en nautin eru talsvert þyngri,
350 til 600 kíló. Dæmi eru um að villt
jakuxanaut hafi náð rúmu tonni að
þyngd.
Jakuxar eru vel aðalagaðir að kulda
og lífi hátt til fjalla. Lungun og hjarta
eru stór og nýta súrefni vel. Frost allt
að -40° á Celsíus hefur lítil áhrif á
lífstarfsemi þeirra og reyndar er ekki
vitað hversu mikið frost þeir þola. Í
vondum veðrum hópa dýrin sig saman
og mynda þéttan vegg umhverfis
kálfana og halda þannig á þeim hita.
Þeir sýna sömu hegðun stafi hætta
að hópnum og mynda varnarvegg
umhverfis ungviðið til að vernda það.
Reyndar eru jakuxar það vel aðlag-
aðir háfjallalofti að þeir þrífast illa á
láglendi og þola varla við fari hiti yfir
15° á Celsíus.
Jakuxar eru jórturdýr með óvenju
stórt vinstur sem gerir þeim kleift að
melta mikið magn af trefjaríkri en
næringarsnauðri fæðu eins og sölnuðu
grasi, mosa og fléttum. Að meðaltali
innbyrða jakuxar um 1% af líkams-
þyngd sinni af fæðu á dag. Dýrin eru
HELSTU NYTJADÝR HEIMSINS
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
Jakuxamjólk þykir góð út í te og til smjör- og ostagerðar. Í Tíbet eru búnir til skúlptúrar í jakuxasmjöri guðunum til heiðurs á trúarhátíðum.
Uppruni jakuxa er ofan við vaxtarmörk trjáa í 2.000 til 7.000 metra hæð á
hásléttum Himalajafjalla.
Í Tíbet og Pakistan er jakuxapóló íþrótt sem aðallega er stunduð ferðamönnum til skemmtunar.