Bændablaðið - 06.04.2017, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. apríl 2017
Guðlaug (Gulla) Gísladóttir
hefur búið í rúm 30 ár í
Bandaríkjunum við nám og störf
en hún ólst upp á hefðbundnu
blönduðu búi í Unnarholtskoti í
Hrunamannahreppi.
Eftir farsælan starfsferil hjá Santa
Cruz-sýslu fór hún á eftirlaun í lok
árs 2015 og flutti til Whidbey-eyju
rétt norðan við Seattle í Washington-
ríki með nýja manninum sínum,
Steve Scoles, sem á um 20 hektara
lands. Nú starfar Gulla sem sjálf-
boðaliði á Glendale Sheperd-búinu
á eyjunni við sauðburð sem veitir
henni mikla vellíðunartilfinningu
og með aðstoðinni finnst henni hún
leggja sitt af mörkum við að gefa til
baka til samfélagsins.
„Eftir menntaskóla ákvað ég
að leggja fyrir mig landafræði og
líffræði, upphaflega með það fyrir
augum að fá mér kennsluréttindi í
báðum greinum. Eftir útskrift frá
Háskóla Íslands árið 1980 lá leiðin
til Englands í framhaldsnám í fjar-
könnun sem þá hafði fangað hug
minn ásamt kortagerð.
Við hjónin, Guðmundur
Þórðarson, fundum skóla sem
hentaði okkur báðum í Reading og
útskrifuðumst þaðan árið 1984, hann
með doktorsgráðu í innkirtlafræði en
ég með master í fjarkönnun og korta-
gerð. Honum bauðst post doc-staða
við Kaliforníuháskóla í Santa Cruz
og þangað fluttum við í árslok 1984.
Ég átti frekar erfitt með að fá
vinnu við fjarkönnun, því á þeim
tíma þurfti öryggisvottun til að vinna
við gervihnattamyndir. Ég fékk að
lokum vinnu á verkfræðistofu sem
sá um landmælingar og þar nýttist
mér kortagerðarkunnáttan, þó lítið
hafi farið fyrir fjarkönnunarvinnu.
Á þessum tíma voru að koma á
markaðinn ný tölvuforrit sem nýtt-
ust vel til kortagerðar, þetta vakti
áhuga minn, svo ég fór í kvöldskóla
til að læra þessa nýju tækni og vann
síðan á verkfræðistofunni við að gera
tölvukort eftir landmælingagögnum
til ársins 1995,“ útskýrir Gulla og
segir jafnframt:
„Vegna niðursveiflu á fasteigna-
markaði í Kaliforníu á þessum tíma
minnkaði mjög vinnan á verk-
fræðistofunni. Ég fór því að leita
fyrir mér um önnur störf og sótti
meðal annars um vinnu á sýsluskrif-
stofunni.
Mér bauðst vinna hjá fasteigna-
matinu sem hafði nýlega byrjað að
nota tölvutækni við gerð fasteigna-
korta. Þar kynntist ég enn nýrri
kortagerðatækni, landfræðilegum
upplýsingakerfum (GIS), svo ég fór
aftur í kvöldskólann og lærði þar
allt sem boðið var upp á um GIS.
Fasteignamat Santa Cruz-sýslu var
það fyrsta í Kaliforníu til að tileinka
sér þá tækni til að halda utan um
landfræðilegan gagnagrunn sinn
árið 2004 og buðum við því upp
á sýnikennslu fyrir aðrar sýslur og
fyrirtæki sem höfðu áhuga á að gera
slíkt hið sama.“
Ákvað að bjóða fram aðstoð
Eftir farsælan starfsferil hjá Santa
Cruz-sýslu í rúm 20 ár ákvað Gulla
að fara á eftirlaun í lok árs 2015. Þá
hafði talsvert rót komist á líf henn-
ar, Guðmundur og hún voru skilin,
dóttir þeirra, Helen Tinna, var um
það bil að útskrifast úr háskóla og
Gulla hafði kynnst nýjum manni,
Steve Scoles.
„Ég flutti frá Santa Cruz til
Whidbey-eyju í fyrravetur, þar sem
Steve býr á um 20 hektara landi.
Þegar ég heimsótti Steve sumarið
2015 fórum við á bændamarkað á
eyjunni þar sem við hittum Lynn og
Stan Swanson frá Glendale Sheperd-
sveitabænum sem voru að selja
afurðir sínar. Við spjölluðum og ég
spurði hvort þau hefðu áhuga á að
hafa sjálfboðaliða við sauðburðinn.
Þau höfðu áhuga á því svo ég ákvað
að það væri ágætis byrjunarreitur til
að þjóna samfélaginu,“ segir Gulla
og bætir við:
„Á meðan ég stundaði reglu-
lega vinnu fannst mér ég ekki hafa
mikinn tíma til að sinna samfé-
lagsmálum. Að vísu tók ég þátt í
foreldrastarfi á meðan dóttir mín
var á barnaheimili og í grunnskóla
og einnig í uppbyggingu og þróun
félagslegrar aðstöðu í hverfinu þar
sem við bjuggum. Þannig að þegar
ég hætti að vinna og fór á eftirlaun,
fannst mér töluvert á mig halla í
þeim málum.
Ég hafði séð fyrir mér að ég gæti
lagt til talsverða tæknilega þekkingu
á sviði GIS og ef til vill unnið við
mannúðarstörf í þriðja heiminum.
En þegar ég fór að athuga þau mál
betur reyndist það frekar flókið að
koma því í kring.
Eftir að hafa alist upp í sveit og
upplifað hve tímafrek bústörfin eru
og að bændur hafa alla jafna lítinn
sem engan frítíma, fannst mér að
ég gæti lagt minn skerf af mörk-
um þar og ákvað því að bjóða fram
mína aðstoð. Hin ástæðan var að
ég vissi að þetta myndi næra gömlu
sveitasálina.“
Framleiða osta og jógúrt
Gulla starfar sem sagt launalaust á
búinu en hefur frjálsan aðgang að
afurðum sem framleiddar eru eins
og osta, jógúrt, lamba- og svínakjöt.
„Ég vann aðeins við sauðburðinn
hjá þeim í fyrra, en núna í ár er ég
þar mun reglulegar, vinn 3 daga í
viku. Þau eru með kindur og fram-
leiða osta og jógúrt. Ostarnir þeirra
hafa fengið ýmis verðlaun á svoköll-
uðum artisan cheese-samkeppnum.
Þar að auki kaupa þau nokkra grísi
um það leyti sem sauðburður hefst
og ala þá á mysunni sem til fellur
við ostagerðina.“
Á búinu er mjólkurkindastofn
sem heitir East Friesian Lacone og
eru 62 kindur á bænum.
„Vegna innflutningshafta á lif-
andi dýrum og sæði hafa amerískir
sauðfjárbændur ekki getað kynbætt
mjólkurstofna sína til að auka mjólk-
urframleiðsluna. Amerískar mjólk-
urkindur mjólka því bara til hálfs á
við þær evrópsku,“ útskýrir Gulla.
Vill leggja sitt af mörkum
Gulla segir búskapinn á bænum sem
hún starfar á töluvert frábrugðinn því
sem við þekkjum hér heima þar sem
aðalafurðin er kjöt. Aðaláherslan þar
er á mjólkina og lömbin tekin frá
kindunum um leið og þau fæðast.
Flestir séu þó í kjöt- og ullarfram-
leiðslu á svæðinu eins og hér heima.
„Það er talsvert mikið verk að
sinna lömbunum fyrstu vikurnar og
það er það sem ég fæst við hér. Það,
að fá að sjá um og vera með þess-
um litlu lömbum, gefur mér alveg
ótrúlega vellíðunartilfinningu og er
bara toppurinn á nostalgíuskalanum.
Sauðburðurinn var alltaf uppáhalds-
tíminn minn í sveitinni, bæði vegna
þess að þá var daginn farið að lengja
og maður komst einhvern veginn
í mun nánari tengsl við kindurnar.
Mér fannst alltaf að þær treystu
manni betur á þessum tíma. Oft
þurfti að hjálpa þeim við burðinn og
eins virtist tilfinningalíf þeirra mun
opnara við það að eignast lömb. Allt
það sem sneri að lömbunum fannst
mér gaman að fást við,“ útskýrir
Gulla og aðspurð um framhaldið
segir hún:
„Ég vona að ég geti haldið þessu
áfram. Sauðburðurinn hér er frá
byrjun febrúar til um það bil loka
mars. Þetta er frekar dimmur og
umhleypingasamur tími hér í Puget
Sundi, ekki bjartar vornætur eins
og á Íslandi. Ég reikna ekki með
að vinna hér nema bara yfir sauð-
burðinn, en er þó að velta fyrir mér
að læra á mjaltakerfið þeirra svo
ég geti hlaupið í skarðið ef forföll
verða. Ég ætla mér ekki að verða
fjárbóndi sjálf, það starf krefst meiri
vinnu og viðveru en ég er tilbúin
að leggja af mörkum. Það að vinna
tímabundið á annarra manna búi er
svona eins og að eiga barnabörn,
maður getur notið samveru þeirra
en aðrir bera ábyrgðina.
Ég var reyndar að fá mér hænur
um daginn og er að skipuleggja
gróðurhúsabyggingu og garðrækt
fyrir sumarið, búskaparplön mín ná
ekki lengra en það.“ /ehg
Guðlaug Gísladóttir hefur verið búsett í Bandaríkjunum í rúm 30 ár og eftir að hún fór á eftirlaun í lok árs 2015
vinnur hún sem sjálfboðaliði á sauðfjárbúi á Whidbey-eyju norður af Seattle í Washington-ríki.
Kindurnar á búinu eru mjólkurkynið East Friesian Lacone og eru lömbin
tekin frá mæðrum sínum um leið og þau koma í heiminn. Starf Gullu felst
að mestu í að sinna nýbornum lömbunum.
og hrúga sig þá gjarnan svona saman. Ullin er send í spunaverksmiðju í nágrenninu.
Ostasmökkunarbarinn á bænum. Boðið er upp á kynningarferðir og
ostasmakk og sölu á sunnudagseftirmiðdögum.
Hér má sjá sýnishorn af jógúrti og
ostum sem framleidd eru á bænum.