Bændablaðið - 20.09.2018, Síða 40

Bændablaðið - 20.09.2018, Síða 40
Bændablaðið | Fimmtudagur 20. september 201840 LÍF&STARF Samband sunnlenskra kvenna 90 ára: „Forvarnir – lykill að bættri lýðheilsu“ – er yfirskrift afmælisársins og konur hvattar til að rækta huga, líkama og umhverfi Samband sunnlenskra kvenna (SSK) var stofnað 30. september árið 1928 og eru því 90 ár liðin frá stofnun þess í lok þessa mánaðar. Með stofnun kvenfélaga mynduðu íslenskar konur net kvenna til að stuðla að fræðslu og til að berjast gegn fátækt og vosbúð. Elinborg Sigurðardóttir er formaður SSK, en hún segir að á þeim tíma sem sambandið var stofnað hafi verið mikil fátækt í landinu og víða hjálpar þörf. „Konur 40 ára og eldri höfðu fengið kosningarétt árið 1915 og rödd þeirra var farin að heyrast þótt fyrsta konan væri ekki kjörin á þing fyrr en árið 1922. Víða um land höfðu verið stofnuð kvenfélög, það elsta, Kvf. Rípurhrepps í Skagafirði, var stofnað árið 1869. Elsta kvenfélagið hér á Suðurlandi er Kvf. á Eyrarbakka, stofnað árið 1888. Með stofnun kvenfélaganna mynduðu íslenskar konur net kvenna. Þær vildu efla fræðslu til kvenna og barna og leituðu leiða gegn fátækt og vosbúð. Þær beittu sér fyrir að koma upp matjurtagörðum og rækta þar fleiri afurðir til manneldis.“ Þáttur Halldóru Bjarnadóttur „Halldóra Bjarnadóttir, heimilis- iðnaðarráðunautur á Blönduósi, sendi bréf vorið 1927 til nokkurra kvenna hér á Suðurlandi og hvatti þær til að efna til kvennafundar og heimilisiðnaðarsýningar. Efnt var til þessa viðburðar í Tryggvaskála og þar hvatti Halldóra til að konur stofnuðu kvenfélög í þeim hreppum þar sem engin slík væru enn. Einnig hvatti hún til að kvenfélögin stofnuðu samband sín á milli til að sameinast í átökum um velferðarmál til blessunar og framfara fyrir héraðið. Þessi samtök áttu að vera hliðstæð búnaðarfélögum og búnaðarsamböndum sem víða voru þá til.“ SSK stofnað 30. september 1928 „Samband sunnlenskra kvenna var síðan stofnað í Þjórsártúni 30. september 1928 og var Herdís Jakobsdóttir, Kvf. Eyrarbakka, einróma kosin fyrsti formaður þess. Aðalmarkmið með stofnun sambandsins var að vinna að aukinni húsmæðrafræðslu og efla heimilisiðnað og garðrækt og viðhalda þjóðlegum verðmætum. Sambandið fór árið 1929 að huga að undirbúningi fyrir stofnun húsmæðraskóla á Suðurlandi. Húsmæðraskóli Suðurlands tók síðan formlega til starfa í Lindinni á Laugarvatni árið 1943. Fram að þeim tíma hafði sambandið gengist fyrir námskeiðum og útvegað leiðbeinendur um tóvinnu, hagnýtan fatasaum og garðrækt út í sveitirnar. Markmiðið var að engin ull færi óunnin vestur yfir Hellisheiði. Einnig beittu þær sér fyrir stofnun ullarþvottastöðvar og keyptar voru spunavélar, prjónavélar og vefstólar. Jafnframt var hvatt til handavinnukennslu í öllum barnaskólum og að kennarar hlytu menntun sem slíkir,“ segir Elinborg. Stjórnmál og trúmál bönnuð Sambandið beitti sér líka fyrir stofnun sjúkrahúss á Suðurlandi. Konur höfðu fram að þeim tíma hjúkrað gamalmennum og veikburða á heimilum sínum. Hjálparstúlkur á vegum SSK ferðuðust um héraðið til aðstoðar við umönnun bágstaddra. Sjúkrahúsið tók til starfa árið 1958 og var staðsett í bústað héraðslæknisins á Selfossi. Meira að segja saumuðu kvenfélagskonur í árdaga fatnað, sængurföt og gluggatjöld til nota á sjúkrahúsinu. Sjúkrahússjóður SSK var stofnaður árið 1952 og síðan þá hefur sambandið styrkt kaup á tækjum og áhöldum til þess. Deilur um stjórnmál og trúmál hafa ætíð verið óleyfilegar á sambandsfundum.“ – Hvernig hafa samtökin þróast og dafnað í öll þessi ár? „Innan Samtaka sunnlenskra kvenna eru í dag samtals 25 kvenfélög í Árnes- og Rangárvallasýslu. Samkvæmt síðustu ársskýrslum kvenfélaganna eru í þeim samtals 935 konur á öllum aldri. Við í stjórn SSK áttum okkur þann draum að þær yrðu orðnar 1000 á afmælisárinu en það náðist ekki alveg. Öll vinna félagskvenna er innt af hendi sjálfboðin. Á síðasta ári má áætla að konur innan SSK hafi lagt til samfélagsins að lágmarki 15.000 vinnustundir, eða 1.875 dagsverk. Hvert kvenfélag leggur metnað sinn í að sinna vel nærsamfélagi sínu með ýmsum gjöfum. Á síðasta ári gáfu kvenfélögin gjafir fyrir samtals 14.507.000 kr. Þessa fjár afla kvenfélagskonurnar á ýmsan hátt, sum þeirra sjá um erfidrykkjur, halda basara, bingó og tombólur, vinna í veislum, sjá um þorrablót, jólaskemmtanir, selja réttarsúpu, sumarblóm, leigja út sumarhús o.fl.“ SSK hefur þroskast vel Elinborg segir að kvenfélagskonur geri sér líka glaðan dag til að rækta andann og huga með því að innra starfi félagsins. „Já, þar má nefna ýmiss konar námskeið, föndur- og tómstundakvöld, gönguferðir, leikhúsferðir, ferðalög innanlands og utan, óvissuferðir, útplöntun trjáa og blóma o.fl. Samtök sunnlenskra kvenna hafa þroskast vel í tímans rás, eins og sjá má á fjölbreytni í starfsemi kvenfélaganna. Sum áhersluatriði í starfsemi þeirra hafa breyst en hugsunin um að láta ætíð gott af sér leiða fyrir samfélagið er svo sannarlega enn í fullu gildi. Því má segja að þótt samtökin fagni nú 90 ára afmæli sínu þá er það síungt því það er svo lifandi og fjölbreytt starf í öllum kvenfélögunum.“ Hver er tilgangur og markmið samtakanna? „Tilgangur Sambands sunnlenskra kvenna er enn í dag að sameina krafta aðildarfélaganna, efla tengslanet kvenna o.fl. Það er gert með því að efla félagsskap og samvinnu kvenna á sambandssvæðinu, vinna saman að hvers konar þjóðnytja- og menningarmálum og virkja aðildarfélögin til samstarfsverkefna á sviði félags-, menningar- og líknarmála. Jafnframt er stuðlað að jafnrétti kynjanna. Einnig er SSK aðili að Kvenfélagasambandi Íslands (KÍ) sem er málsvari og samráðsvettvangur kvenna um allt land og er í samstarfi við Kvennasamband Norðurlanda (NKF) og Alþjóðasamband kvenna í dreifbýli (ACWW). – Það er mikil kvenfélagsmenning á Suðurlandi, kanntu að skýra það út? „Kvenfélögin hafa þróast í tímans rás en hvert og eitt þeirra heldur samt áfram í upprunaleg gildi sem eru að styðja við þá sem þurfa mest á stuðningi að halda og hlúa að menningarmálum. Ekkert gerist af sjálfu sér og líklegt er að stofnun kvenfélaga í öllum hreppum og bæjarfélögum á sínum tíma hafi átt mikilvægan þátt í bættu umhverfi og þeim lífsgæðum sem við njótum í dag og teljum jafnvel sem sjálfsagðan hlut.“ Bera höfuðið hátt Elinborg segir að fræðsla og samtakamáttur kvenna í kven- félögunum og gjafir þeirra til nærsamfélagsins sem og á landsvísu hafi ábyggilega verið mörgum konum hvatning til þess að ganga til liðs við félögin og leggja málefnum þeirra lið ásamt því að fá tækifæri til að kynnast um leið mörgum skemmtilegum konum. „Það er gefandi að geta stutt við uppbyggileg mál í þágu samfélagsins og konur ná frekar eyrum ráðamanna ef þær standa þétt saman. Kvenfélagskonur þurfa að bera höfuðið hátt og vera stoltar af framlögum sínum til samfélagsins.“ – Hvernig gengur að fá ungu konurnar inn í félögin og hvernig eru þær að koma út? „Innan hvers kvenfélags er aldursdreifing kvennanna mjög misjöfn. Stundum heyrist talað um að kvenfélögin séu bara fyrir gamlar konur og að þar sé alltaf verið að baka. Þetta er bara vitleysa. Vissulega eru konur stundum að baka og sumar eru snillingar í bakstri en þá eru þær að „Baka betra samfélag“ því að með bakstrinum eru þær að afla fjár til að geta gefið til samfélagsins. Aðrar konur eru snillingar í einhverju öðru og þá fá þær að njóta þeirra hæfileika sinna. Svo er það líka svo að „Ungur nemur gamall temur“. Eldri konurnar í kvenfélögunum leiðbeina oft þeim yngri um ýmislegt sem mörgum þykir gott að kunna, s.s. eins og að baka pönnukökur, steikja kleinur o.fl. Ungu konurnar eru virkilega kraftmiklar í sumum kvenfélögum og setja sinn svip á félagsstarfið.“ Myndir / Magnús Hlynur Hreiðarsson.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.