Bændablaðið - 13.12.2018, Page 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 13. desember 20186
Nú þegar skammt er til jóla og áramóta er
siður að rifja upp það sem hæst hefur borið
á árinu sem er að líða. Það er sannarlega
margt sem gengið hefur á í íslenskum
landbúnaði á árinu 2018. Það hafa verið
erfiðleikar víða og sést ekki fyrir enda
sumra þeirra eins og í sauðfjárrækt og
loðdýrarækt.
Afurðaverð í báðum þessum greinum hefur
verið í lágmarki síðustu árin og reksturinn
neikvæður. Langt er síðan að teknar voru
upp viðræður við stjórnvöld um stöðuna en
enn sem komið er hefur þeim ekki lokið með
ásættanlegri niðurstöðu en samtalið heldur
áfram.
Sótt að innlendri framleiðslu
Það hefur verið sótt að innlendri framleiðslu og
líkur eru á að svo verði áfram. Tollasamningur
við Evrópusambandið tók gildi 1. maí sl. og
um næstu áramót og næstu tvenn þar á eftir
eykst tollfrjáls innflutningur hingað verulega,
á sama tíma og sterk króna og lokaðir markaðir
hafa gert okkur erfitt fyrir með útflutning.
Hagsmunabarátta heildsalanna í landinu gekk
áfram vel á árinu. Eftir að hafa unnið mál fyrir
EFTA-dómstólnum þá höfðu þeir einnig sigur
fyrir Hæstarétti til að fá hnekkt takmörkunum
á innflutningi á ófrosnu kjöti, ógerilsneyddri
mjólk og ógerilsneyddum eggjum. Rök um
búfjár eða lýðheilsu voru þar að engu höfð því
að markaðurinn er öllum slíkum staðreyndum
æðri.
Bændur hafa lagt á það áherslu að leitað
verði pólitískra lausna til að standa vörð
um þá sérstöðu sem felst í okkar viðkvæmu
búfjárstofnum og okkar framleiðsluháttum
sem felast í lágri tíðni sýkinga og lítilli
sýklalyfja og varnarefnanotkun. Það er óljóst
hvernig sú vegferð endar en miklu skiptir líka
að greina betur á milli innlendrar og innfluttrar
framleiðslu á markaði.
Neytendur eru velviljaðir landbúnaði
Neytendur eru velviljaðir íslenskum
landbúnaði en þá verður líka að tryggja það
að þeir geti fengið að vita hvað þeir eru að
kaupa hverju sinni. Þá er ekki bara verið
að tala um í stórmörkuðum heldur líka þar
sem matvæli eru fram borin – til dæmis á
veitingahúsum og í mötuneytum. Ástæða
er til að hvetja neytendur til að spyrja eftir
upprunanum sé hann ekki gefinn upp. Það
er einfaldlega sjálfsögð krafa að þessar
upplýsingar liggi fyrir. Stjórnvöld geta þarna
stigið fastar fram og lagt þá kröfu á seljendur
matvæla að uppruninn liggi ávallt fyrir. Það
er líka umhugsunarefni fyrir stjórnvöld
hvort ekki sé eðlilegt að hið opinbera setji
sér innkaupastefnu sem miðist við ákveðna
framleiðsluhætti. Sé ekki hægt að upplýsa um
þá ætti hið opinbera í það minnsta að ganga
á undan með góðu fordæmi og takmarka
innkaup við afurðir þar sem upplýsingar
liggja fyrir um lyfja- og varnarefnanotkun,
kolefnisfótspor, velferð dýra, aðbúnað
starfsfólks og annað sem skiptir máli. Krafa
neytenda um meiri upplýsingar fer vaxandi og
við eigum að vinna að því að upplýsingagjöf
verði hin almenna regla.
Þurfum að huga að fæðuöryggi
Það þarf líka stærri sýn á landbúnaðinn í heild.
Það er meiri óróleiki í veröldinni, þó hér sé ekki
verið að spá neinum ófriði þá virðist stundum
ekki mega mikið út af bregða. Öfgasjónarmið
njóta meira fylgis en áður en lausnamiðaðar
málamiðlanir síður. Athyglin næst helst
með nógu miklum og stórum upphrópunum.
Þjóðir heims þurfa um leið að takast á við
afleiðingar loftslagsbreytinga og sumir neita
enn að horfast í augu við þær. Hvað þýðir þetta
allt? Jú, það er skynsamlegt að huga að öryggi
þjóðarinnar í víðum skilningi, þar með talið
fæðuöryggi. Það er ekki endilega víst að við
getum alltaf keypt allt sem við viljum erlendis
frá og ættum við ekki að minnsta kosti að
hugsa um hvað við ætlum að gera ef einhver
slík vandamál koma upp. Reyndar hafa sumir
einmitt bent á hlutverk landbúnaðarins í
þjóðaröryggismálum. Það gerði til dæmis
Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti landsins,
á ráðstefnu um fullveldi og þjóðaröryggi
fyrir skemmstu. Það hefur forsætisráðherra
líka gert og reyndar er vikið að fæðu- og
matvælaöryggi í þjóðaröryggisstefnu landsins
sem samþykkt var á Alþingi fyrir rúmum
tveimur árum. Það er eitt skref en það á
enn eftir að útfæra þá stefnu. Það má ekki
gleymast.
Bændur eru fjölmennasti hópur
vörslumanna landsins
Fyrir nokkrum dögum skrifuðum við
umhverfisráðherra undir sameiginlega
yfirlýsingu um samstarf í náttúrverndarmálum.
Meiningin er fyrst að láta greina hvernig
bændur geta komið meira að skipulegu
náttúruverndarstarfi. Bændur eru vissulega
fjölmennasti hópur vörslumanna landsins
og búa yfir mikilli og verðmætri þekkingu
á náttúrunni og öllum hennar síbreytileika.
Það hefur stundum verið ágreiningur um
þessi mál – sumir verndunarsinnar hafa talið
að náttúruvernd og nýting gætu aldrei farið
saman og sumir bændur hafa talið að verndun
þýddi algert nýtingarbann. Hvorugt er rétt og
með þessari yfirlýsingu er ætlunin að leita
fleiri sameiginlegra flata á þessu mikilvæga
máli. Ég vænti þess að vel takist til.
Að lokum þakka ég lesendum Bænda-
blaðsins samfylgdina á árinu og óska ykkur
öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsæls
komandi árs. Árið 2019 þurfum við að nýta
vel til uppbyggingar og eflingar íslensks
landbúnaðar. Lifið heil.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.500 með vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara kostar 5.250 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í
loftslagsmálum er mikil áhersla lögð
á að hækka kolefnisskatt. Virðist
tilgangurinn helst vera að neyða
kaupendur bifreiða til að snúa sér frekar
að rafmagnsbílum heldur en að kaupa
hefðbundna bíla sem brenna bensíni og
dísilolíu. Í sjálfu sér er ekkert út á það
ætlunarverk að setja að menn dragi úr
loftmengun, en er stjórnmálamönnum
algjörlega fyrirmunað að beita annarri
hugsun en refsingum til að knýja fram
slík sjónarmið?
Það er hægt að fara mun áhrifaríkari
leiðir til þess bæði að draga úr útblæstri
gróðurhúsalofttegunda og stórbæta
þjóðarhag um leið. Leið sem yrði öllum
til góðs, en skaðaði ekki stóran hóp fólks
eins og kolefnisskatturinn gerir gagnvart
lántakendum, barnafólki, öryrkjum og
öldruðum sem og íbúum landsbyggðarinnar.
Þótt áherslan á kolefnisskattinn sé mjög
áberandi í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar
í loftslagsmálum, þá er þessi áætlun á
margan hátt ágæt. Þar er sérstaklega einn
þáttur sem gæti skapað mikla þjóðhagslega
hagkvæmni ef rétt er að staðið. Hann er
númer níu í aðgerðarplani áætlunarinnar og
ber heitið: „Innlend eldsneytisframleiðsla
úr plöntum og úrgangi.“ Samkvæmt planinu
á að setja í gang vinnu við áætlunargerð í
því máli einhvern tíma á árinu 2019.
Ef litið er nánar á möguleikana sem
felast í innlendri eldsneytisframleiðslu,
þá er kannski ekki endilega þörf á að
skipa fjölda nefnda til að ræða það mál og
kosta til þess stórfé. Þegar um er að ræða
eldsneytisgerð úr innlendum lífmassa og
úrgangi, þá kemur aðallega tvennt upp í
hugann. Það er framleiðsla á því sem nefnt
hefur verið lífdísilolía, m.a. úr repju og
öðrum olíuríkum jurtum, og gasframleiðsla
úr dýraúrgangi eins og mykju og með
gerjun plantna. Það er reyndar til þriðja
leiðin sem yrði líka kolefnishlutlaus, en
það er að framleiða dísilolíu, bensín og
flugvélaeldsneyti úr mó sem nóg er til af á
Íslandi og vetni sem auðvelt er að framleiða
hér með vistvænum hætti.
Með því að virkja níundu greinina
í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í
loftslagsmálum væri hægt að slá margar
flugur í einu höggi og tryggja um leið
orkusjálfbærni landsins.
Í fyrsta lagi væri hægt að kolefnisjafna
eldsneytisbruna í landbúnaði samhliða því
að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Í öðru lagi myndi slík framleiðsla styrkja
byggðir og gera landbúnað sjálfbærari.
Í þriðja lagi væri hægt að draga hratt úr
innflutningi á jarðefnaeldsneyti sem ylli
verulegum virðisauka t.d. í landbúnaði og
væri um leið atvinnuskapandi.
Í fjórða lagi sparaði innlend framleiðsla
á eldsneyti dýrmæt gjaldeyrisútlát og bættu
þar með þjóðarhag verulega.
Það eina sem þarf er framkvæmdaáætlun
þar sem ríkið býr til hvata til að hrinda
slíkum verkefnum af stað af krafti og
með góðum stuðningi. – Það sem þarf
EKKI er að draga úr sjálfsbjargarviðleitni
Íslendinga með refsisköttum í formi
kolefnisgjalds. Popúlískar innfluttar
skyndilausnahugmyndir af þeim toga eru
fátt annað en sýndarmennska og friðþæging
fyrir stjórnmálamenn sem eru uppteknari
af að bjarga heiminum en að sinna þörfum
eigin þegna sem kusu þá til starfa.
Að svo mæltu óska ég lesendum
Bændablaðsins og landsmönnum öllum
gleðilegra jóla með þakklæti fyrir árið
sem er að líða. Ég óska þess einnig að
árið 2019 færi Íslendingum gæfu og aukið
réttlæti, ekki síst til handa öldruðum,
öryrkjum og þeim sem neðst standa í
þjóðfélagsstiganum.
Hörður Kristjánsson
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson
smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – augl@bondi.is Vefur blaðsins:
www.bbl.is bbl@bondi.is
– Teikning á forsíðu: Þorsteinn Davíðsson
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Sindri Sigurgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
sindri@bondi.is
Hnífsdalur við Ísafjarðardjúp á milli Skutulsfjarðar og Bolungarvíkur. Þessi mynd var tekin eftir mikla ofankomu í mars árið 1995. Í dag er myndin
Mynd / HKr.
Orkusjálfbærni Nýtum 2019 til eflingar íslensks landbúnaðar