Bændablaðið - 13.12.2018, Side 53

Bændablaðið - 13.12.2018, Side 53
Bændablaðið | Fimmtudagur 13. desember 2018 53 mánuðum. Þarna er um að ræða 880 fermetra byggingu, þar af er flugskýlið 540 fermetrar. Síðan er 220 fermetra farþegaafgreiðsla og snyrtingar og 120 fermetra skrifstofuhæð þar fyrir ofan. Við fluttum þarna inn um miðjan nóvember síðastliðinn og opnuðum þá afgreiðslu fyrir okkar viðskiptavini. Nú erum við að flytja verkstæðið austur. Við fengum innri úttekt í lok nóvember og nú eru flugmálayfirvöld að ljúka við að taka út aðstöðuna.“ Jón segir að markaðssetningin hafi frá upphafi verið í þeirra eigin höndum. Fyrst með uppsetningu á skilti upp við veg og dreifingu bæklinga til ferðamanna, en nú síðari ár á netinu. „Síðustu fjögur árin hefur orðið stöðug aukning í fyrirframbókunum í gegnum starfsmenn okkar í markaðssetningu og sölumálum. Svo er þetta að breytast enn frekar með auknu samstarfi við aðra aðila í ferðaþjónustu.“ Með þrjár flugvélar og líka komin með þyrlu „Við erum með eina tveggja farþega vél og tvær aðrar sem taka sjö og níu farþega hvor. Svo erum við með eina öfluga eins hreyfils vél sem tekur fimm farþega, en hún er mest notuð og hentar m.a. vel fyrir ljósmyndara. Nú erum við líka að hefja rekstur á þyrlu sem tekur fimm farþega og ekki hefur verið áður á þessu svæði. Þyrlan kom til okkar í lok nóvember, en þetta er alveg nýtt í okkar starfsemi og munum við bjóða upp á ýmsar nýjungar tengt þessu þyrluflugi. Þyrlur skapa okkur breiðari grunn og hægt er að fljúga þeim við aðrar aðstæður en venjulegum flugvélum.“ Hann segir að allt viðhald á flugvélum og þyrlu sé einnig í þeirra höndum, en það getur verið stór póstur í svona rekstri. Þá segir Jón að lítill greinarmunur sé auk þess gerður í regluverkinu og skriffinnskuskyldum á rekstri lítilla félaga eins og Atlantsflugi og risaflugfélaga á borð við SAS, KLM eða British Airways. „Við erum með sama doðrantinn til að fara eftir og sömu reglurnar.“ Frábær vitnisburður flugfarþega Boðið er upp á mismunandi verð samkvæmt gjaldskrá í samræmi við fjölbreytt leiðaval í útsýnisfluginu. „Við höfum reyndar alltaf lagt áherslu á að við erum ekki að selja ferðir heldur upplifun. Besti vitnisburðurinn um það er það sem fólk skrifar á ferðasíðu eins og Trip Advisor.“ Af handahófi veljum við umsögn Andy Mumford frá Lissabon í Portúgal sem skrifaði m.a. eftirfarandi á Trip Advisor 2. september síðastliðinn: „Ég flaug með Atlantsflugi í júlí sem leiðsögumaður fyrir ljósmyndaravinnuhóp til Íslands. Mín upplifun var stórkostleg. Í gegnum e-mail samskipti reyndust þau sérlega hjálpleg við að skipuleggja flug yfir ár og hálendið. Svo þegar flogið var reyndist flugmaðurinn hafa einstaklega mikla þekkingu á svæðinu. Flaug hann varlega með okkur þvers og kruss eftir leiðinni sem ákveðin var til að tryggja að fólkið beggja vegna í vélinni fengi gott útsýni og missti ekki af neinu. Flugið var frábært og útsýnið algjörlega ótrúlegt svo maður stóð á öndinni yfir fjölbreytileikanum í landslaginu. Ég fer þangað aftur á næsta ári og mun örugglega fara í annað flug með Atlantsflugi.“ Miklir möguleikar í mikilfenglegri náttúru „Við sjáum í þessu mikla möguleika enda eru að koma um ein milljón ferðamanna í Skaftafell á hverju ári. Þá hefur staðurinn gríðarlega sérstöðu með mikilfenglega náttúru í návist við fjölda eldfjalla,“ segir Jón. Talandi um eldfjöll, eru þau að hafa áhrif á ykkar starfsemi eins og t.d. vegna hugsanlegs eldgoss í Öræfajökli? „Já, við erum inni í rýmingar- áætlun almannavarna, en þar erum við rétt utan við hugsanlegt flóðaáhrifasvæði ef til eldgoss kemur. Hins vegar veit enginn hvar mögulegt gos gæti komið upp, það eru fleiri þekkt eldfjöll nær okkur á svæðinu en Öræfajökull, eins og megineldstöðin í Kjós í Morsárdal. Svo er stutt í Grímsvötn og Lakagíga svo eitthvað sé nefnt.“ Mögulegt gos í Öræfajökli farið að vekja athygli útlendinga Jón segir að áhyggjur vísindamanna af Öræfajökli og stöðugir skjálftar og landris hafi vakið athygli m.a. út fyrir landsteinana. „Við fórum ekki að taka eftir þessu fyrr en um vorið 2017 og það þótti mjög óvenjulegt og skjálftavirknin er enn til staðar. Þetta er farið að vekja athygli erlendis, við vorum með fólk frá þýskri sjónvarpsstöð uppi á Öræfajökli sunnudaginn 2. desember, en þau eru að vinna umfjöllun um eldstöðina. Við höldum eins og aðrir á svæðinu samt bara okkar striki. Það getur allt eins verið að þessi virkni stöðvist, en það veit enginn með vissu hvað þarna kann að gerast. Svo höfum við verið að fylgjast mjög náið með því sem er að gerast í Grímsvötnum, svo eru Esjufjöll, Kverkfjöll, Bárðarbunga, Askja og Lakagígar.“ Undanfarin ár hafa menn mjög horft á auglýsingagildi eldgosa á Íslandi. Þar varð gosið í Eyjafjallajökli heimsfrægt á svipstundu, enda lokaði það flugumferð um tíma í allri Evrópu. Er þá ekki nærtækast að líta svo á að næsta gos hafi bara enn betri áhrif á ferðamannþjónustuna? „Ég veit það nú ekki. Ég læt mér nægja að vísa í orð jarðfræðingsins Þorsteins Sæmundssonar sem sagði við mig í vor, þegar við vorum að fljúga með hann upp á Svínafellsheiði, að við Íslendingar værum búnir að vera heppnir með ansi margt sem tengist eldsumbrotum á síðustu árum. Hann vildi meina að mikið lán hafi verið á okkur varðandi það hvar hafi gosið, á hvaða tímum og hvað við höfum fengið hagstæðar vindáttir. Þetta er ekki sjálfgefið,“ segir Jón. Flugskýlið mun verja flugvélaflotann Hann segir fólk á þessu svæði taka þessu með ró og það ætli þau líka að gera. Hins vegar sé ein af ástæðum fyrir byggingu flugskýlisins ekki síst sú að þannig geti þau varið flugvélarnar fyrir ösku jafnt sem veðri ef til eldgoss kæmi einhvers staðar í nágrenninu. Lognið í Skaftafelli gerði þenslumæli óvirkan „Annars er mjög oft logn þarna í skjóli jökulsins og veðrið getur verið jafn gott og það getur verið slæmt þegar mikið blæs,“ segir Jón. Nefndi hann til staðfestingar á sögu sinni um lognið að á dögunum hafi þau flogið upp Svínafellsheiði vegna sjálfvirks þenslumælis Veðurstofu Íslands sem þar er staðsettur og sem var hættur að virka. Voru menn helst á því að hann hefði fokið út í veður og vind. Búnaðurinn var hins vegar á sínum stað og föstudaginn 30. nóvember fóru aftur að berast merki frá mælinum. Þá kom í ljós að það hafði verið svo mikið logn á heiðinni um nokkurn tíma að vindrafstöð snerist ekki til að hlaða inn á rafhlöður. Þá var líka of dimmt til að sólarrafhlöður dygðu til að framleiða nægt rafmagn. Þetta hefur verið fært til bókar í sveitinni til sannindamerkis um lognið á svæðinu. Stuttu seinna kom reyndar hvellur með allt að 70 metra vindi á sekúndu á flugvellinum /HKr.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.