Bændablaðið - 09.05.2018, Síða 39

Bændablaðið - 09.05.2018, Síða 39
39Bændablaðið | Miðvikudagur 9. maí 2018 þar væri mikið um að vera því Elín, nýja húsmóðirin mín, var að sjóða hval í þvottapottinum sem kyntur var með mó. Á þessum árum fór hvalbíll frá Hvalstöðinni í Hvalfirði um héruð og seldi bændum hval. Hvalbíllinn hafði farið um daginn áður en ég kom. Ég gleymi aldrei fýlunni af hvalsuðunni, hélt að svona yrði lyktin alltaf í bænum. Samskiptin við mömmu og pabba voru bréfleiðis. Ég skrifaði tvö til þrjú bréf yfir sumarið og fékk senda pakka með smá sælgæti, stundum ávöxtum, og teiknimyndablöðum, ásamt bréfi. Aldrei var hringt, enda rándýrt, nema þegar leið að hausti og verið var að skipuleggja ferð til að sækja mig í sveitina, sem var heilmikið ferðalag. Pabbi átti ekki bíl en fékk lánaða bíla hjá vinum sínum. Oftast var það bíll sem Guðmundur Jónasson rútubílstjóri átti, en þeir voru ævivinir. Vinnuframlag Þar sem ég var eina barnið á bænum var ekki um neina verkaskiptingu að ræða. Öll störfin voru jafngild hvað mig varðaði. Hins vegar var verkaskipting milli hjónanna skýr. Jóhannes tók engan þátt í innanhússverkum og fór aldrei í fjósið. Elín vann og stjórnaði öllu innanstokks og vann sum verk utanhúss, tók í hrífu þegar heyannir voru mestar, mjólkaði nær alltaf og tók þátt í dúnhreinsuninni. Hún vann aldrei verk utan heimatúnsins. Bergur gekk hins vegar í flest verk foreldra sinna. Ég vaknaði venjulega um svipað leyti og annað heimafólk, man ekki til þess að ég væri vakinn, líklega var ég frekar morgunsprækur. Ég get ekki sagt að mér fyndist ég þurfa að vinna mikið, þótti yfirleitt gaman að taka þátt í verkunum með öðru heimilisfólki eftir því sem getan leyfði. Ég minnist þess ekki að hafa þurft að vinna meira en góðu hófi gegndi. Mitt fyrsta verk var að reka kýrnar á morgnana eftir mjaltir. Ég þurfti aldrei að sækja þær á morgnana þær voru alltaf við túnhliðið og þar voru þær mjólkaðar nema veður væri mjög vont. Kúahjörðin var ekki stór. Forustukýrin Hryggja gamla og Svört ásamt kvígunum Lukku og Ljómalind, einum veturgömlum tudda og tveim kálfum. Kúareksturinn var alltaf mjög auðveldur því Hryggja gamla, sem stjórnaði hjörðinni, var oftast á leiðinni eða komin heim til að láta mjólka sig á réttum tíma á kvöldin. Eftir að Hryggju var lógað tók Ljómalind við forustunni. Kúasvipa fylgdi kúrekaembættinu. Bergur tálgaði til bút úr hrífuskafti, skar í hann fangamarkið mitt og á fremri endann var borað gat og í það bund- inn reipisspotti. Með svipunni var hægt að gera hvin til að hvetja kýrnar áfram. Einnig var mér kennt að nota skaftið til að ýta á síðuna á kúnum og þá beygðu þær í þá átt sem kúa- smalinn vildi. Kýrnar voru aldrei barðar með svipunni, enda voru þær vinkonur mínar og söng ég oft fyrir þær. Einnig var mér trúað fyrir því ábyrgðarmikla verkefni að þvo skilvinduna á morgnana, en því hafði öðrum krökkum á mínum aldri ekki verið trúað fyrir og þótti mér það mikill heiður og vandaði mig mjög við uppvaskið. Meðan á uppvaskinu stóð söng ég stundum nýjustu dægurlögin, en textarnir voru oft birtir í Tímanum og lærði ég þá þar. Ég kann þá flesta ennþá. Ég hafði það einnig til siðs að hella smá kaffitári í rjómahólf skilvindunnar og drekka rjómablandið. Stundum fékk ég að skilja mjólkina, en til þess þurfti maður að geta haldið réttum hraða á snúningnum, sem gat verið vandasamt. Smjör var strokkað við og við. Ég fékk að prófa að strokka síðasta sumarið mitt, en það þótti of þungt verk fyrir krakka. Stundum dældi ég vatni úr heimabrunninum í stóra vatnstunnu sem hékk hátt uppi í þvottahúsinu. Skemmtilegt var þegar kaffibaun- ir voru brenndar. Þá ilmaði bærinn og síðan var ég stundum látinn mala nýbrenndar baunirnar í lítill handkvörn, sem gat verið erfitt fyrir litlar hendur. Til að drýgja kaffið var ávallt notaður kaffibætir, svo- kallað export, hálf tafla í hverja uppáhellingu. Einnig tilheyrði að sópa eldhúsgólfið og ganginn út á hlað við og við, en það gerðu Ella og Bergur líka. Ég hafði eitt hlutverk sem mér finnst í dag allmerkilegt, þó ég færi létt með það. Ég var notaður sem minnisvél, einkum af Ellu. Hún sagði oft: „Kristbjörn minn, minntu mig nú á að brenna kaffibaunir eftir hádegi á morgun“, eða „... að hringja í Lóu systur á laugardaginn“, eða „... sækja saltkjöt eða fisk til útvötnunar seinna í dag“. Þegar heimalningar voru eða ungir kálfar sá ég um að gefa þeim nýmjólk og eldri kálfum eða vetr- ungum færði ég stundum kálfsullið, sem var sambland af kaffikorgi, brauðleifum og síldarmjöli með lýsi út á. Stundum gaf ég fjóskettinum mjólk og fisk sem sett var í fjós- gluggann. Hvorki hundar né kettir fengu að vera inni í bæ, enda var hlutverk þeirra annað og meira en að vera gæludýr. Ég gaf hænun- um oft, þótti það mjög gaman, og safnaði eggjunum. Stundum var ég látinn hakka þang í gamalli hakka- vél sem var á borði utan við gamla bæinn og blanda við það mjöli til að gefa hænunum. Þangið þótti gera eggjarauðuna rauðari. Öll hænuegg voru seld út í Stykkishólm. Heima voru einungis etin æðaregg, kríuegg og svartbaksegg. Um sláttinn var ég oft sendur heim í bæ til að sækja drukk fyrir sláttumennina, en það var mysan oft kölluð, sem er afbragðsgóð til að slökkva þorsta ásamt því að vera næringarrík. Ef mysan var búin að standa lengi í kerinu og farin að súrna var hún þynnt með vatni. Á seinni árum mínum tók ég virkan þátt í dúntekjunni. Ég fór þá með Bergi og tíndi dún í Efri - Langey, einkum þegar farin var hroðaleitin, sem var seinni leitin eftir að allar kollurnar höfðu leitt út, þ.e. yfirgefið hreiðrið og komið ungunum til sjávar. Jóhannes sá um varpið í Langeyjarnesi en ég fór aldrei með honum í það [...]. Mér finnst merkilegt, þegar ég lít til baka, hversu vel var hugsað um öryggi mitt á bænum, þó ég áttaði mig ekki á því þá. Ég fékk aldrei að fara með á minkaveiðar, en þar voru notuð skotvopn, og ég fékk aldrei að skjóta af byssu. Ég fékk ekki að slá með orfi og ljá, nema aðeins að prófa undir eftirliti þegar ég var á tólfta ári. Ég fékk heldur ekki að fara með þegar vitjað var um selanet. Ég fór heldur aldrei einn að sækja vatn í brunninn. Þá var ég aldrei sendur einn út í Efri- Langey, þó að ég rataði leiðina vel, en þangað var hægt að ganga á fjöru. Ástæðan var sú að þegar byrjaði að falla að varð straumurinn í Pokarifi eða Þröskuldunum sterkur og vaðið dýpkaði fljótt. Búskaparhættir Búskaparhættir voru að mestu leyti eins og þeir voru stundaðir á 19. öld og á fyrri hluta 20. aldar. Heimatúnið var lítið og mishæðótt. Búið var að slétta það mestallt, en skákirnar voru fremur litlar og sumar varla véltækar. Allar skákirnar höfðu sitt nafn. Dæmi: Hlaðvarpinn, Sjónarhóll, Hesthúsbali og Fjárhúsflöt. Hluti túnsins var í lægðum þar sem hafði verið mýri og var hún ræst fram með handgröfnum skurðum, sem bæði voru mjóir og grunnir, en dugðu þó. Snemmsumars skartaði hófsóleyin gulum blómum í sumum skurðanna, en hvítur kollur klófífunnar gladdi augað í ágúst. Á vorin, oftast áður en ég kom vestur, var borinn kúaskítur og stundum sauðatað á hluta túnsins, einkum harðbala, t.d. við Bæjarhólinn. Ég man að eitt vorið sáum við Elín um að raka skítinn af túninu, eftir að það hafði verið slóðadregið. Ekki þótti gott að láta skít blandast við heyið. Þetta var kalt vor og við kappklædd við verkið, en karlarnir voru að veiða mink og nutu aðstoðar hundsins Hjeppa. Fyrsta sumarið mitt var engin dráttarvél á bænum. Þá fékk Jóhannes Gest á Ormsstöðum eða Ólaf Kristjánsson, bónda á Melum, sem var næsti bær, til að slá það sem véltækt var af túninu. Annað var slegið með orfi. Ólafur á Melum, en hann var mágur Elínar, brá búi haustið 1961 og þá keypti Jóhannes gráa Fergusoninn af honum og dráttavélaöldin hóf innreið sína í Langeyjarnes. Bergur sá alveg um traktorinn. Jóhannes kom aldrei nálægt honum. Jóhannes bar hins vegar ábyrgð á ljósavélinni og mátti enginn annar þar nálægt koma. Ljósavélarskúrinn var ávallt læstur og geymdi húsbóndinn lykilinn. Jóhannes sló með orfi mest af heimatúninu sem ekki var véltækt, en Bergur sló allt túnið í Efri- Langey einn, með orfi, enda ekki hægt að koma dráttarvél út í eyjuna. Fyrsti sláttur var alltaf á flötinni milli bæjarhlaðsins og sjávar. Reynt var að byrja slátt þegar von var á þurrki og ég held að reynt hafi verið að byrja hann á laugardegi til lukku. Síðan var nýslegnu grasinu dreift úr sláttumúgunum og búnir til flekkir. Töðunni var síðan snúið og flekkurinn rifjaður með hrífum. Þurrt heyið var síðan tekið saman. Það var saxað í fang og borið upp í litla galta. Hæra úr striga, eða gömlum strigapokum, var sett á topp galtanna. Í horn hærunnar var bundið snæri og á festir steinar til að koma í veg fyrir að hæran fyki. Galtarnir voru látnir standa nokkurn tíma á túninu, til að síga og þéttast, en þegar færi gafst var kaðall lagður kringum galtann og dráttarvél dró hann heim í fjóshlöðu. Heyið úr Efri-Langey var bundið í sátur. Notuð voru hefðbundin reipi, annaðhvort úr kaðli eða hrosshárum, ásamt töglum og högldum. Síðsumars voru sáturnar fluttar heim með bátum og heyið sett í fjárhúshlöðuna, en fjárhúsin voru nálægt lendingunni. Oft var há slegin á hluta heimatúnsins eftir miðjan ágúst. Þá var stundum farið og slegið brok (klófífa) og gulstör í Grafarflóa. Útheyið var sett ofan á góðu töðuna í fjóshlöðunni til hlífðar. Elín Elimundardóttir mjólkar Ljómalind utan við túnhliðið í Lang eyjarnesi í ágúst 1965. Kýrin gæðir sér á fóðurbæti. Elín við mjaltirnar: mjaltapilsi og mjaltatreyju, og ber skuplu. Mynd / Egill Kristbjörnsson, Elín Elimundardóttir mjólkar Ljómalind utan við túnhliðið í Langeyjarnesi í ágúst 1960. Mynd / Egill Kristbjörnsson, Jóhannes Jónsson brýnir vasahníf framan við Hvíta húsið í Efri-Langey í ágúst 1965. Mynd / Egill Kristbjörnsson Elín Elimundardóttir í sínu fínasta pússi á bæjarhólnum í Langeyjarnesi í ágúst 1959. Gamli bærinn í baksýn. Mynd /Kristbjörn Egilsson Flekkur rifjaður framan við gamla bæinn í Langeyjarnesi í ágúst 1969. Frá vinstri Kristbjörn Egilsson, Sara Krist- jánsdóttir, Ingigerður Jónsdóttir, Logi Egilsson og Jóhannes Jónsson bóndi. Spýtt selskinn er á bæjarþili. Gamalt refabúr er við bæjarvegginn t.h. Mynd / Egill Kristbjörnsson Feðgarnir Bergur og Jóhannes slá há í Langeyjarnesi í ágúst 1969. Fjár- húshlöðuþakið ber við himin. Jóhannes klæðist vaðmálsbuxum, þæfðri lopapeysu og er með „hreppstjórahúfu“. Bergur er í vinnuslopp. Mynd / Egill Kristbjörnsson Kristbjörn Egilsson (11 ára) með Hryggju gömlu í Langeyjarnesi í ágúst 1960. Ljómalind var undan Hryggju. Klofningsfjall og Hnúkur í baksýn. Mynd / Egill Kristbjörnsson, Mynd /Kristbjörn Egilsson

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.