Bændablaðið - 31.01.2019, Qupperneq 22

Bændablaðið - 31.01.2019, Qupperneq 22
Bændablaðið | Fimmtudagur 31. janúar 201922 Minnkandi sauðfjárbeit á láglendi Suðurlands hefur áhrif á runnagróður og þar með fuglasamfélög: Vaðfuglar víkja fyrir spörfuglum – Hefur mikil áhrif á verndarstöðu nokkurra vaðfuglsstofna Runnagróður á láglendi á Suðurlandi er víða í hraðri framvindu og er nátengdur minnkandi sauðfjárbeit þar. Hefur þessi þróun mikil áhrif á fuglasamfélög á ákveðnum svæðum, þar sem vaðfuglar munu víkja fyrir spörfuglum. Niðurstöður í meistararitgerð Sigurðar Björns Alfreðssonar í líffræði, sem unnin var við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og gefin út í september á síðasta ári, leiða þessa stöðu í ljós. Þar er fjallað um tengsl runnagróðurs og búfjárbeitar á búsvæði fugla á láglendi Suðurlands. Rannsóknin var gerð á láglendi Suðurlands sumrin 2017 til 2018. Fuglar voru taldir á stykkjum með runnagróðri og á nærliggjandi stykkjum án runna, til samanburðar. Á runnastykkjum var stærð runna ákvörðuð og þéttleiki þeirra. Bændur spurðir um beitarmynstur Bændur voru heimsóttir og spurðir um ríkjandi beitarmynstur á stykkjunum síðustu tíu árin til að tengja mætti framvindu runnagróðurs við beitarmynstur. Sumarið 2018 var rannsókn frá árinu 2001 endurtekin til að meta hversu mikið runnagróður hefur aukist á þessu tímabili. Tíðni bletta með birki-/fjalldraparunnum hafði aukist um 95,7 prósent milli 2001 og 2018 og tíðni stykkja með áberandi víðirunnum hafði aukist um 51,5 prósent. Könnun meðal landeigenda sýndi að runnar höfðu einkum vaxið upp á stykkjum sem voru alveg friðuð eða friðuð fyrir sauðfjárbeit. Hrossabeit kom ekki í veg fyrir framvindu runna. Sigurður Björn segir að plöntuval sé mjög mismunandi á milli grasbíta, hrossin virðast síður sækja í runnagróður en sauðfé. „Plöntur þola beit misvel og liggur aðalmunurinn í byggingu plantnanna, sérstaklega í því hvar vaxtarbroddurinn er staðsettur. Tré, runnar og blómplöntur eru viðkvæm fyrir beit því vaxtarbroddurinn er efst á stönglinum eða á greinaendum – og sauðféð bítur hann af.“ Hefur áhrif á verndarstöðu vaðfuglastofna Fuglategundir sem voru í lægri þéttleika á runnastykkjum voru vaðfuglarnir tjaldur, heiðlóa, spói og stelkur. Tegundir sem voru í hærri þéttleika á runnastykkjum voru hrossagaukur – sem reyndar er vaðfugl – skógarþröstur og þúfutittlingur. Jaðrakan, lóuþræl og heiðlóu fækkaði innan runnastykkja eftir því sem runnar voru stærri. Sigurður Björn segir að breytingarnar muni líklega hafa mikil áhrif á alþjóðlega verndarstöðu nokkurra vaðfuglastofna. „Vaðfuglar eins og heiðlóa og spói hafa verið ríkjandi tegundir á Íslandi um aldir og stór hluti heimsstofns þessara tegunda verpur hér. Þessum tegundum er að fækka mikið um allan heim vegna þess að gengið er á búsvæði þeirra. Spörfuglarnir standa að jafnaði betur á alþjóðlega vísu. Þessar rannsóknir benda til að við séum að hnikast í sömu átt og aðrir, að við séum að tapa vaðfuglum og fá spörfugla í staðinn. Skógarþresti fjölgar til að mynda mikið þegar runnar vaxa upp. Spörfuglar kjósa almennt frekar vel gróin búsvæði því þeir fela hreiður og unga í gróðri og eru aðlagaðir líkamlega að slíkum búsvæðum,“ segir Sigurður Björn. Margþættar ástæður Sigurður Björn segir að ástæðurnar fyrir því að vaðfuglarnir hrekist af þessum runnasvæðum geti verið margþættar. „Til dæmis er líklegt að þessir langlífu fuglar kjósi búsvæði með góðri yfirsýn til að sporna við afránshættu og auka lífslíkur sínar og afkvæma sinna. Vatn er einnig gríðarlega mikilvægt í umhverfi margra þessara vaðfugla (tjarnir, pollar), en runnagróður og trjátegundir draga í sig mikið vatn og þurrka þessi búsvæði,“ segir Sigurður Björn og bætir við að þessi þróun eigi sér stað um allt Suðurland. Líklega sé þó aukning á útbreiðslu birkis meiri í uppsveitunum en víðis í lágsveitunum. Sigurður Björn segir að ef bændur vilji vernda vaðfuglana, sem hafa einkennt Ísland um aldir, virðist sem hófleg sauðfjárbeit, sem dugar til að halda niðri kjarri, sé heppileg. „Vaðfuglar sækja líka mikið í votlendi og það er hægt að gera miklu meira af því að vernda það. Á Íslandi hafa búsvæði fugla breyst mikið frá landnámi, meðal annars vegna mikillar sauðfjárbeitar. Stór svæði með lágvöxnum gróðri urðu til sem eru mjög ákjósanleg varpsvæði vaðfugla. Líklega eru þessar breytingar á gróðurfari landsins ein aðalástæða þess að Íslendingar eru nú með stóra vaðfuglastofna. Sjálfbær landnotkun sem fellur að umhverfismarkmiðum er ákjósanleg, en það er áskorun að skilgreina slíkt fyrirkomulag. Ég hef ekki gert viðhorfskönnun hjá bændum, en í nýlegri rannsókn, sem fjallar um landbúnað og fuglalíf, virðast bændur líklegir til að auka flatarmál landbúnaðarlands á komandi árum.“ Kemur vonandi að gagni við stefnumótun Rannsóknir Sigurðar Björns voru unnar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi sem fyrr segir, en þar hafa tengsl landnotkunar og náttúrufars verið könnuð í fjölbreyttum rannsóknum síðustu ár. „Niðurstöðunum verður miðlað áfram í ýmiss konar nefndarstarfi og með kynningum í ræðu og riti og vonandi koma þær að gagni við stefnumótun. En það veltur auðvitað á vilja stjórnvalda og landeigenda,“ segir hann, spurður um hvað verði síðan um þetta starf hans. /smh ARCTIC TRUCKS ÍSLAND EHF. KLETTHÁLSI 3 110 REYKJAVÍK SÍMI: 540 4980 www.yamaha.is YAMAHA VENTURE MULTI PURPOSE PZ50 Yamaha Venture Multi Purpose er einn áreiðanlegasti og fjölhæfasti vélsleði sem er í boði í dag, hvort heldur sem vinnutæki eða til ferðalaga. • Hagkvæmur í rekstri og viðhaldi • 500cc fjórgengismótor • Tveggja manna, rúmgott farþegasæti með góðu baki • Hiti í handföngum • Bakkgír • Rúmgóð farangursgrind TILBOÐSVERÐ: KR. 1.990.000,- Rannsóknir Sigurðar Björns Alfreðs- sonar hafa leitt í ljós að aukinn runnagróður á Suðurlandi ógni verndarstöðu þeirra. Runnasvæði og samanburðarsvæði án runnagróðurs. Myndir / Sigurður Björn Heiðlóa. Vaðfuglar, eins og heiðlóa og spói, hafa verið ríkjandi tegundir á Íslandi um aldir og stór hlut heimsstofns þessara tegunda verpur hér. Þróunin er sú að við erum að tapa vaðfuglunum og fá spörfugla í staðinn. Unnar Steinn Guðmundsson hjá Vörðufelli afhenti Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts, lykilinn að nýja pósthúsinu á Selfossi. Mynd / MHH Þrjú hundruð milljóna króna pósthús opnað á Selfossi Íslandspóstur opnaði nýtt og glæsilegt pósthús við Larsen- stræti á Selfossi í desember sl. Nýja húsið er á einni hæð og stærð þess er rúmir 650 fermetrar. Verktakafyrirtækið Vörðufell á Selfossi sá um byggingu hússins, sem kostaði tæplega þrjú hundruð milljónir króna, en húsið var byggt á þrettán mánuðum. „Við erum í skýjunum með nýja húsið og aðstöðuna, það var orðið mjög þröngt á gamla staðnum en þetta er æðislegt, hér er nóg pláss, vítt til veggja og hátt til lofts,“ segir Elín Höskuldsdóttir, forstöðumaður Íslandspósts á Selfossi. /MHH Elín Höskuldsdóttir, forstöðumaður Íslands pósts á Selfossi.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.