Fjölrit RALA - 15.02.1995, Page 40
38
3. kafli
Frjóvgun og fræsetning alaskalúpínu
Fertilization and seed set in Nootka lupine
Snorri Baldursson
Inngangur
Þekking á æxlunarkerfi alaskalúpínu er undirstaða kynbóta hennar og rannsóknir á
náttúrlegri fræsetningu eru æskileg forsenda fræræktar og notkunnar tegundarinnar
við uppgræðslu Iands.
Beiskjuefni (alkalóíðar) eru talin vernda plöntur fyrir beit (Lopez-Bellido &
Fuentes 1986). Alaskalúpína inniheldur nokkurt magn slíkra beiskjuefna (sbr. 4.
kafla). Oft hafa vaknað hugmyndir um að þróa sæt afbrigði af alaskalúpínu, þ.e.
afbrigði sem innihalda lítið sem ekkert af beiskjuefnum eða alkalóíðum, svipað og
gert hefur verið við fóðurlúpínur (L. albus, L. angustifolius, L. luteus, L. mutabilis og
L. polyphyllus). Líkur á að unnt sé að varðveita slíkar arfgerðir í "hálfvilltri" ræktun
byggjast m.a. á vægi sjálffrjóvgunar á móti víxlfrjóvgun. Við mikið beitarálag er að
öllum líkindum sterkt val á móti sætum arfgerðum. Ef víxlfrjóvgun er algeng er hætt
við að slíkar arfgerðir víki fljótt vegna æxlunar við villta beiska lúpínu, en slík er
reynsla Evrópumanna af sætu afbrigði af Lupinus polyphyllus (Gladstone, skriflegar
upplýsingar 1987). Ef beitarálag er takmarkað, má búast við hinu gagnstæða, þar sem
framleiðsla beiskjuefnanna kostar orku.
Sjálffrjóvgun er algeng í mörgum lúpínutegundum (Braatne 1989). Æxlunarfæri
lúpínunnar eru lokuð inni í kili blómsins þannig að vindfrævun er útilokuð. Öflugt
skordýr þarf til að nálgast frjókorn og blómsafa. Hunangsflugur eru einu skordýrin,
sem nýta sér blómaafurðir alaskalúpínunnar að einhverju ráði hérlendis. Þar sem
lúpínan blómstrar mjög snemma er hún sérstaklega mikilvæg fæðulind fyrir
hunangsflugudrottningar á vorin. Þernur úr fyrsta klaki sækja líka mikið í hana
(Kristján Kristjánsson 1983). Tækifæri til víxlfrjóvgunar með hunangsflugum eru því
fyrir hendi hjá alaskalúpínu hérlendis.
Markmið þessa hluta verkefnisins var að varpa ljósi á:
1. Vægi víxlfrjóvgunar á móti sjálffrjóvgun hjá alaskalúpínu.
2. Fræmyndun alaskalúpínu og þætti sem áhrif hafa á hana.
Aðferðir
Rannsóknunum var valinn staður á hálfgrónum mel á Keldnaholti þar sem lúpína var
í hraðri útbreiðslu (sbr. 1. kafla). Þrjátíu plöntur voru valdar af handahófi og merktar.