Sveitarstjórnarmál - 2020, Blaðsíða 5
5
FORYSTUGREIN
Viðfangsefni stjórnar og starfsmanna sambandsins eru fjölbreytt og mörg eru verkefnin
sem þarf að leysa í þágu hagsmuna sveitarfélaganna. Útsjónarsemi, lausnarmiðuð
hugsun, hlutlægni, samviskusemi og virðing eru þættir sem ráða för í starfseminni. Alltaf
koma nýjar áskoranir, en sum verkefnin eru árstímabundin og regluleg. Það á t.d. við
um gerð samkomulags ríkis og sveitarfélaga á grundvelli laga um opinber fjármál (LOF).
Þrívegis hefur samkomulag náðst en á síðasta ári tókst það ekki. Ástæða þess er að
við framlagningu fjármálaáætlunar ríkisins komu fram áform um að skerða lögbundin
framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Var því harðlega mótmælt af hálfu sambandsins
og sveitarfélaga. Þessi áform voru dregin til baka, en þá var of seint að ganga frá
samkomulagi. Þegar lagt var fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 komu óvænt fram
nýjar hugmyndir sem myndu íþyngja sveitarfélögum og íbúum, næðu þau fram að
ganga. Um er að ræða svokallaðan urðunarskatt sem var algjörlega óútfærður og hefði í
raun ekki nýst markvisst í umhverfismálum heldur einungis til að auka tekjur ríkissjóðs.
Sambandið mótmælti þessu einnig harðlega og við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins voru
áform um þennan nýja skatt dregin til baka, a.m.k. tímabundið.
Nú er unnið að gerð nýs samkomulags ríkis og sveitarfélaga á grundvelli LOF.
Samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga, hin svokallaða Jónsmessunefnd, hefur yfirumsjón
með undirbúningsvinnu vegna þess. Stefnt er að því að sannmælast um heildarafkomu
hins opinbera næstu ár. Samkomulagið bindur þó ekki ákvarðanir einstakra sveitarfélaga
en sambandið skuldbindur sig til að hvetja sveitarfélög til að horfa til þess við fjárstjórn
og fjárhagsáætlunargerð.
Fyrir liggur að í samkomulaginu verði mörg mikilvæg samstarfsverkefni aðila. Ráðist
verður í endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga með það að leiðarljósi að tryggja
eins og kostur er til framtíðar að þau verði fjárhagslega sjálfbær. Vinna hefst við gerð
fjárhagslegs sjálfbærnilíkans sem mun auðvelda einstökum sveitarfélögum að meta
fjárhagslega sjálfbærni sína m.t.t. ólíkra sviðsmynda og grundvelli mismunandi breyta,
s.s. lýðfræðilegrar þróunar, áhrifa breytinga í starfsmannahaldi og launakostnaði,
verðlagsþróunar, áætlaðra tekna frá jöfnunarsjóði og uppbyggingaráforma í viðkomandi
sveitarfélögum. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga get nýst vel í tengslum við þetta.
Fjárhagslegt sjálfbærnilíkan sem þetta mun einnig verða grunnur við mat á nauðsynlegri
og traustri fjármögnun sveitarstjórnarstigsins í heild.
Í hinu nýja samkomulagi verður tekið mið af þeim verkefnum sem fjallað er um í
þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Þar vegur
þungt heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Um þessar mundir
ríkir mikil óvissa um sjóðinn. Eins er það grundvöllur stuðnings sambandsins við áform
um að setja í lög viðmið um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, sem kallar á sameiningar
margra sveitarfélaga með verulegum stuðningi frá sjóðnum, að sérstök viðbótarframlög
komi frá ríkinu til að mæta útgjöldum vegna þess.
Um þessar mundir lifum við ótrúlega tíma. Ógnir veðurs, náttúruhamfara og
heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar hellast yfir okkur með ófyrirsjáanlegum
afleiðingum. Þjóðarbúskapurinn á Íslandi, sem og um heim allan, mun hljóta mikinn
skaða af. Undir það verðum við að búa okkur og kallar það m.a. á endurmat á
væntingum okkar til síaukinnar hagsældar. Það er ljóst að hægjast mun á hjólum
atvinnulífsins og þar með mun geta hins opinbera veikjast til að veita þjónustu og byggja
upp innviði. Við þurfum að sætta okkur við þessar aðstæður um einhvern tíma. Án
nokkurs vafa munum við samt komast upp úr dalnum og sækja á hæstu tinda, því við
viljum búa í velferðarsamfélagi með sem jöfnustum búsetuskilyrðum um land allt. Við
höfum forsendur, tækifæri og vilja til að standast allan samanburð við þær þjóðir sem
bestum árangri ná.
Við munum
komast uppúr
dalnum og
sækja á hæstu
tinda
Karl Björnsson
Framkvæmdastjóri