Morgunblaðið - 15.10.2020, Qupperneq 35
35
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. OKTÓBER 2020
Fæðingarorlofskerfið tryggir rétt
foreldra á vinnumarkaði til launa-
greiðslna við fæðingu, ættleiðingu
barns eða töku barns í fóstur. Því var
komið á fót árið 2001 með yfirlýsingu
stjórnvalda í tengslum við kjara-
samninga á almennum vinnumarkaði.
Þá var brotið í blað með því að
tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til
fæðingarorlofs og það lengt úr tveim-
ur vikum í þrjá mánuði. Þar með
skipaði Ísland sér í fremstu röð í jafn-
réttisbaráttunni. Þetta gerðist ekki af
sjálfu sér heldur náðist þessi áfangi
eftir áratuga baráttu kvennahreyf-
ingarinnar, stjórnmálafólks og stétt-
arfélaga launafólks.
Það er fagnaðarefni að ríkis-
stjórnin ætli að lengja fæðingarorlof
úr 10 mánuðum í 12 mánuði og
tryggja betur rétt einstæðra foreldra,
enda hluti af yfirlýsingu sem gefin
var í tengslum við kjarasamninga.
Frumvarp þessa efnis hefur verið
kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og
næsta skref er að félags- og barna-
málaráðherra leggi það fyrir Alþingi
til afgreiðslu. Lenging fæðingarorlofs
er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að
brúa bilið á milli orlofsins og
leikskólagöngu barna. Mikilvægt er
að sveitarfélögin fylgi í kjölfarið og
tryggi börnum dagvistun frá 12 mán-
aða aldri.
Umönnun beggja foreldra
Í frumvarpinu er lagt til að for-
eldrar fái jafnan rétt til fæðingar-
orlofs, sex mánuði hvort foreldri.
Heimilt verður að framselja einn
mánuð, þannig að annað foreldri geti
tekið sjö mánuði en hitt fimm. Þetta
fyrirkomulag er ekki úr lausu lofti
gripið heldur er það byggt á ítarlegum
rannsóknum sem hafa sýnt að það er
börnum fyrir bestu að njóta umönn-
unar beggja foreldra á þessu mikil-
væga mótunarskeiði. Samvera í fæð-
ingarorlofi leggur grunn að nánum
tengslum og samskiptum barna við
báða foreldra sína ævilangt og styrkir
þannig fjölskyldur og samfélag.
Fjölmargir feður sem vilja taka
meira en þriggja mánaða fæðingar-
orlof mæta skilningsleysi á sínum
vinnustað. Það þykir eðlilegt að konur
séu lengur heima en karlar þó að bæði
kyn geti vel sinnt börnunum. Þessu
viðhorfi þarf að breyta.
Óbirtar niðurstöður úr viðamikilli
rannsókn meðal foreldra á Íslandi
sýna að ekki eru tengsl á milli þess
hvenær mæður fara aftur til vinnu
eftir barnsburð og þess hve lengi þær
eru með barn sitt á brjósti né er það
sjálfgefið að konur geti eða vilji hafa
börn sín á brjósti. Áhersla á tengingu
brjóstagjafar við lengd fæðingar-
orlofs liggur því ekki í augum uppi.
Úr viðjum vanans
Að jafnaði eru konur fjórum til
fimm sinnum lengur frá vinnu en
karlar vegna barneigna. Þetta er ein
af ástæðum þess að konur hafa lægri
laun en karlar og minni möguleika á
starfsframa, auk þess sem þær
ávinna sér minni lífeyrisréttindi yfir
starfsævina en þeir. Gleymum því
heldur ekki að efnahagsleg staða
mæðra hefur bein áhrif á lífsgæði
barna þeirra.
Markmið fæðingarorlofskerfisins
er að tryggja börnum samvistir við
báða foreldra og jafnrétti kynjanna í
samfélaginu. Kerfið á að stuðla að því
að barn myndi jafn sterk tengsl við
báða foreldra en það er lykillinn að
því að jafna ábyrgð foreldra og gera
báðum kleift að sameina atvinnuþátt-
töku og fjölskyldulíf. Með því að jafna
rétt foreldra til fæðingarorlofs er
einnig stuðlað að því að fjarvera karla
og kvenna frá vinnumarkaði vegna
barneigna verði álíka löng og áhrifin
þau sömu heima og heiman.
Nú reynir á hvort við séum föst í
viðjum vanans eða hvort tími sé kom-
inn til að brjótast úr þeim og tryggja
börnum samvistir og umönnun
beggja foreldra á mikilvægasta mót-
unarskeiði þeirra.
Eftir Drífu Snædal, Sonju Ýri
Þorbergsdóttur og Þórunni
Sveinbjarnardóttur
» Samvera í fæðing-
arorlofi leggur
grunn að nánum
tengslum og sam-
skiptum barna við báða
foreldra ævilangt og
styrkir þannig fjöl-
skyldur og samfélag.
Drífa
Snædal
Drífa er forseti ASÍ, Sonja er
formaður BSRB og Þórunn er
formaður BHM.
Sonja Ýr
Þorbergsdóttir
Þórunn
Sveinbjarnardóttir
12 mánuðir – Framfaraskref fyrir börn og foreldra
Árið 1774 kom út
bókin „Raunir Werth-
ers unga“ eftir Johann
Wolfgang von Goethe. Í
þeirri sögu sviptir hinn
ungi Werther sig lífi í
kjölfar þess að sjá ekki
fram á að geta eytt
ævinni með hinni einu
sönnu ást sinni, Char-
lotte. Í kjölfar útgáfu
bókarinnar fjölgaði sjálfsvígum hjá
ungum Evrópubúum mjög.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt
að fjölmiðlar geta haft áhrif á fjölda
sjálfsvíga bæði til fjölgunar og fækk-
unar. Mun fleiri rannsóknir hafa ver-
ið gerðar á neikvæðum afleiðingum
fjölmiðlaumfjöllunar um sjálfsvíg en
jákvæðum hliðum slíkrar umfjöll-
unar. Þær rannsóknir hafa sýnt fram
á að ógætileg opinber umræða um
sjálfsvíg geti stuðlað að hermi-sjálfs-
vígum. Í því samhengi hefur verið tal-
að um svokölluð Werthers-áhrif með
tilvísun í skáldsögu Goethes.
Rannsóknir sýna einnig að umfjöll-
un um sjálfsvíg gefur þeim sem líður
illa og er í sjálfsvígshugleiðingum
eins konar „leyfi“ til að réttlæta slíkt.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að
miðlun upplýsinga í tengslum við
sjálfsvíg getur stuðlað að fækkun
sjálfsvíga og frásagnir af einstakling-
um sem fundu leið úr sínum erfið-
leikum og sjálfsvígshugsunum geti
haft í för með sér lækkun á tíðni
sjálfsvígshegðunar. Þá er talað um
„Papageno-áhrifin“ en nafnið er
tengt Papageno úr Töfraflautu Moz-
arts. Hann íhugar sjálfsvíg en hættir
við eftir að hafa komið auga á aðrar
uppbyggilegar leiðir til að vinna úr
sálrænum sársauka sínum. Umfjöll-
un um sjálfsvígshegðun, forvarnir og
bjargráð getur þannig verið okkur
hvatning til að leita hjálpar og ræða
sjálfsvígshugsanir.
Umræða á Íslandi um sjálfsvíg hef-
ur að mörgu leyti verið fjölbreytt,
stöðug en ávallt lokuð. Flestir hræð-
ast þennan málaflokk, óttast að ræða
þetta, óttast áhrifin, skömm umlykur
umræðuna. Fjölmiðlar fjalla oft um
sjálfsvíg þekktra einstaklinga sem
verða oft ódauðlegir fyrir vikið. Hinir
teljast hafa verið veikir. Þetta er
staðan þó svo að margar rannsóknir
sýni að flestir íhugi sjálfsvíg einhvern
tímann á lífsleiðinni. Í flestum vina-
hópum, fjölskyldum og vinnustöðum
er einhver sem hefur látist í sjálfsvígi,
við eigum flest einhvern nákominn
sem hefur kvatt heiminn á þann hátt
eða tengjumst einhverjum sterkum
böndum sem misst hefur ástvin.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir er sem
einhvers konar hulinshjálmur sé yfir
málefninu.
Á forsíðu blaðs Geðhjálpar, sem
kemur út í dag, birtum við tölu; 39.
Talan stendur fyrir þá íbúa Íslands
sem féllu fyrir eigin hendi á árinu
2019. Við vitum að það verða fleiri
manneskjur sem taka líf sitt á þessu
ári. Píeta-samtökin sinna yfir 300 við-
tölum á viku við fólk sem glímir við
sjálfsvígshugsanir og hringt er í
hjálparsíma Rauða krossins og Píeta-
símann á öllum tímum sólarhringsins.
Við vitum að sjálfsvíg er dánarorsök
45% þeirra karlmanna sem látast fyr-
ir fertugt.
Við höfum í gegnum árin veigrað
okkur við að ræða þessa tölu, þennan
mælikvarða á geðheilsu okkar, opin-
berlega. Ástæða þess að við í Lands-
samtökunum Geðhjálp, í samstarfi
við Píeta-samtökin, opinberum töluna
núna er tvíþætt. Annars vegar viljum
við ræða sjálfsvíg og þann skyndilega
missi, sársauka og sorg sem aðstand-
endur verða fyrir og hins vegar vilj-
um við ræða þá ástæðu sem býr að
baki og orsakaþætti geðheilbrigðis.
Orsakir sem skipta okkur öll máli og
hafa áhrif á líðan okkar. Orsakir sem í
okkar „rafmögnuðu“ tilveru eru fjöl-
þættar og þarfnast meiri umræðu en
kerfi samtímans leyfa því þau snúast
frekar um einkenni og afleiðingar.
Viðleitni okkar í lífinu hlýtur alltaf
að miða að því að bæta líðan og forð-
ast vanlíðan. Nú, þegar nær níu mán-
uðir eru liðnir frá því að Covid-19 fór
að hafa áhrif á hugsanir okkar og
hegðun er ljóst að áhrifin á orsaka-
þætti geðheilsu verða mikil. Við
þurfum öll að laga okkur að breytt-
um veruleika og fyrir einhver okkar
er sú aðlögun umtalsverð. Rútínan
fer úr skorðum, álag verður á sam-
skipti, fjárhagur er ótryggari, óvissa,
heilsuótti, aukinn frítími, breytt
hlutverk í samfélaginu; allt eru þetta
orsakaþættir geðheilsu sem geta
tekið breytingum og ekki er allt tal-
ið. Líðan okkar, geðheilsan, er því
undir, nú sem aldrei fyrr, og líklegt
er að félags- og efnahagslegar afleið-
ingar Covid-19 á samfélagið muni
fylgja okkur í nokkur ár. M.ö.o.: allar
líkur eru á að heilt á litið muni okkur,
sem þjóð, líða verr en okkur hefur
liðið síðastliðin ár. Við í Geðhjálp og
Píeta leggjum það til að samfélagið
bregðist við þeirri áskorun með því
að einbeita sér að orsakaþáttum geð-
heilsu.
Samfélag okkar stendur frammi
fyrir áskorun. Ljóst er að fé til al-
mannaþjónustu ríkis og sveitarfé-
laga dregst saman næstu misserin
en allar líkur eru á að þörfin fyrir
þjónustuna aukist. Því er mikilvægt
að huga bæði að sókn og vörn. Sókn,
í þeirri merkingu að vinna með or-
sakaþætti og vörn, í þeirri merkingu
að bæta viðbragðskerfi okkar.
Til verksins höfum við hugmynda-
fræði þar sem raskanirnar fá meira
vægi, fjármagn og athygli en heil-
brigðið sem röskunin (frávikið) er
dregin af. Við þurfum að snúa af
þessari braut. Endurskoða vitund
okkar, hugsun, hegðun og kerfi þeg-
ar kemur að geðheilbrigði og sálarlífi
mannsins. Taka umræðuna út frá
heild en ekki í smáskömmtum. Við
þurfum nefnilega ekki að vera veik
til þess að líða skelfilega illa. Orð
eins og biðlistar, úrræði við hæfi,
meðferð, greining, geðsjúkdómur,
sjálfsvíg, vanlíðan og sálrænn sárs-
auki eru orð sem viðhalda orðræðu
þeirra afleiðinga sem við þurfum
ávallt að búa við en það verður að
auka áhersluna á orsakir geðheilsu
okkar allra, óháð því hvernig okkur
líður.
Vertu með og saman setjum við
geðheilsu í forgang í samfélaginu. Þú
getur skrifað undir áskorun þess
efnis hér: www.39.is.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er
minnt á Hjálparsíma Rauða
krossins, 1717, og netspjallið.
Einnig má leita til Píeta-samtak-
anna og síminn opinn allan sólar-
hringinn og er 552-2218 og vefsíð-
an www.pieta.is.
Eftir Héðin Unn-
steinsson og Krist-
ínu Ólafsdóttur
» Á forsíðu
blaðs Geð-
hjálpar, sem
kemur út í dag, birtum
við tölu; 39. Talan stend-
ur fyrir þá íbúa Íslands
sem féllu fyrir eigin
hendi á árinu 2019.
Héðinn Unnsteinsson
Héðinn er formaður Geðhjálpar og
Kristín framkvæmdastjóri Píeta.
Kristín Ólafsdóttir
Orsakir geðheilsu
Undanfarið hafa birst
auglýsingar Eflingar
þar sem maður sést taka
peninga úr veski annars
manns, sem á að vera
starfsmaður. Undir
þessari auglýsingu er
fullyrt að atvinnurekstur
steli árlega hundruðum
milljóna króna úr vösum
félagsmanna Eflingar
stéttarfélags. Auglýs-
ingaherferð Eflingar
hefur það markmið að
stilla atvinnurekendum
og starfsmönnum upp
sem andstæðingum. At-
vinnurekendur séu upp
til hópa brotamenn sem
veigri sér ekki við að
hlunnfara starfsfólk sitt.
Sú mynd sem Efling
dregur upp af stjórn-
endum fyrirtækja og
Samtökum atvinnulífs-
ins (SA) er bæði ómálefnaleg og veru-
leikafirrt.
SA eru ekki málsvari þeirra sem
gerast sekir um refsivert athæfi. SA
tóku ásamt ASÍ þátt í starfi nefndar
um félagsleg undirboð og brota-
starfsemi á vinnumarkaði sem lagði til
refsiábyrgð vegna alvarlegra eða ítrek-
aðra brota gegn launafólki. SA hafa
lengi stutt breytingar á lögum til að
hrinda þessum tillögum í framkvæmd,
eins og ítrekað var í grein formanns
SA í Fréttablaðinu 19. ágúst sl. Hvorki
Efling né ASÍ geta andmælt því.
Þótt nefna megi dæmi um brotlega
atvinnurekendur þá er það staðreynd
að í yfirgnæfandi meirihluta tilvika
stofna einstaklingar og reka fyrirtæki
af heilindum. Þeir vilja búa til verð-
mæti fyrir samfélagið, skapa störf og
koma vel fram við sitt starfsfólk. Hags-
munir atvinnurekenda og starfsmanna
liggja saman. Þegar fyrirtækjum
landsins vegnar vel vegnar starfs-
mönnum einnig vel og raunar sam-
félaginu öllu.
Óraunhæfar kröfur ASÍ
Samtök atvinnulífsins væntu þess að
ný starfskjaralög yrðu samþykkt síð-
astliðið vor þar sem ákvæði um refsi-
ábyrgð væri að finna. Það hefur því
miður ekki gerst, einkum vegna kröfu
ASÍ um allt aðra útfærslu viðurlaga en
samþykkt hafði verið í samráðshópi
ráðherra og vilyrði var gefið um í yfir-
lýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð
lífskjarasamningsins. Engin samstaða
er um tillögu ASÍ sem
felur í stuttu máli í sér að
atvinnurekanda sem van-
greiði launamanni beri
að endurgreiða honum
hin vangreiddu laun með
dráttarvöxtum og 100%
álagi. Samtök atvinnu-
lífsins geta ekki stutt til-
lögu ASÍ sem skapar
fjárhagslegan hvata til að
stofna til ágreinings við
atvinnurekanda fremur
en að leita friðsamlegrar
lausnar og veldur sundr-
ungu og glundroða á
vinnumarkaði.
Veldur hver á heldur
Atvinnurekendur og
starfsfólk í launabókhaldi
geta vitaskuld gert mis-
tök eins og aðrir. Mikil-
vægt er að hafa í huga að
íslenskir kjarasamningar
eru flóknir, einkum
kjarasamningar fyrir
verkafólk, og vinnu-
fyrirkomulag oft ekki sniðið að þörfum
fyrirtækja. 80% launagreiðenda í land-
inu hafa fimm eða færri starfsmenn í
þjónustu sinni og 90% launagreiðenda
hafa færri en tíu. Það gefur augaleið að
öll þessi örfyrirtæki eru með litla eða
enga yfirbyggingu vegna starfs-
mannahalds og hafa þörf fyrir einfald-
ar og skýrar reglur til að vinna eftir, en
ekki þverhandarþykkar skýrslur eins
og kjarasamningar hafa orðið með tím-
anum. Það er heldur ekki tilviljun að
fjöldi ágreiningsmála er margfalt meiri
vegna kjarasamninga verkafólks en
samninga verslunarmanna sem eru
töluvert einfaldari í framkvæmd. Í
kjaraviðræðum 2019 við Eflingu og
SGS lögðu SA áherslu á að framsetn-
ing kjarasamninga yrði gerð skýrari til
að tryggja rétta framkvæmd þeirra og
jafnt launafólk og atvinnurekendur
gætu með auðveldum hætti áttað sig á
gildandi reglum. Hugmyndum þessum
var mætt af fullkomnu áhugaleysi af
hálfu Eflingar.
Samtök atvinnulífsins telja, meðal
annars af þeim sökum, farsælast að
taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði
með því að óháður aðili, stjórnvöld eða
dómstólar, leggi mat á brot og ákveði
hæfileg viðurlög, líkt og nefnd um fé-
lagsleg undirboð og brotastarfsemi
lagði til. Slík lausn er fullkomlega í takt
við yfirlýsingu stjórnvalda vegna lífs-
kjarasamningsins.
Óvandaður mál-
flutningur Eflingar
Eftir Halldór Benja-
mín Þorbergsson
Höfundur er framkvæmdastjóri
Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín
Þorbergsson
» Sú mynd
sem Efling
dregur upp af
stjórnendum
fyrirtækja og
SA er bæði
ómálefnaleg og
veruleikafirrt.