Morgunblaðið - 26.11.2020, Blaðsíða 21
21
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. NÓVEMBER 2020
Tilþrif Klambratúnið er vinsælt til útivistar, þar sem hægt er að stunda ýmsar íþróttir og leiki. Bumbubolti svonefndur er þar á meðal, þegar miðaldra og eldri leikmenn elta tuðruna.
Kristinn Magnússon
Við höfum náð
árangri í kjarasamn-
ingum síðustu ár – ár-
angri sem stefnt var
að, það er að hækka
lægstu laun á vinnu-
markaði, hífa upp taxt-
ana og einbeita okkur
að þeim sem fá bara
laun samkvæmt töxt-
um og eiga litla mögu-
leika á að auka tekjur
sínar. Þetta eru mikilvægir sigrar í
þágu réttlætis og jöfnuðar og það
birtist að hluta til í margumræddri
launavísitölu fyrir októbermánuð.
Gögn Hagstofu um launaþróun sýna
að launaskrið hefur ekki orðið á al-
menna vinnumarkaðnum heldur
hefur kaupmáttaraukning ratað
þangað sem að var stefnt, til þeirra
lægst launuðu.
Fleiri kraftar en beinar launa-
hækkanir hafa áhrif á vísitöluna:
Stytting vinnutímans ýkir lokanið-
urstöðuna, en atvinnurekendur og
launafólk hafa verið sammála um að
styttingin fæli ekki í sér beina
hækkun launakostnaðar heldur skil-
aði sér í minni veikindum og meiri
framleiðni. Þá hafa afturvirkir
samningar áhrif á launavísitölu en
þeir eru afturvirkir vegna þess
hversu lengi dróst að ganga frá
samningum og fær fólk þá greiddar
uppbætur í formi eingreiðslu. Að
lokum má minna á að stóraukið álag
á margar stéttir skilar sér eðlilega
inn í aukið vaktaálag vegna meiri
vinnu á kóvid-álagstímum og aukn-
ar álagsgreiðslur hækka launa-
vísitölu.
Að sjóða þessa hækkun launa-
vísitölunnar niður í fyrirsagnir um
stóraukið launaskrið eða ofalið
launafólk er villandi og rangt. Tíma-
punkturinn er samt ekki tilviljun.
Samtök atvinnurekenda eru að
hefja sama söng og í kringum end-
urskoðun lífskjarasamninganna sem
fór fram síðasta haust, það er að
launakostnaður sé sérstaklega
íþyngjandi á Íslandi og að umsamd-
ar launahækkanir muni ríða at-
vinnurekendum að fullu. Samhliða
er því haldið fram að laun á Íslandi
séu miklu hærri en annars staðar
og það komi niður á „samkeppn-
ishæfni“ Íslands. Þetta er einhvers
konar veiðiferð sem hófst á hót-
unum um að hlaupa frá samningum
sem SA höfðu þó sjálf undirritað og
mun á endanum sennilega beinast
að stjórnvöldum og
þau vera krafin um
enn frekari ívilnanir
fyrir atvinnurekendur
algerlega óháð stöðu
þeirra og hvernig
vandi þeirra er tilkom-
inn.
Atvinnuleysið sem
íslenskt samfélag
stendur nú frammi fyr-
ir er fyrst og fremst
tilkomið vegna hruns
ferðaþjónustunnar og
fjölda stöðugilda þar, en ekki vegna
umsaminna launahækkana. Þarna
kemur til kraftur sem ekkert okkar
fær ráðið og er varla á ábyrgð
verkalýðshreyfingarinnar – Co-
vid-19.
Kreppan af völdum veirunnar
hefur lagst með afar mismunandi
hætti á atvinnugreinar og land-
svæði. Sums staðar hefur veltan
aukist en annars staðar hrunið. Það
er áhyggjuefni ef Samtök atvinnu-
lífsins ætla aftur að grafa undan
friði og fyrirsjáanleika á vinnu-
markaði með áróðri gegn kjara-
samningum og réttindum launa-
fólks. Það er gert í nafni
hugmyndafræði sem opinberast í
orðum forstöðumanns efnahags-
sviðs SA á síðum Morgunblaðsins í
gær þar sem hún amast yfir mikilli
þátttöku fólks í stéttarfélögum hér
á landi. Það er svo sem gömul saga
og ný að samtakamáttur launafólks
sé forystu atvinnurekenda þyrnir í
augum, en þeirri skoðun deila ekki
endilega atvinnurekendur um landið
þvert og endilangt sem njóta þess
fyrirsjáanleika sem fæst með lengri
kjarasamningum. Enn fremur hefur
öflug verkalýðshreyfing átt ríkan
þátt í að byggja upp þau lífsgæði
sem Ísland þó státar af, samhliða
aukinni verðmætasköpun. Vilji for-
ysta SA hverfa af þeirri braut er
ágætt að það sé sagt berum orðum.
En í þeirri afstöðu er forystan ein-
angruð í íslensku samfélagi.
Eftir Drífu
Snædal
» Að sjóða þessa
hækkun launa-
vísitölunnar niður í fyr-
irsagnir um stóraukið
launaskrið eða ofalið
launafólk er villandi og
rangt.
Drífa Snædal
Höfundur er forseti ASÍ.
Launavísitalan og lífið
Margt hefur áunnist
frá þeim tíma sem
Norðurlandaráð var
stofnað árið 1952 til að
bæta samvinnu og
samstarf landanna.
Sama ár og Norð-
urlandaráð var stofnað
var tekið upp vega-
bréfafrelsi á ferðum
innan Norðurlandanna
og tveimur árum síðar gekk sameig-
inlegur vinnumarkaður Norðurlanda
í gildi með frjálsri för launafólks sem
varð undanfari innri markaðar Evr-
ópusambandsins.
Árið 1955 tók Norðurlandasamn-
ingurinn um félagslegt öryggi gildi.
Þá höfðu farið fram viðræður um
tolla- og efnahagsbandalag milli
Norðurlandanna og Evrópuríkjanna
en í júlí árið 1959 ákváðu stjórnvöld
landanna að taka þau áform af nor-
rænni dagskrá. Tíu dögum síðar náðu
Danmörk, Noregur og Svíþjóð saman
um Fríverslunarsamtök Evrópu
(EFTA) en Finnland gerðist auka-
aðili árið 1961. Ekki leið á löngu þar
til Danir og Norðmenn sóttu um aðild
að EBE, Efnahagsbandalagi Evrópu.
Staðan innan EFTA breyttist og við-
leitni norrænna landa til að gerast að-
ilar að EBE ýtti undir fastan sátt-
mála um norrænt samstarf. Úr varð
að „Norræna stjórnarskráin“ var
samþykkt í Helsinki hinn 23. mars ár-
ið 1962, svonefndur Helsingfor-
ssamningur. Þar var því slegið föstu
að Norðurlandaráð skyldi fá tækifæri
til að tjá sig um mikilsverð efni nor-
rænnar samvinnu.
Grænlendingar verða
aðilar að ráðinu
Árið 1958 var umfangsmeiru nor-
rænu vegabréfasambandi komið á
sem var undanfari Schengen-
samstarfsins sem við þekkjum í dag.
Þá varð mun auðveldara fyrir Norð-
urlandabúa að ferðast til nágranna-
landanna. Árið 1962 var norræni lýð-
heilsuháskólinn vígður í Gautaborg
og fjórum árum síðar var samningur
um norræna menningarsjóðinn und-
irritaður en sjóðnum var einkum ætl-
að að styrkja menningarverkefni með
þátttöku eigi færri en þriggja nor-
rænna landa. Í ágúst árið 1968 var
Norræna húsið í Reykjavík vígt en
finnski arkitektinn Alvar Aalto teikn-
aði það. Tveimur árum síðar sam-
þykkti Norðurlandaráð að fulltrúar
Álandseyja og Færeyja gætu tekið
þátt í störfum ráðsins í gegnum
landsdeildir Danmerkur og Finn-
lands. Árið 1984 urðu fulltrúar Græn-
lands einnig aðilar að ráðinu í gegn-
um landsdeild danska
ríkjasambandsins.
Hindranir á landamærum
Það er áhugavert að líta til baka
rúm 60 ár aftur í tímann þegar und-
anfara Schengen-samstarfsins var
komið á en Norðurlandaráð hefur
einmitt á formennskuárinu nú í ár
bent á að margar nýjar hindranir
hafa komið upp á landamærum nor-
rænu ríkjanna í tengslum við kór-
ónuveirufaraldurinn. Þetta hefur
valdið venjulegu fólki og fyrirtækjum
miklum vandræðum. Norð-
urlandaráð telur betra að komið sé í
veg fyrir slíkar hindranir og að erf-
iðleikar komi upp með sameig-
inlegum fyrirbyggjandi aðgerðum.
Norræna ráðherranefndin og Norð-
urlandaráð hafa unnið mikið starf á
síðustu árum að því að draga úr
stjórnsýsluhindrunum á landamær-
um ríkjanna en sérstakt stjórnsýslu-
hindranaráð er að störfum fyrir Nor-
rænu ráðherranefndina og
stjórnsýsluhindranahópur á vegum
Norðurlandaráðs.
Áhersla á umhverfismál
Í lok sjötta áratugar síðustu aldar
hófu stjórnvöld ríkjanna skuldbind-
andi samstarf með stofnun Norrænu
ráðherranefndarinnar en á þeim tíma
hafði ráðið opnað skrifstofu í Stokk-
hólmi. Stofnun Norræna fjárfestinga-
bankans gaf tilefni til fyrsta aukaþings
Norðurlandaráðs sem haldið var í nóv-
ember árið 1975 en aðalbækistöðvar
hans voru staðsettar í Helsinki í Finn-
landi. Í kjölfar hins alvarlega kjarn-
orkuslyss sem varð í Tsjernobyl í
Norður-Úkraínu árið 1986 hélt Norð-
urlandaráð tvær stórar ráðstefnur um
umhverfismál þar sem umræðuefnin
voru mengun andrúmsloftsins ásamt
lífríki sjávar. Allt frá þessum tíma hef-
ur verið lögð mikil áhersla á umhverf-
ismál í norrænu samstarfi.
Múrinn fellur
Árið 1990, áður en Sovétríkin liðu
undir lok og Eystrasaltsríkin end-
urheimtu sjálfstæði sitt, höfðu verið
tekin upp samskipti við stjórnmálafólk
í baltnesku löndunum. Fulltrúar
Eystrasaltsríkjanna sóttu þing Norð-
urlandaráðs í Kaupmannahöfn í lok
febrúar árið 1991 en mánuði áður
hafði dregið til tíðinda í Vilníus og
Riga. Þegar löndin endurheimtu sjálf-
stæði sitt hófst náið samstarf Norð-
urlandaráðs við ný systrasamtök,
Eystrasaltsríkjaráðið. Smám saman
jókst einnig samstarf við rússneska
þingmenn. Árið 1996 flutti skrifstofa
Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til
Kaupmannahafnar undir sama þak og
skrifstofa Norrænu ráðherranefnd-
arinnar. Samstarfið er enn að þróast
og Norðurlandaráð hefur myndað
tengsl við þingmenn í ýmsum öðrum
löndum utan Norðurlandanna. Árið
2007 voru tekin upp samskipti við
stjórnarandstöðu og stjórnvöld í
Hvíta-Rússlandi. Grunngildi nor-
rænna samfélaga eru mannréttindi,
lýðræði og réttarríkið. Það er mik-
ilvægt að Norðurlöndin haldi þessum
gildum á lofti, ekki síst nú á tímum þar
sem öfgahyggja fer vaxandi og sótt er
að réttarríkinu og lýðræðinu. Norð-
urlöndin eiga að taka sér meira pláss í
alþjóðasamfélaginu því þar eigum við
erindi.
Mikilvægi norræns
samstarfs fyrr og nú
Eftir Eftir Silju
Dögg Gunnars-
dóttur og Oddnýju
Harðardóttur
»Margt hefur áunnist
frá þeim tíma sem
Norðurlandaráð var
stofnað árið 1952 til að
bæta samvinnu og sam-
starf landanna.
Oddný
Harðardóttir
Höfundar eru forseti og varaforseti
Norðurlandaráðs.
Silja Dögg
Gunnarsdóttir