Iðjuþjálfinn - 2020, Blaðsíða 5
Iðjuþjálfinn 1/20205
iðjuþjálfa sem starfa á vettvangi. Gaman er að geta þess að
niðurstöður kannana opinberu háskólanna sýna að nemendur í
iðjuþjálfunarfræði eru afar ánægðir með námið, þeim finnst þeir
hafa öðlast meira sjálfstraust og telja að námið efli gagnrýna
hugsun. Nemendurnir upplifa sig jafnframt meðvitaðri um eigin
ábyrgð í samfélaginu og mikilvægi þess að fólk búi við jöfn tækifæri.
Regluleg samvinna er á milli námsbrautarinnar og félagsins.
Starfandi iðjuþjálfar eiga kost á að sækja símenntun við Háskólann
á Akureyri og eru þeir eindregið hvattir til að nýta sér þann
möguleika.
ERLENT SAMSTARF
Norrænn formannafundur var haldinn í byrjun september og var
hann rafrænn á ZOOM. Formaður og varaformaður IÞÍ tóku þátt
eins og venja er. Félögin miðluðu fréttum sín á milli og satt best að
segja litaðist umræðan nokkuð af heimsfaraldrinum. Næsti
formannafundur er ráðgerður í Danmörku í september 2021. Rætt
var um skýrsluna sem kom út í vor um virði iðjuþjálfunar og hvatt til
þess að félögin hefðu hana sýnilega á vefsíðum sínum. Í þessu blaði
má einmitt finna stutta samantekt úr skýrslunni en hún er
aðgengileg í heild sinni á heimasíðu IÞÍ. Ársfundur SJOT
(Scandinavian Journal of Occupational Therapy) var haldinn í
tengslum við formannafundinn. Í október var árlegur fundur
Evrópuráði iðjuþjálfafélaga (COTEC), rafrænn að sjálfsögðu. Líkt og
á norræna vettvanginum snerist umræðan töluvert um ástandið
sem heimsfaraldurinn hefur skapað enda hraður vöxtur í tíðni smita
í álfunni. Kosið var í stjórn COTEC þar sem tveir nýir fulltrúar mættu
til leiks.
VIÐBURÐIR
Það er ljóst að heimsfaraldurinn setur okkur skorður og ýmsum
viðburðum hefur verið frestað eins og Evrópuráðstefnu sem vera
átti í Prag í lok september og fulltrúaþingi WFOT (World Federation
of Occupational Therapists) sem vera átti fyrr á árinu. Við létum þó
ekki deigan síga hjá félaginu og skelltum í hádegisfyrirlestur fyrr í
haust þar sem iðjuþjálfar hjá Hugarafli kynntu starfsemina og
hvernig þau höfðu aðlagað sig að breyttum tímum. Erindinu var
streymt í beinni á fésbókinni og er aðgengilegt þar. Fræðslu- og
kynningarnefnd hélt svo rafrænt málþing í tilefni af alþjóðlegum
degi iðjuþjálfunar sem er 27 október ár hvert. Þemað í ár var
„Reimagine doing“ eða „Að endurhugsa hversdaginn“ á íslensku.
Það er alltaf mikilvægt að nýta tilefnið til að vekja athygli á faginu
okkar og halda daginn hátíðlegan á vinnustöðum. Ég hvet iðjuþjálfa
til að nota það markaðsefni sem félagið hefur látið útbúa um
iðjuþjálfun og er að finna á fésbókarsíðu IÞÍ. Tilvalið er að deila
myndböndunum hægri vinstri á samfélagsmiðlum. Við bendum
einnig á heimasíðu félagsins www.ii.is.
Ég vil að lokum nýta tækifærið hér og færa öllum félagsmönnum
mínar bestu þakkir fyrir að sinna störfum sínum af kostgæfni og
fagmennsku þrátt fyrir þær krefjandi aðstæður sem nú eru í
samfélaginu. Það sannast enn og aftur að iðjuþjálfar eru
sérfræðingar í að leita lausna og finna nýjar leiðir á hverjum degi.
Við þurfum öll að endurhugsa hversdaginn, fara varlega, hlúa að
okkur sjálfum og náunganum og muna að samstaðan er besta
sóttvörnin.
Góð kveðja, Þóra Leósdóttir
3.4. Iðjuþjálfi virðir hæfni, skyldur og ábyrgð annarra iðjuþjálfa. Komi upp faglegur ágreiningur skal iðjuþjálfi
beita gagnrýni af sanngirni og reyna að miðla málum svo niðurstaða fáist með hagsmuni skjólstæðinga að
leiðarljósi.
Að vera fagmaður er hlutverk sem krefst margs af okkur. Siðareglur eru settar fram til að minna á ábyrgðina
sem í því felst. Siðaregla 3.4 beinir sjónum að mikilvægu atriði, en það er virðing. Virðing kemur ekki af sjálfu
sér, það þarf að tileinka sér hana, bæði í faglegu samstarfi og öðrum mannlegum samskiptum. Virðing er
nátengd auðmýkt. Til að geta borið virðingu fyrir öðrum þarf að sýna viðhorfum þeirra og skoðunum skilning
og auðmýkt. Virðing, auðmýkt og traust, allt spilar þetta saman þannig að við getum virt hæfni, skyldur og
ábyrgð annarra iðjuþjálfa. Það sama á við ef um faglegan ágreining er að ræða. Það er mannlegt að finnast
eigin skoðanir réttari en annarra en faghlutverkið krefst þess að við horfum á málin frá öðru sjónarhorni.
Viðmiðið er alltaf skjólstæðingurinn, hans þarfir og hagsmunir. Með virðingu að leiðarljósi er okkur falið að
vinna í þágu skjólstæðinga okkar í góðri samvinnu við samstarfsfólk.
Guðrún Áslaug Einarsdóttir,
formaður siðanefnar
UMFJÖLLUN
UM SIÐAREGLUR IÐJUÞJÁLFA