Iðjuþjálfinn - 2020, Blaðsíða 35
Iðjuþjálfinn 1/202035
þetta fyrir starfsmönnum og hvort eða hvernig þeir hafi unnið eftir
henni,“ segir hún.
„Þegar við erum á stöðunum og erum að athuga með félagslegan
aðbúnað þá spyr ég eins og áður: Hvað gerið þið til að ykkur líði vel
í vinnunni? Þá fékk ég alls konar viðbrögð um hvað þau eru að
gera,“ lýsir Hafdís. Sömuleiðis spyr hún nú um hvernig tekið sé á
misskilningi, vandamáli eða öðru sem komi upp og biður
starfsfólkið að lýsa því. „Þá heyrir maður hvernig hefur verið tekið á
málinu, hvort það hafi verið leyst, að manneskjan var látin fara eða
hvort þau virkilega hafi gert eitthvað,“ segir hún.
VINNUSTAÐAATHUGANIR OG RANNSÓKNIR,
SÉÐAR FRÁ SJÓNARHÓLI IÐJUÞJÁLFA
Menntun iðjuþjálfa nýtist sannarlega til að fá ákveðið sjónarhorn í
heimsóknum á vinnustaði. „Þú ert í öll þessi ár búin að vera að nota
menntunina þína og þú ert að horfa allt öðru vísi á þetta – þú ert
með þessi iðjuþjálfagleraugu. Það er allt öðruvísi að heyra frá
Hafdísi um heimsóknir heldur en frá einhverjum sem er ekki
iðjuþjálfi. Ég finn muninn, þannig að menntunin hefur nýst mjög vel
í þetta starf,“ lýsir Gunnhildur.
Hafdís tekur heils hugar undir þetta. „Ég sé það þegar ég lít til baka
og eins þegar kíkt er yfir kröfurnar eða athugasemdirnar sem maður
gerir á stöðunum. Þá hef ég verið að nota menntunina og líka þegar
maður er að leiðbeina. Maður þekkir staðina og veit hvað maður á
að skoða.“ Gunnhildur segir mikilvægt að beita þessu áhorfi sem
iðjuþjálfar eru svo ótrúlega góðir í. „Að fara inn og geta einhvern
veginn strax séð hlutina. Það er mikill kostur sem Hafdís er mjög
góð í.“
Gunnhildur réð sig á rannsókna- og heilbrigðisdeild. „Ég ætlaði að
vinna í rannsóknum í sambandi við líkamsbeitingu, en 12 dögum
áður en ég byrjaði var deildin lögð niður og yfirmaðurinn fór með.
Þá var þessi deild bara allt í einu ekki til og ég var búin að segja upp
starfinu á Reykjalundi. Ég kom hérna á nýjan stað og enginn vissi
hvað ég átti að gera,“ rifjar Gunnhildur upp. Málin hafa reyndar
þróast mjög skemmtilega að hennar sögn. „Við Hafdís erum til
dæmis í miklu samstarfi og erum í hreyfi- og stoðkerfisdeild, köllum
við það. Við erum eiginlega þrjár að vinna þar. Mitt svið er í rauninni
allt sem viðkemur hreyfi- og stoðkerfi, ég er til ráðgjafar við
eftirlitsmenn ef það þarf. Hef líka verið að kenna á námskeiðum,
skoða rannsóknir og slíkt. Svo held ég utan um stórt Evrópuverkefni
sem er núna frá 2020 til 2022 sem er tileinkað stoðkerfinu. Þannig
að nú erum við Hafdís í hóp sem er að finna út hvernig hægt sé að
koma þessu áfram inn í þjóðfélagið,“ lýsir hún.
MARGT SPENNANDI Á DAGSKRÁ
Það er ýmislegt skemmtilegt í pípunum sem þær Hafdís og
Gunnhildur eru búnar að vera að undirbúa. „Til dæmis núna í
október byrjuðu fræðslumolar á heimasíðu Vinnueftirlitsins, einn á
dag í 35 daga alveg þangað til að kemur að fyrirhugaðri ráðstefnu.
Þetta eru litlir fróðleiksbútar sem fólk les og í leiðinni réttir það
vonandi betur úr sér, lagar stólinn, ljósið, borðið og allt þetta sem er
í umhverfinu,“ segir Gunnhildur. Síðan er ráðstefnan 19. nóvember
þar sem verður fjallað um samfélagslega ábyrgð. „Svo ótrúlega
mikið er vitað um hreyfi- og stoðkerfið og hvernig hægt er að koma
í veg fyrir skaða þar. Samt sem áður eru meira en 60% veikinda eða
fjarvista í Evrópu vegna stoðkerfis eða -verkja. Við vitum þetta en
erum ekki að gera nóg í því – þetta er áherslan næstu tvö árin hjá
mér,“ bætir Gunnhildur við.
Iðjuþjálfar eiga sannarlega vel heima í starfi Vinnueftirlitsins að
mati Gunnhildar. „Þarna kemur þetta aftur, að vera iðjuþjálfi – það
er rosa gaman að koma með þann vinkil þarna inn. Það var
sjúkraþjálfari í mínu starfi áður og vann mjög flott starf.. Svo kem ég
með aðeins aðra sýn. Við Hafdís vinnum vel saman, við tölum
einhvern veginn sama tungumálið. Þetta er mjög áhugavert og ég
vildi óska að það væru fleiri iðjuþjálfar í Vinnueftirlitinu af því þetta
er starf fyrir iðjuþjálfa, bæði í eftirlitinu sjálfu og eins líka í þessum
innri strúktúr í Vinnueftirlitinu, að fræða,“ lýsir hún.
ÞJÓNUSTA IÐJUÞJÁLFA OG LAGALEG UMGJÖRÐ
VINNUEFTIRLITSINS
Talið berst að aðstoð vegna stoðkerfisverkja út frá vinnu. Væri hægt
að hafa samband við Vinnueftirlitið og fá að ræða við iðjuþjálfa?
Hafdís segir að hægt sé að fá þjónustu viðurkennds þjónustuaðila,
eins og Valdísar Þorsteinsdóttur iðjuþjálfa og vinnuvistfræðings.
„Það hefur verið einn og einn iðjuþjálfi sem hefur farið á vinnustaði
en við segjum alltaf: Hafið samband við iðjuþjálfa eða sjúkraþjálfara
ef þið hafið áhuga. Það er um að gera að nýta sér þá ef þeir eru
nálægt,“ segir hún.
Gunnhildur segir að þær sinni þessu ekki beint en hugsi eins og
iðjuþjálfar. „Þá væri frábært ef til væri fyrirtæki þar sem iðjuþjálfar
færu inn í fyrirtæki og leiðbeindu fólki með líkamsbeitingu og væru
með fyrirlestra og aðstoð með fyrirbyggjandi aðferðum.“ Þarna
kemur lagalegt hlutverk Vinnueftirlitsins við sögu. Hlutverk þess er
að koma á staðinn, meta aðstæður og benda á hvað þarf að bæta,
„en við komum ekki beint með lausnina. Hafdís fer á vinnustað og
sér eitthvað athugavert en hún má ekki koma og segja: Nú farið þið
að kaupa þennan stól og þetta borð. Það má ekki. Svo að hún þarf
að koma inn og segja: Þetta er ekki nógu gott, þið þurfið að finna
lausn á því, ég kem aftur eftir einhvern ákveðinn tíma og skoða
hvort þið eruð búin að bæta þetta. Þannig ef það væri til
iðjuþjálfafyrirtæki sem kæmi þarna inn í millitíðinni væri það flott.
Kæmu flottir iðjuþjálfar sem vita hvað er að, hvað hentar. Spyrja
hvað hentar þér, hvað ertu að vinna lengi og hvernig ertu í fótunum,
koma svo með lausnina. Síðan kæmi Hafdís aftur og tæki út. Það
væri mjög sniðug lausn,“ lýsir Gunnhildur.
Lagalegur stuðningur mætti vera meiri hvað varðar alla líkams-
beitingu og vinnuumhverfi að mati Gunnhildar og Hafdísar. „Það
eru alveg til lög en þau mættu verða ítarlegri, betri og kannski
yfirgripsmeiri. Þar erum við Hafdís einmitt í hóp sem er að beita sér
fyrir því að lögin verði aðeins betri, nákvæmari og víðtækari,“ segir
Gunnhildur. „Við ströndum oft á því að það stendur: Þetta þarf að
vera svona,“ bætir Hafdís við.
FRAMTÍÐARHUGMYNDIR
Umræðan leitar næst til framtíðar. Hafdís hefur mikinn áhuga á að
sinna þunguðum konum frekar. „Ég hef verið að taka auka námskeið
tengt því, hugsa um vinnuumhverfi þeirra, halda þeim lengur í
vinnu með stöðugildi sem passar þeim. Ég vona að það gangi upp,
ég ætla að gera allt sem ég get til þess að hafa áhrif á þetta. Þetta er
komið á Norðurlöndunum og ég reyni alltaf að koma þessu fyrir í
heimsóknum. Að hafa sérstakt stöðugildi fyrir ófrískar konur sem
síðar gæti nýst fyrir þá sem eru að koma úr langtímaveikindum. Ég
vona að þetta verði einhvern tíma að veruleika hjá okkur,“ lýsir hún.
Gunnhildur bætir við að það sé til reglugerð sem styðji þetta starf
og fjalli sérstaklega um þungaðar konur inni á vinnumarkaðnum.
„Það á að taka tillit til þeirra, stendur í lögum. Þar er einmitt góður
stuðningur,“ bendir Gunnhildur á.