Iðjuþjálfinn - 2020, Qupperneq 15
Iðjuþjálfinn 1/202015
sjúkdóma og geta mætt fólki með heilabilun af meiri skilningi. Það
eykur síðan þátttöku fólks í samfélaginu.
Ég er heilavinur af öllu hjarta
Alzheimersamtökin hófu landsátak í febrúar 2020 og opnuðu vefinn
www.heilavinur.is þar sem almenningur er hvattur til að taka þátt í
að gera Ísland að styðjandi samfélagi fyrir fólk með heilabilun. Eliza
Reid forsetafrú og verndari Alzheimersamtakanna varð fyrsti
heilavinurinn á Íslandi. Með því að gerast heilavinur færðu aðgang
að upplýsingum og fróðleik um heilabilun. Allir geta orðið heilavinir
og það eina sem þarf að gera er að gefa til kynna að maður vilji auka
þekkingu sína um heilabilun og vera tilbúinn til að sýna samhug og
vinsemd. Því fleiri sem gerast heilavinir þeim mun meiri líkur eru á
að einstaklingur með heilabilunarsjúkdóm upplifi sig velkominn í
sínu samfélagi og finni fyrir öryggi. Heilavinaverkefnið snýst um að
koma auga á einstaklinginn bak við verkefnið. Að þú takir virkan
þátt í samfélaginu og bregðist við aðstæðum sem kunna að koma
upp þar sem einstaklingur er í vanda og virðist ekki ráða við
aðstæður, að þú réttir fram hjálparhönd og sýnir frumkvæði.
Heilavinur ber lítið hjarta í barminum sem tákn um að hann sé
tilbúinn að leggja sitt af mörkum í átt að styðjandi samfélagi fyrir
fólk með heilabilun. Heilavinur getur sýnt samhug og vinsemd á
margan hátt, til dæmis með að sýna þolinmæði og komið
einstaklingi til hjálpar sem lendir í erfiðleikum í matvörubúð í að
finna vörur, í biðröð á kassa eða þegar greiða á fyrir vörurnar.
Sömuleiðis getur það birst í að koma viðkomandi til hjálpar ef
einstaklingur ratar ekki heim og hefur villst af leið. Hugsa má það
að vera heilavinur á svipaðan hátt og skyndihjálparnámskeið,
maður kemur fólki í neyð til aðstoðar.
Akureyrarbær – fyrsta styðjandi samfélagið á Íslandi
Eitt af fyrstu skrefum innan verkefnisins var að útbúa fræðsluefni til
að þjálfa leiðbeinendur víðs vegar um landið. Þeir munu að lokinni
þjálfun dreifa út þekkingu um heilabilun í sinni heimabyggð. Fyrstu
leiðbeinendanámskeiðin á Íslandi fóru fram í byrjun september
2020 á Akureyri og voru þau heilsdagsnámskeið þar sem
leiðbeinendur fengu fræðslu um heilabilun og hvernig þeir gætu
lagt sitt af mörkum til að breiða út þekkinguna. Námskeiðin voru
auglýst á heimasíðu Alzheimersamtakanna og voru þau fyrstu af
vonandi mörgum leiðbeinendanámskeiðum um land allt. Hlutverk
leiðbeinenda er að hjálpa öðrum að öðlast meiri skilning um
heilabilun og hvetja fólk í samfélaginu til að sýna samhug og
vinsemd. Leiðbeinendur halda kynningarfundi þar sem þeir fræða
um heilabilunarsjúkdóma og hvernig hægt er að hafa jákvæð áhrif
á lífið í samfélaginu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur
þeirra. Engar sérstakar faglegar forsendur þarf til að gerast
leiðbeinandi en það er ákveðinn kostur að hafa þekkingu á
heilabilun. Mikilvægast er vilji og áhugi til að halda kynningarfundi
og miðla til samfélagsins, til dæmis ættingja og vina, stofnana og
vinnustaða og í nærumhverfinu. Kynningarfundir sem leiðbeinendur
halda eru um 45–60 mínútur og leiðbeinandi fær kynningarefni og
leiðbeinandahandbók frá Alzheimersamtökunum. Ef stofnun óskar
eftir að fá kynningarfund um heilabilun og helmingur starfsmanna
mætir á fræðslufundinn þá fær fyrirtækið viðurkenningarskjal og
getur kallað sig „Við erum heilavinir“.
Mælt er með að hengja skjalið á áberandi stað í fyrirtækinu þar sem
allir geta séð að hér er fyrirtæki sem er styðjandi fyrir fólk með
heilabilun. Leiðbeinendur hvetja einnig alla innan fyrirtækisins að
gerast heilavinir og skrá sig á www.heilavinur.is. Samstarf
Alzheimersamtakanna og ÖA lýkur í lok ársins 2020 varðandi þetta
fræðsluverkefni og þá taka leiðbeinendur við. Leiðbeinendurnir
halda tengslum við samtökin og geta leitað eftir efni og upplýsingum
ef þess er þörf. Fræðsluefni sem var útbúið í samstarfi við ÖA nýtist
á öllu landinu og Alzheimersamtökin hafa hug á að hefja samstarf
við fleiri samfélög og gera allt Ísland að styðjandi samfélagi fyrir
fólk með heilabilun.
Markmiðið er: Vinur fyrir hvern einstakling með heilabilun
Huga þarf að þörfum fólks með heilabilun. Hinn veiki þarfnast
huggunar, til dæmis umhyggju, nærveru, linunar sársauka, angistar
og sorgar. Hann þarf að upplifa öryggi og ró í samskiptum við aðra.
Hann þarfnast annarrar manneskju, hvort sem það er maki eða
umönnunaraðili sem sér um að halda heildaryfirsýn því hann
sjálfur ræður ekki við það.Tengslamyndun er mikilvæg til að finna
fyrir öryggi. Einnig er þar sálfélagsleg þörf að finna að tilheyra hóp
og vera hluti af einhverju stærra og meira. Hinn veiki hefur þörf fyrir
að taka þátt í virkni sem hefur tilgang fyrir hann og þar sem hann
getur nýtt eigin úrræði og krafta sem byggjast á hans eigin lífssögu.
Að hafa óbrotna sjálfsímynd, að vita hver maður er og geta deilt því
með öðrum er mikilvægur hluti af okkur sem manneskjum. Leggjum
okkar af mörkum, breiðum út þekkingu um heilabilun og hjálpumst
að við að brjóta niður þá fordóma sem fylgja greiningu. Tökum
virkan þátt í að hjálpa fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra
til að eiga innihaldsríkt líf þar sem samfélagið mætir þeim af
virðingu, skilur vanda þeirra og aðstoðar eftir fremsta megni, því
með stuðningi er hægt að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir sjúkdóm.
Með ykkar hjálp tekst okkur að finna heilavini víðs vegar um landið
og vinna markvisst að því að mæta þörfum fólks með heilabilun og
aðstandenda þeirra.
Markið er sett á að safna 5000 heilavinum – vini fyrir hvern
einstakling með heilabilun. Farðu á www.heilavinur.is og skráðu
þig, þetta kostar ekki neitt og eykur þátttöku þína í samfélaginu og
vitneskju um heilabilunarsjúkdóma. Vertu með, þitt framlag skiptir
máli!
Ef þú vilt fræðast meira um heilabilun þá eru Alzheimersamtökin
með öfluga heimasíðu www.alzheimer.is og erum einnig á Face-
book og Instagram: Alzheimersamtokin.
Heilavinaverkefnið er á www.heilavinur.is og Facebook og Insta-
gram: Heilavinur.