Iðjuþjálfinn - 2020, Page 29
Iðjuþjálfinn 1/202029
Hún segist hafa fundið það víða erlendis að það er enginn aðili
þarna úti að tryggja að þú sért búinn að fara á námskeið. Fólk er
meira meðvitað um þetta hér. Erlendis er oft meira framboð af
námskeiðum en sjaldan aðgangur að þessum frábæru styrkjum
eins og hjá BHM. Víða þarf fólk að borga úr eigin vasa og taka eigin
orlofsdaga í námskeiðið.
Valerie nefnir líka það sem er sameiginlegt milli landa; það er
umhyggja og metnaður fyrir skjólstæðingum sínum. Víða um heim
sé stéttin meiri karlastétt en hér á landi en það breyti því ekki hver
kjarni iðjuþjálfunar sé. Hún talar um tengslin við þjálfarann. „Maður
sá það bara. Ef tengslin eru góð og maður finnur fyrir þessari
virðingu og samvinnu og þjálfari hefur trú á að þetta muni ganga
(...) ég tel að það sé mjög mikilvægt og vanmetið.“ Þjálfun gengur
betur ef þjálfarinn trúir á þá meðferð sem hann veitir og er ófeiminn
við að prófa sig áfram. Hún telur að sjá megi fleiri breytingar á
næstu árum, starfið verði iðjutengdara „því við erum alltaf að
tengja betur hvað er orsök og hvað afleiðing, og að heilinn hefur
meiri aðlögunarhæfni en áður var talið. Hægt er að efla þessar
tengingar aftur og tengja við iðju, það sem fólk vill gera og hvað það
langar að gera,“ lýsir hún.
FRAMTÍÐARSÝN
Þegar Valerie er spurð um framtíðarsýn segir hún: „Ég held það sé
kannski meira á þessu persónulega sviði; hafa meiri tíma fyrir
áhugamál og fjölskyldu.“ Hún segist vilja huga að eigin heilsu og
gera eitthvað skemmtilegt, viðhalda eigin iðju og jafnvægi og nefnir
að upplifunin af COVID-19 ýti henni, og jafnvel bara samfélaginu
öllu, enn betur inn í þann hugsunarhátt.
Aðspurð um áhugamál segist hún, feimnislega, vera nýbyrjuð að
læra á fiðlu. Hún segist hafa gaman af þessu, eins konar iðjuþjálfun
fyrir hana sjálfa. Þá langar hana að hafa meiri tíma til að elda og
baka. Hún segir það hafa verið viðbrigði frá því í Ástralíu,
„menningarmunur tengdur iðjunni “, hvað fólk bakaði miklu meira
hér á landi. Í Ástralíu var meira farið í „cheesecake shop“ eða keypt
annað bakkelsi. Hún segir með glettni að maðurinn hennar hafi
aldrei fengið heimabakað bakkelsi heima hjá sér á jólunum. Hana
langar að hafa tíma fyrir gönguferðir og hitta vinkonur. Hún vill
reyna að vera nægjusöm og telur að COVID-19 hafi kennt okkur
hvað skipti máli.
Þegar spurt er um framtíðarsýn varðandi fagið segist hún vera
spennt að taka þátt í þróun starfsins í Sjálfsbjörg, sem nú er í gangi.
Þetta er endurhæfing þar sem margir fagaðilar koma að og sinna
yngra fólki með heilaskaða, fólki sem er „slow to recover“, hefur
lokið tíma sínum í annarri endurhæfingu, t.d. á Grensásdeild, og
kemur svo í Sjálfsbjörg. Starfið snúist um meira langtímaeftirlit og
þjálfun þar sem fólk getur komið inn og út úr þjónustunni. Hún
segist vera sérstaklega spennt fyrir þessu verkefni því þarna sé verið
að horfa til þess að endurhæfing eftir heilaskaða er ekki einfaldlega
búin eftir fyrstu tvö árin eða þar um bil, það eru svo miklir
möguleikar að ná meiru.
Valerie segist vilja halda tengslum við Háskólann á Akureyri en
nefnir sérstaklega metnað sinn fyrir unga fagfólkinu okkar og sér
jafnvel fyrir sér að taka þátt í þema þar sem eldri iðjuþjálfar með
meiri reynslu styðji við nýja iðjuþjálfa. „Hvað getum við gert til þess
að tryggja að þetta góða fólk haldi áfram að eflast og mennta sig?“
Hún segist vilja tryggja að stéttin blómstri, í hana sæki fleira fólk og
hún geti vel hugsað sér eitthvað slíkt starf.
Eftir skemmtilegt viðtal við Valerie, þar sem hún sagði okkur frá
fjölskyldu sinni og áhugamálum, námsferli og starfi og upplifun af
iðjuþjálfun á þremur áratugum í fjölmörgum löndum ásamt
framtíðarsýn hennar í einkalífi og starfi, kveðjum við.
POWERFUL
PRACTICE