Iðjuþjálfinn - 2020, Qupperneq 31
Iðjuþjálfinn 1/202031
áratugir áður en námsbraut yrði sett á laggirnar, hvað þá að hún
skyldi rísa norðan heiða 1997. Hope starfaði á Kleppi frá 1974 til
1977. Hún var ekki bara framandi og öðruvísi í tali, útliti, hegðun
og fatavali, hún var óvenjulega opin, jákvæð, og styðjandi. Það
veitti mér styrk hvað hún hafði mikla trú á mér og áhuga á því sem
ég fékkst við. Hope hefur ekkert breyst í gegnum árin, hún hefur
enn brennandi áhuga á fólki, gefur því kraft og hefur enn sama
smekk fyrir skrautlegum, fjólubláum fötum, stuttum pilsum,
litríkum skartgripum og háum stígvélum. Í fyrstu vissi ég ekkert
um „geð“, vissi ekki einu sinni að fólk hefði geðheilsu hvað þá
geðheilsuvanda. Hope hafði ekki aðeins áhrif á mig heldur hefur
öll iðjuþjálfastéttin notið góðs af henni og hennar samböndum
vestanhafs. Hún var m.a. formaður Iðjuþjálfafélagsins í yfir tvo
áratugi, 1976 til 1998 og formaður Geðhjálpar 1981 til 1986. Þar
kom hún á sjálfshjálparhópum og stóð fyrir fræðslu fyrir
almenning, aðstandendur og fagfólk. Henni tókst að fá eftirsótta
fræðimenn til að stoppa á leið sinni yfir til Evrópu. Ég vil nefna tvo
þeirra sem vógu þungt sem áhrifavaldar; Judy Chamberlin og
Gary Kielhofner. Judy, sem var baráttukona geðsjúkra, kom 1985
og aftur 2006. Hún skrifaði bókina On our own 1979, sem hafði
djúpstæð áhrif á mig. Í bókinni lýsir hún varnar- og valdaleysi
geðsjúkra og baráttu þeirra til áhrifa. Hún var frumkvöðull í bata-
og notendarannsóknum sem lögðu grunninn að bata hvetjandi
þjónustu. Í fyrstu heimsókn hennar voru ekki margir sem trúðu að
geðsjúkir gætu haft áhrif á eigin málaflokk. Í seinni heimsókninni
var kominn jarðvegur fyrir hennar hugmyndir. Gary Kielhofner
iðjuþjálfi hélt námskeið hér fyrir stéttina 1993. Ég hafði orðið fyrir
áhrifum af The Model of Human Occupation – „MOHO-líkaninu“
um iðju mannsins, í vísindaferð minni til Bandaríkjanna 1984. Ég
sótti fyrirlestur Garys og margir iðjuþjálfar sem ég hitti þar voru
farnir að tileinka sér þessa nálgun. Þó að ég skildi ekki nema hluta
af faglíkaninu þá hafði ferðin tilætluð áhrif.
Grensás
Árið 1976, sama ár og nokkrir iðjuþjálfar stofnuðu Iðjuþjálfafélag
Íslands, komst ég inn í iðjuþjálfaskóla í Þrándheimi í Noregi. Fagið
var ekki kennt hér á landi og erfitt að komast í nám en flestir fóru
til Danmerkur. Ég var fyrsti íslenski iðjuþjálfinn sem útskrifaðist
frá Noregi, 1979, sama ár og Iðjuþjálfafélag íslands gaf út sitt
fyrsta fréttablað. Það var röð tilviljana sem olli því að mér var
hleypt í gegn, en ég vil nefna einn mann, Magnús Kjartansson,
fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Ég kynntist honum í gegnum
hópastarfið sem systurnar á Grensás höfðu treyst mér fyrir. Ég
setti af stað hópaverkefni sem hafði það að markmiði að fólk
skemmti sér og hefði gaman. Mér fannst hafa heppnast vel ef mér
tókst að fá fólk til að gleyma sér og hlæja svo tárin hrundu. Magnús
kunni að meta þennan galsa sem eflaust fylgdi því að vera ungur
og vita ekki betur. Með okkur tókst vinátta og hann vildi fá að
fylgjast með mér. Hann var áhugasamur um hvernig gengi að
komast í námið og tók það ekki í mál að ég gæfist upp. Ég naut því
dýrmætrar leiðsagnar hans í ferlinu og loks játuðu Norðmenn sig
sigraða og mér var hleypt inn sem aukanemanda með afar
stuttum fyrirvara haustið 1976.
Dagdeild Borgarspítalans
Ég var alls ekki á leiðinni heim þegar mér barst símtal frá Íslandi.
Páll Eiríksson geðlæknir hringdi um það leyti sem hann var að
setja á stofn fyrstu dagdeild sinnar tegundar rekna af
Borgarspítalanum staðsetta á Skólavörðustígnum, 1980. Dagdeild
fyrir geðsjúka með þverfaglegri nálgun, þar sem geðlyf voru ekki í
forgrunni. Á þessum árum höfðu margir orðið háðir svokölluðum
bensódín-lyfjum. Í teymið vantaði iðjuþjálfa. Hann hafði góða
reynslu af iðjuþjálfum í Danmörku. Hann komst að því að ég hefði
fengið styrk til námsins og nú væri komið að skuldadögum. Ég
kom af fjöllum, mundi ekki til þess að hafa sótt um neinn styrk.
Það kom svo í ljós að móðir mín stóð á bak við þennan styrk,
eflaust hrædd um að ég myndi aldrei skila mér til baka frá
útlöndum. Ég var komin í góða vinnu í Þrándheimi; var að þróa
iðjuþjálfun á Rotvoll geðsjúkrahúsinu þar, með áherslu á
atvinnutengingu. Mér hafði verið boðin stundakennsla í skólanum
og byrjuð að búa með núverandi eiginmanni mínum, Jon Kjell. Ég
væri eflaust enn búsett í Noregi og íslenska geðheilbrigðiskerfið
hefði verið laust við mig ef þessi styrkur hefði ekki komið til.
Ég vann eitt ár á Dagdeild Borgarspítalans. Af frábæru starfsfólkinu
lærði ég heil ósköp. Mestur var þó sá lærdómur sem fólginn var í
eigin mistökum. Mér tókst t.d. að týna fagsjálfsímyndinni innan
árs. Starfsemin byggði á hópastarfsemi þar sem tveir og tveir
fagmenn unnu saman. Ég bara aðlagaði mig að þeirri stétt sem ég
vann með hverju sinni og missti því sjónar af sérstöðu iðjuþjálfunar.
Ég kunni hvorki að setja mörk né verja sjálfan mig. Mee too
byltingin í órafjarlægð. Ég eins og kynsystur mínar tók á mig alla
ábyrgð af kynferðislegu áreiti sem kom frá einstaklingi í
valdastöðu. Aftur naut ég góðs af handleiðslu Hope. Til að bjarga
eigin geðheilsu ákvað ég að hætta á dagdeildinni. Sjálfstraustið
hrunið, trúin á sjálfa mig hvarf og ég vildi yfirgefa geðgeirann.
Æskuvinkonu minni tókst að hrista af mér slenið og stakk upp á
að við yrðum verkstjórar í unglingavinnu Kópavogs sumarið 1981.
Þar náði ég áttum og komst a.m.k. að því að ég væri betri iðjuþjálfi
en verkstjóri í hleðslu hraunveggja. Enn þann dag í dag þegar ég á
leið um Kópavoginn tjékka ég á hvort hleðsluveggirnir sem minn
flokkur hlóð haldi nú.
Tómas Helgason
Tómas Helgason geðlæknir var sonur Helga Tómassonar, sem
lagði áherslu á virkni til bata og réð fyrsta iðjuþjálfann Jónu til
starfa. Tómas tók við valdasprota föður síns og stýrði fyrst
Kleppsspítala og síðar einnig geðdeildum Landspítalans. Tómas
var ákveðinn, fylginn sér og valdamikill baráttumaður. Honum
tókst að sannfæra stjórnvöld um að geðdeildir ættu heima á lóð
Landspítalans. Geðsjúkdómar ættu að njóta sömu virðingar og
aðrir sjúkdómar og þá ætti að meðhöndla innan veggja almenns
spítala. Það þótti ekki við hæfi að senda geðsjúka úr augsýn; fjarri
mannabyggðum eins og staðsetning Klepps var í upphafi.
Glæsileg fjögurra hæða bygging reis við Eiríksgötuna 1980 og heil
hæð frátekin fyrir iðju- og sjúkraþjálfun. Auglýst hafði verið eftir
iðjuþjálfum. Sylviane Lecoultre, svissneskur iðjuþjálfi búsett á
Íslandi, sótti um. Hún þurfti fyrst að sanna að hún kynni til verka
og gæti tjáð sig á íslensku, var því ráðin sem gangastúlka en ekki
iðjuþjálfi á móttökudeild 33c. Það var ekkert öðruvísi þá en nú að
erfitt var fyrir útlendinga að fá viðurkennda menntun sína, hvað
þá að þeim yrði falin ábyrgð. Húsnæðið á fyrstu hæðinni stóð autt
og stjórn Iðjuþjálfafélagsins óttaðist að það yrði nýtt í annað ef
enginn yrði ráðinn. Iðjuþjálfaherbergi fylgdu einnig hverri deild.
Kristjana Fenger sem vann á Reykjalundi og var virk í stjórn
félagsins hafði samband við mig og útskýrði fyrir mér stöðuna. Ég
lét til leiðast og fór á fund með Kristjönu til Tómasar. Áður en ég
vissi hafði ég ráðið mig, 25 ára gömul, blaut á bak við eyrun í
yfirmannsstöðu. Stuttu áður hafði ég hugleitt að yfirgefa starfið
en nú hafði ég tekið á mig aukna ábyrgð.
Eins og fyrri yfirmaður, Páll Eiríksson, lagði Tómas áherslu á
þverfaglega nálgun og studdi ötullega við aðrar fagstéttir. Hann
vildi að geðsjúkir hefðu sama aðgengi að þjónustu og aðrir