Iðjuþjálfinn - 2020, Qupperneq 32

Iðjuþjálfinn - 2020, Qupperneq 32
32Iðjuþjálfinn 1/2020 sjúklingar. Sér við hlið hafði hann öflugan bandamann, Þórunni Pálsdóttur, hjúkrunarfræðing. Hún gjörbreytti öllum aðbúnaði geðsjúkra. Tómas hlúði ekki aðeins að starfseminni, hann treysti okkur og deildin byggðist upp án afskipta annarra. Hann sá einnig til þess að stéttin væri vel launuð. Fyrsta áratuginn var hún t.d. á betri kjörum en sambærilegar stéttir. Tómas hélt engu að síður vel um stjórnartaumana, fylgdist vel með og sýndi tennurnar ef svo bar undir. Þótt að Kristjana kæmi ekki til starfa fyrr enn eftir hálft ár, var hún mér innan handar í öllu ferlinu og funduðum við reglulega. Sylviane kom úr barnsburðarleyfi í hlutastarf stuttu eftir áramótin 1982 og starfaði þá sem iðjuþjálfi. Allt rýmið sem úthlutað var í iðjuþjálfun kom henni skemmtilega á óvart þar sem enginn hafði sagt henni frá því, mánuðina sem hún vann sem gangastúlka. Það var einmanalegt og erfitt að byrja að starfa í hálftómu stóru rými. Ég var því mest uppi á deildum og kynntist fyrstu skjólstæðingunum á mót- tökudeildum 32c og 33c. Ég sat oft við rúmgafl þeirra, var inni í setustofu eða matsalnum og spjallaði við þá um daginn og veginn. Ég vildi mynda jákvæð tengsl til að byggja frekari samvinnu og þátttöku á. Ég hafði brennandi áhuga og löngun til að láta gott af mér leiða. Ég hlustaði á sögur þeirra, dró ekki frásagnir þeirra í efa og gerðist bandamaður þeirra ef svo bar undir. Sem dæmi um nálgun náði ég í gullfisk fyrir skjólstæðing sem var ör og erfitt var að skilja hvaðan öll þessi angist kom. Jú, hann átti gullfisk og engan að til að sjá um hann þegar hann var fjarri í veikindum sínum. Ég vissi ekki hvort fiskurinn væri þegar dauður eða tákn fyrir eitthvað annað, jafnvel hugarburður. Ég tók sénsinn, tók strætó upp í Breiðholt og fann fiskinn í góðu yfirlæti. Bakaleiðin hefði getað endað með ósköpum ef ég hefði misst glerskálina, vatnið og fiskinn á skrykkjóttri akstursleið í bæinn. Erfitt var að gera öllum til geðs og vaxandi óánægja meðal einstakra starfsmanna fór að gera vart við sig. Menn skildu ekki hvað ég var að gera, hvað ég væri að planleggja og hvert ég væri að fara. Ég átti að vera sýnileg, á ákveðnum stað, svo hægt væri að senda þá sjúklinga til mín sem þeir töldu að þyrfti að hafa ofan af fyrir. Á þessum tíma var ég ekki búin að vopna mig fræðilegum röksemdafærslum eða viðurkenndum rannsóknarniðurstöðum. Ég var ung, ein í minni grein og auðvelt skotmark. Í krafti stöðu sinnar sló Sigmundur Sigfússon yfirlæknir á 32c verndarhring um mig. Hann gaf sér tíma til að hlusta á mig og treysti mér síðan. Ef hans hefði ekki notið við hefði ég ekki haldið út, meðan ég beið eftir frekari liðsstyrk frá Sylviane og Kristjönu. Sylviane Lecoultre, Kristjana Fenger og Guðrún Pálmadóttir Sylviane hafði lært í Lausanne í Sviss og hennar áherslur voru m.a. hugsanir, tilfinningar, hreyfing og áhugahvöt. Kristjana lauk námi í Kaupmannahöfn og hafði t.d. áhuga á dansi, listsköpun, smíðum og útivist. Mínar áherslur lágu í myndsköpun, leiklist og hópastarfi. Kristjana var skipulagssérfræðingurinn og naut sín í að skipuleggja hvern krók og kima og hvað ætti heima hvar. Hún bjó til skapalón, ramma og kassa – hvern með sinn lit og tákn. Hún sá um smíðastofuna og innleiddi dans og tónlistarhópa. Ferðalög á miðhálendið voru að hennar frumkvæði. Sylviane kom á körfubolta-, blaktímum og skokki, fyrst í Valsheimilinu en færðist síðar yfir í Íþróttahús fatlaðra í Hátúninu. Hún fangaði þá sem höfðu áhuga á tafli og kom á skákmótum. Guðrún Pálmadóttir, sem útskrifaðist frá Árósum, kom til starfa 1985 eftir að hún hafði lokið meistaranámi í fjölskyldufræðum í Colorado í Bandaríkjunum. Hún og Kristjana höfðu unnið saman á Reykjalundi, báðar mjög virkar í Iðjuþjálfafélaginu. Þó að þær ynnu ekki saman nema í nokkur ár á geðsviði LSH lagði samstarf þeirra og metnaður grunninn fyrir komandi iðjuþjálfa. Þær gerðu kynningarbækling, útbjuggu starfsmöt og komu reglu á samskipti og fundi innan sem utan deildarinnar. Starfsemi deildarinnar var skipt upp þannig að annar hlutinn var vinnutengd verkefni en hinn tengdist eigin umsjá, áhugamálum og/ eða skapandi starfi. Í vinnutengda hlutanum var smíða- og saumaverkstæði. Mjög fljótlega tókum við yfir Prentverk Landspítalans þar sem tveir eldri karlmenn fylgdu með. Prentverkið sá um alla ljósritun og bæklingagerð fyrir starfsfólk Landspítalans. Starfsemi iðjuþjálfunar varð sýnileg almennu starfsfólki spítalans. Verkefnin gáfu skjólstæðingum tækifæri til að meta hvar þeir væru staddir vinnulega; hvort þeir gætu haldið tímaáætlun, haldið sér að verki, beðið um aðstoð, átt í samskiptum, nýtt sér pásur o.s.frv. Engin stöðluð matstæki voru til á þessum tíma. Eftir hádegi voru verkefni sem tengdust áhugamálum, hópastarfi og tjáningu. Fólk gat þá gert ýmislegt fyrir sjálft sig og nýtt sér aðstöðuna eða tekið þátt í hópavinnu. Við breyttum t.d. öðru salerninu í myrkrakompu til að auka valmöguleikana. Deildin var vel búin tækjum og tólum, s.s. vefstólum, smíðavélum, rennibekk, öllu til sauma, leirvinnslu og stórum keramikofni. Við nutum einnig góðs af aðstoðarmönnum og þegar vel áraði var hægt að ráða listmeðferðarfræðing, myndlistar-, tónlistar- og leiklistarfólk. Erfitt var að halda í starfsmenn með annan bakgrunn, því stöðugildi spítalans tengdust öll heilbrigðisstarfsfólki. Þessar ráðningar áttu líka að vera tímabundnar meðan ekki fengjust iðjuþjálfar. Stöðugildi iðjuþjálfa sem og fjármagn til deildarinnar rýrnaði síðan með árunum. Sjúkraþjálfun Það er ekki hægt að segja frá upphafsárum iðjuþjálfunar án þess að nefna sjúkraþjálfarana, Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Huldu Hákonardóttur. Anna hóf störf 1976 við Endurhæfingardeild Landspítalans. Það undirstrikar enn frekar hversu víðsýnn Tómas var að hann fékk það í gegn um leið og geðdeildin opnaði 1980 að Anna kæmi tvisvar í viku. Hún mætti á deild 33c og bauð upp á hreyfingu og slökun. Hún var síðan ráðin alfarið á geðdeildina 1982 og Hulda lagði henni lið nokkrum árum seinna, þá nýkomin frá Danmörku. Anna Stína og Hulda unnu út frá sálvefrænni nálgun, sem fáir þekktu til hér á landi. Í þá daga var ekki farið að rannsaka á hvern hátt líkaminn geymir áföll, minningar og úrvinnslu tilfinninga. Gott samstarf og náið var alla tíð á milli sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa á geðsviðinu. Ég á dýrmætar minningar úr samstarfi mínu með Önnu Stínu. Við héldum t.d. í mörg ár úti vikulegum sundferðum í sundlaug Sjálfsbjargar í Hátúni. Geðsjúkraþjálfun lagðist niður 2004. Þeirra nálgun naut ekki lengur stuðnings og önnur starfsemi og stéttir tóku yfir húsnæðið. Trúin á bata færðist þá meira yfir á efnafræði, DNA og hugræna atferlismeðferð. Faglíkön Á geðdeildum voru samfélagslækningar viðhafðar víða á áttunda áratugnum. Stéttir eins og sálfræðingar og félagsráðgjafar voru að hasla sér völl og þverfagleg nálgun að ryðja sér til rúms með kröfu um jafnræði milli stétta. Á níunda áratugnum kom ný kynslóð geðlyfja á markað, lyf sem áttu að bylta lífi geðsjúkra á sama hátt og þegar fyrstu geðlyfin komu á markað á sjötta áratugnum. Teymisvinna þróaðist í að vera meira í orði en á borði. Skjólstæðingar höfðu ekkert að segja um eigin meðferð og aðkoma og áhrif aðstandenda var nánast engin.

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.