Iðjuþjálfinn - 2020, Qupperneq 33

Iðjuþjálfinn - 2020, Qupperneq 33
Iðjuþjálfinn 1/202033 Á þessum tíma var engin sértæk iðjuþjálfahugmyndafræði. Þekking og fagleg rökleiðsla byggðist á fræðum annarra stétta eins og félags-, læknis- og sálfræði. Við nýttum því kenningar og faglíkön frá sálfræði, sálfélagsfræði, kerfis- og atferliskenningum. Sérstaða okkar einkenndist þá eins og nú af þátttöku í iðju. Í gegnum þátttöku sást hvar styrkleikar fólks lágu, áhugasvið og áhugahvöt. Helst vildum við vinna utan veggja spítalans, en það reyndist strembið þar sem allar stöður iðjuþjálfa voru á stofnunum og við fáliðaðar. Fáir skiluðu sér úr námi á þessum árum og árið 1985 voru aðeins 35 iðjuþjálfar starfandi á öllu landinu. Fyrstu skrefin í átt að batamiðaðri þjónustu Iðjuþjálfarnir tengdust móttökudeildum 32c og 33c til að byrja með; tóku þátt í fundum þar og voru á meðal skjólstæðinganna á deildunum. Á fyrstu árunum voru allir velkomnir að taka þátt í starfsemi iðjuþjálfunarinnar en síðar tóku tilvísanir yfir. Allir iðjuþjálfarnir nýttu sér eldhúsið einu sinni í viku sem hluta af eigin umsjá, til að rækta áhugamál og efla félagsleg samskipti. Unnið var með 2-3 skjólstæðingum í senn. Eldhússtörf voru hluti af færnimati. Umræður í eldhúsinu urðu oft grunnur til að leggja á ráðin hvað skipti máli og hvert fólk vildi stefna. Þarna voru oft fyrstu skrefin tekin við að taka stjórn, ákveða hvað skyldi eldað og hvernig. Pláss var fyrir gesti í mat. Lítil skref í valdayfirfærslu voru þarna tekin því aðrir fagmenn fengu skýr skilaboð frá skjólstæðingum sínum – ef þeir stæðu sig ekki, þá var þeim ekki boðið. Sylviane og Einar Einarsson félagsráðgjafi tóku þátt í tilraunaverk- efni á vegum Reykjavíkurborgar og geðdeildanna. Komið var á sambýli með skjólstæðingum sem höfðu útskrifast. Þau unnu á vettvangi og út frá áherslum íbúa. Þessi nálgun var nýmæli því hún fór þvert á þá forræðishyggju sem hafði verið viðhöfð. Þessi nálgun þótti byltingarkennd og skapaði oft togstreitu hjá öðru starfsfólki og aðstandendum en þykir nú sjálfsögð. Deildin stóð fyrir árlegum ferðalögum. Þar gafst tækifæri til að vinna á jafningjagrunni og mynda mikilvæg tengsl á milli þátttakenda. Þessar ferðir tóku þrjá daga, tveir iðjuþjálfar ásamt 10 til 18 skjólstæðingum. Við nýttum almennar samgöngur, deildum svefnplássi og samferðamenn voru oft útlendingar sem höfðu ekki hugmynd um hvaðan við komum. Í þessum aðstæðum voru ótal tækifæri til að taka stjórn, láta gott af sér leiða og finna mikilvæg hlutverk. Í óbyggðum þurftum við að treysta á okkur sjálf án öryggisnets spítalans. Ferðalangarnir hvöttu hver annan til dáða, hvort sem það var að klára sjö tíma göngutúr, komast upp á fjall, búa til mat, sofa við hrotur eða takast á við geðræn einkenni. Í þessum ferðum upphófst samkennd sem seinna átti eftir að nýtast mörgum okkar í mannréttindabaráttu geðsjúkra. Áhrifavaldar í menntun Iðjuþjálfastéttin stundar stöðugt endurmenntun og fylgist með nýjungum. Ég vil nefna nokkra áfanga sem höfðu hvað mest áhrif á mig í byrjun og veittu mér grundvöll til að styðja síðar við aðra í stéttinni. Hope benti mér á og hjálpaði mér að sækja um vísindaferð til Bandaríkjanna á vegum iðjuþjálfafélags þar; AOTA. Árið 1984 fór ég í tveggja mánaða námsferð og fékk að heimsækja og kynna mér iðjuþjálfastarfsemi sem þótti standa upp úr á þeim tíma. Þar kynntist ég t.d. Fountain house, alþjóðlegri aðferð byggðri á not- endum; aðferð sem Klúbburinn Geysir starfar eftir, hugmyndum Gary Kielhofner um Líkanið um iðju mannsins og samfélagsþjónustu. Ég kynnti mér á hvern hátt listgreinar voru nýttar, s.s. leik-, mynd- og danslist. Jarðvegurinn hér heima var ekki tilbúinn fyrir allar þær hugmyndir og áhrif sem þessi ferð hafði á mig, en reynslan og þekkingin sem ég aflaði mér þarna úti gerði mér seinna kleift að styðja aðra þegar réttar aðstæður sköpuðust. Þegar geðsviðið bauð upp á tveggja ára sérhannað handleiðslunám 1986–1988 fyrir fagfólk, stóð ekki á mér að taka þátt. Ég hafði sjálf lent í fagímyndarkreppu og óþarfa árekstrum þegar ég var nýútskrifuð. Ég vildi leggja mitt af mörkum og koma í veg fyrir að kollegar mínir myndu lenda í sömu sporum. Nanna K. Sigurðardóttir og Sigrún Júlíusdóttir, báðar félagsráðgjafar og þungavigtarkonur í þverfaglegri samvinnu á geðdeildunum á áttunda og níunda áratugnum, lögðu áherslu á mikilvægi þess að fagfólk þekkti eigin styrkleika og veikleika. Það væri ekki nóg að vera góður í fræðunum, það þurfti að þekkja eigin drifkraft, varnarhætti og yfirfærsluáhættu í skjólstæðingavinnu. Ég gat því mjög fljótlega boðið upp á faghandleiðslu og hef handleitt á fjórða tug iðjuþjálfa. Að veita kollegum mínum innblástur hefur ekki síður verið mér mikilvægt en skjólstæðingavinnan. Þróun þjónustunnar Iðjuþjálfar voru mjög virkir á bernskuárum stéttarinnar. Enginn sem kom heim úr námi slapp við að gerast virkur félagsmaður eða vinna í a.m.k. einni nefnd á vegum félagsins. Alls kyns bæklingar voru gerðir til að fræða almenning því hann mátti ekki fara á mis við þessa stétt og ekki rugla henni saman við aðrar. Á þessum tíma var líka reynt til þrautar að fá samninga við Tryggingastofnun sem nú heitir Sjúkratryggingar Íslands. Í þá daga átti það sama við okkar stétt og skjólstæðingana; við vorum best geymd inni á stofnunum. Iðjuþjálfar hafa alltaf sett í forgang að vinna meðal fólks; í þeirra eigin umhverfi. Sú nálgun sló ekki í takt við hugmyndafræði þess tíma en nú hafa breytingar orðið í þá átt að áherslur fagsins og þjónustan færist æ meir í nærumhverfið. Geðið er nú allra og ekki lengur tengt þeim sem eru veikir. Geðrækt er nú ríkur þáttur í heilsueflingu, mennta- og atvinnustefnu og stefnumótun stjórn- valda. Áherslur iðjuþjálfafagsins eru nú orðnar almennar og út- færðar af fleiri stéttum. Nú þykir ekkert sjálfsagðra en að vinna út frá styrkleikum fólks og að markmið séu sett. Þverfaglegir hópar vinna nú á vettvangi, jákvæð sálfræði og almenn lýðheilsa þykir sjálfsögð. Jákvæð áhrif hláturs og kímni hefur verið staðfest með rannsóknum. Almenn áföll eins og efnahagshrunið og nú COVID-19 hafa gert það að verkum að almenningur þekkir af eigin reynslu skaðleg áhrif iðju- og atvinnuleysis, félagslegrar einangrunar og skorts á vali. Iðjuþjálfar þurfa ekki lengur að sanna sig. Stéttin er nokkuð þekkt og þrjár kynslóðir hafa fengið að njóta starfa hennar hér á landi. Nú eru til sértæk iðjumatstæki, faglíkön stýra allri vinnu og sannreynd þjónusta vísar veginn. Til að stéttin lifi af og haldi eftirspurn verður hún ekki aðeins að vera fræðilega sterk, hún þarf að vera tæknilega sinnuð og síðast en ekki síst hagkvæm. Hún má aldrei missa sjónar á praktískum rótum sínum og lausnamiðaðri nálgun. Iðjuþjálfadeildin við Eiríksgötu hefur sinnt hlutverki sínu innan Landspítalans og margt af því sem gert var þar lifir enn góðu lífi, aðeins annars staðar. Þverfagleg samvinna fagfólks þar sem listamenn og notendur spila stórt hlutverk á enn við. Hlutverk iðjuþjálfa er að aðstoða fólk við að halda áfram að takast á við áskoranir lífsins, ... sama hvað.

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.